Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins, telur að frétt Vísis um að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra njóti stuðnings meirihluta þingmanna Framsóknarflokksins til að gegna formennsku í flokknum byggi einungis á getgátum. Þetta leiðir hann af því að í upphafi fréttarinnar kemur fram að Sigurður Ingi sé „að öllum líkindum“ með meirihluta þingflokksins að baki sér.
Í frétt Vísis segir meðal annars: „Samkvæmt áræðanlegum heimildum fréttastofu eru allar líkur á að Sigurður Ingi njóti meirihlutafylgis í þingflokknum þótt formaðurinn eigi sér þar dygga stuðningsmenn. Þeirra á meðal eru Ásmundur Einar Daðason og Vigdís Hauksdóttir sem bæði ætla að hætta á þingi í haust og Gunnar Bragi Sveinsson sem mun leiða flokkinn í Norðvesturkjördæmi.“
Jóhannes Þór gerir athugasemd við fréttina á Facebook, þar sem blaðamaður á Fréttablaðinu hefur deilt henni. „Að öllum líkindum? Eru fréttir nú byggðar á skyggnilýsingum? Eða óskhyggju?“ spyr Jóhannes. Þá segir hann „svolítið sérstakt að sjá heila frétt byggða á getgátum“. Fréttin segi ekkert haldbært um það sem þó eigi að heita aðalefni hennar.
Sigmundur Davíð hefur sjálfur einnig gagnrýnt fjölmiðla fyrir fréttaflutning af sér og meintu tölvuinnbroti:
Athugasemdir