„Brjálæði. Algert brjálæði,“ sagði í lýsingu breska blaðsins The Sun á leik Íslands og Englands þegar Íslendingar komust 2 - 1 í Nice eftir að hafa lent 1 - 0 undir á fjórðu mínútu fyrsta útsláttarleiks Íslands á lokakeppni í knattspyrnu karla.
Karlalandslið minnstu þjóðarinnar í sögu EM bar sigurorð af liði Englendingum í 16-liða úrslitum rétt í þessu. Það var rafmögnuð stemning á Stade de Nice í kvöld og þúsundir Íslendinga fylgdust með liðinu.
„Við erum bara með trú og vilja sem ekkert annað lið hefur“
Varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson og sóknarmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk Íslands. „Mér er drullusama hverjir þeir eru,“ sagði Ragnar í viðtali eftir leikinn. Auk þess að skora mark átti hann ævintýralega tæklingu, sem forðaði líklega jöfnunarmarki Englendinga, og síðan hjólhestaspyrnu sem endaði næstum með þriðja marki Íslendinga. „Við erum bara með trú og vilja sem ekkert annað lið hefur,“ útskýrði Ragnar. „Við vorum bara óheppnir að vinna ekki stærra.“
England fer því úr Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu, þremur dögum eftir að hafa kosið um úrsögn sína úr Evrópusambandinu, eftir að hafa verið dæmt úr leik af Íslandi.
„Aðeins England getur gert þetta. Tekið forystu á fjórðu mínutu, ráðið lögum og lofum næstu tíu mínúturnar og endað 2 - 1 undir. Á móti Íslandi. Aðeins Ísland,“ segir í lýsingu The Sun. „Íslendingarnir eru í ljósum logum. Þeir spila eins og andsetnir. Eins og norræn fótboltagoð.“
Ísland og England hafa tvívegis mæst í vináttuleikjum, fyrst árið 1982 en þá endaði leikurinn með jafntefli eftir að Arnór Guðjohnsen skoraði mark Íslands. Seinni leikurinn fór fram á Englandi árið 2004 og lyktaði með 6-1 sigri Englands.
Leikurinn í dag er tvímælalaust mikilvægasti leikur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu til þessa. Sigurinn fleytir okkur áfram á EM. Næst á dagskrá er viðureign gegn Frökkum í 8-liða úrslitum. Sigri Ísland mætir það Þjóðverjum eða Ítölum í undanúrslitum.
Athugasemdir