Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, hefur verið tilnefnd til blaðamannaverðlauna fyrir grein um ævi og örlög Kristínar Gerðar Guðmundsdóttur. Kristín Gerður svipti sig lífi eftir að hafa lent í vítahring geðsjúkdóma og fíknar, sem knúinn var áfram af afleiðingum ofbeldis og vændis.
Í greininni, sem titluð er Engillinn sem villtist af leið, er meðal annars stuðst við dagbókarfærslur Kristínar Gerðar sjálfrar og rætt við systur hennar til að varpa ljósi á áhrif ofbeldis og vændis á sálarheill og þau örlög sem fylgt geta í kjölfarið. Stuðst var við fleiri heimildir en þeirra á meðal voru nafnlaus viðtöl sem Kristín Gerður veitti á meðan hún lifði og skýrsla dómsmálaráðuneytisins þar sem hún sagði frá reynslu sinni.
Þetta er fimmta tilnefning Ingibjargar Daggar til blaðamannaverðlauna á sjö árum.
Í fyrra var hún tilnefnd sem blaðamaður ársins fyrir „fjölbreytta og mikilvæga umfjöllun um kynbundið ofbeldi“. Árið áður fékk hún tilnefningu fyrir umfjöllun ársins fyrir greinaröð um alzheimer og heilabilun. Árið 2011 var hún tilnefnd sem blaðamaður ársins fyrir fjölbreytt og mikilvæg skrif um samfélagsvandamál, svo sem ofbeldi, einkum er vörðuðu hlutskipti kvenna. Árið 2010 vann hún í flokki rannsóknarblaðamennsku „fyrir áleitna og vandaða umfjöllun um kynferðisbrotamál og forystu um skrif á þessu sviði, svo sem um biskupsmálið og önnur meint kynferðisbrot innan kirkju og trúfélaga.“
Tilnefningin er í flokknum viðtal ársins.
Allar tilnefningar til blaðamannaverðlauna
Viðtal ársins
Auður Ösp Guðmundsdóttir, DV.
Fyrir viðtal við Margréti Fenton um örlög dóttur hennar, Söndru Sigrúnar, sem afplánar nú 37 ára fangelsi fyrir vopnuð rán í Bandaríkjunum.
Helgi Seljan, Kastljósi RÚV.
Fyrir viðtal við hjónin Sigrúnu Eyrúnu Friðriksdóttur og Karl Olgeirsson um barnsmissi sem þau urðu fyrir vegna mistaka í fæðingu á Landspítalanum.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Stundinni.
Fyrir viðtal við Berglindi Ósk Guðmundsdóttur sem segir sögu systur sinnar, Kristínar Gerðar, sem svipti sig lífi eftir áralanga baráttu við eiturlyfjafíkn og afleiðingar misnotkunar.
Rannsóknarblaðamennska ársins
Hörður Ægisson, DV.
Fyrir umfjöllun um milljarða bónusgreiðslur slitastjórna Kaupþings og ALMC sem greiddar voru í kjölfar nauðasamninga og samninga um stöðugleikaframlag.
Tryggvi Aðalbjörnsson, RÚV.
Fyrir umfjöllun um brot Brúneggja ehf. gegn dýravernd og svik við neytendur og máttleysi eftirlitsstofnana til að takast á við brotin.
Þórður Snær Júlíusson, Kjarnanum.
Fyrir fréttaskýringar um skiptingu auðs á Íslandi og misskiptingu gæða þrátt fyrir lítinn launamun í alþjóðlegum samanburði.
Umfjöllun ársins
Guðrún Hálfdánardóttir, Mbl.is
Fyrir fréttaskýringar um Sýrland, vaxandi þjóðernishyggju í tengslum við flóttamenn þaðan og lítinn áhuga ráðamanna í Evrópu fyrir að taka á móti þeim.
Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, Stöð 2
Fyrir þáttaröðina Leitin að upprunanum sem segir sögu þriggja ættleiddra kvenna og árangursríka eftirgrennslan landa á milli um rætur þeirra.
Svavar Hávarðsson, Fréttablaðinu
Fyrir fréttaröð um náttúruperluna Mývatn, þar sem mengun er margfalt yfir viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, líkast til af mannavöldum.
Blaðamannaverðlaun ársins
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, RÚV.
Fyrir skilmerkilega umfjöllun um íslensk stjórnmál og vandaðar fréttaskýringar af störfum Alþingis, ekki síst á tímum pólitísks óróa.
Jóhannes Kr. Kristjánsson, Reykjavík Media.
Fyrir ítarlegar rannsóknir á þeim hluta Panamaskjalanna sem vörðuðu íslenska hagsmuni og umfjöllun, í samstarfi við aðra miðla, um mikil viðskipti í skattaskjólum.
Ragnar Axelsson og Orri Páll Ormarsson, Morgunblaðinu.
Fyrir áhrifamikla umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurslóðum og sérstaklega hvernig þær breyta lífinu á túndrum Síberíu.
Athugasemdir