„Það þarf að skýra eignarhald á DV,“ segir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar. Hann segir að ásakanir á hendur forsætisráðherra um að hann hafi beitt sér fyrir lánafyrirgreiðslu MP banka til Pressunar eða tengdra aðila undirstriki mikilvægi þess að eignarhald fjölmiðla sé skýrt.
Vísir greindi fyrr í kvöld frá því að Hlín Einarsdóttir og Malín Brand hafi reynt að kúga fé út úr forsætisráðherra á þeim forsendum að meint aðkoma hans að lánafyrirgreiðslu til Pressunnar eða félögum tengd fyrirtækinu yrðu gerð opinber.
Ekki eru til nein opinber gögn sem tengja ráðherrann við fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda og eins aðaleigenda Pressunnar ehf., sem fer með eignarhald nokkurra fjölmiðla, meðal annars DV sem var yfirtekið síðastliðið haust.
MP banki nefndur í bréfinu
Samkvæmt heimildum Vísis fólst hótunin í því að gögn um aðkomu Sigmundar eða aðilum tengdum honum við lánafyrirgreiðslu úr MP banka til Pressunnar yrðu gerð opinber, eftir að hann tók við embætti sem forsætisráðherra, árið 2013.
Nánar má lesa um málið á Vísi, en þar er meðal annars rætt við Arnar Ægisson, framkvæmdastjóra Pressunnar, sem segist ekki muna nákvæmlega hvernig lánið sé tilkomið. Hann hafnar hins vegar öllum tengslum við forsætisráðherra, og því að lánafyrirgreiðsla MP banka hafi verið fengin að tilstuðlan Sigmundar Davíðs eða aðilum tengdum honum.
„Ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga“
Sigmundur Davíð sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem hann greindi frá því að bréf hafi borist á heimili hans, í umslagi merktu eiginkonu hans, þar sem tilraun væri gerð til að kúga af honum fé. Af bréfinu að dæma virtust upplýsingarnar byggðar á getgátum og sögusögnum.
„Vegna frétta sem birst hafa um málið í dag með vísan til hótananna er rétt að taka fram að ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt,“ sagði forsætisráðherra í yfirlýsingu sinni.
Björn Ingi Hrafnsson tjáði sig um málið á Facebook. Þar sagði hann: „Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu.“
MP banki: Geta ekki rofið trúnað
MP banki sendi frá sér yfirlýsingu, þar sem segir að bréfið sem um ræði sé sönnunargagn í lögreglurannsókn og hafi ekki verið gert opinbrt. Forsvarsmenn bankans hafi því ekki séð bréfið og þekki ekki þær ásakanir sem settar eru fram.
„MP banki getur ekki tjáð sig efnislega um hvort nafngreindir einstaklingar eða fyrirtæki eru, eða eru ekki, í viðskiptum við bankann. Bankinn getur ekki rofið trúnað um viðskiptavini eða einstök viðskipti. Við getum þó fullyrt að vinnulag bankans er í öllum tilvikum í fullu samræmi við þau lög sem gilda um starfsemi fjármálafyrirtækja.“
Það sé rétt að fjölskyldutengsl séu á milli forstjóra bankans og forsætisráðherra. Þau tengsl hafi legið fyrir lengi og hafi engin áhrif haft á rekstur bankans. „Einnig hefur verið fjallað um þá staðreynd að starfsmenn bankans hafa fengið leyfi frá störfum til að vinna með stjórnvöldum að vandasömum úrlausnarefnum sem varða þjóðarhag, þar með talið afléttingu gjaldeyrishafta. Hjá MP banka vinna margir hæfir sérfræðingar. Stjórnvöld hafa leitað eftir því að fá að njóta starfskrafta þriggja starfsmanna bankans vegna tímabundinna verkefna. Einn þeirra hætti hjá bankanum til að geta sinnt slíku verkefni og tveimur þeirra hefur bankinn veitt leyfi frá störfum til að sinna þessum verkefnum.“
Forstjóri MP banka er Sigurður Atli Jónsson en Þorsteinn Pálsson er formaður stjórnar.
Spurningar sem þarf að svara
Róbert bendir á að enn sé mörgum spurningum ósvarað. „Í þessu samhengi er spurningum ósvarað. Ég get ekki séð að forsætisráðherra komist upp með að svara ekki spurningum um þessi mál.
Ef rétt reynist að hann hafi haft afskipti af fjölmiðli, svo ég tali nú ekki um fjölmiðils sem hefur afhjúpað lekamál í hans eigin ríkisstjórn sem leiddi til afsagnar ráðherra, þá þarf að skýra það. Björn Ingi og Sigmundur Davíð eiga að svara blaðamönnum, veita viðtöl og útskýra hvað í þessum ásökunum felst. Þetta er forsætisráðherra landsins,“ segir Róbert. „Ekki einu sinni Berlusconi faldi eignarhald á fjölmiðlum og afskipti sínum á þeim. Það var bara opinbert.“
Ekki náðist í aðstoðarmann Sigmundar Davíðs eftir að Vísir greindi frá efnistökum hótunarinnar fyrr í kvöld. Þegar Stundin náði tali af honum fyrri part dags í gær sagði hann að forsætisráðherra ætlaði ekki að tjá sig um málið. Síðar sama dag sendi forsætisráðherra út fréttatilkynningu.
Þegar Björn Ingi tjáði sig um málið á Facebook sagði hann að um mannlegan harmleik væri að ræða og óskaði eftir því að tillit væri tekið til þess, aðgát skildi höfð í nærveru sálar.
„Það má sýna aðgát þegar fjallað er um málefni þeirra systra sem hafa leiðst út á einhverja ótrúlega refilstigu að því er virðist. Það breytir því ekki að þarna er um forsætisráðherra landsins að ræða og það vakna spurningar sem þarf að svara,“ segir Róbert.
Galli á lögum
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata tekur í sama streng. Eignarhald fjölmiðla þurfi að vera skýrt. „Það eru lög á Íslandi sem eiga að vera þess eðlis að allir séu upplýstir um eignarhald fjölmiðla, ekki bara fjölmiðlanefnd heldur líka almenningur. Ef það er ekki nógu skýrt þá þarf að laga það, svo það sé ekki hægt að fá huldumenn til að aðstoða við lán til fjölmiðla. Það er mjög mikilvægt að það sé gagnsæi varðandi eignarhald á fjölmiðlum.
Það er eitthvað sem þarf að skoða og ég mun einhenda mér í það. Það kemur alltaf í ljós ef það eru göt í lögunum og þau virka ekki sem skildi og þá þarf að laga það. Ég geng strax í það og mun biðja okkar ágæta sérfræðing í því að fara í það á morgun.“
Hún segist vera hugsi yfir stöðunni á fjölmiðlamarkaði. Þá á hún ekki aðeins við eignarhaldið á DV heldur einnig Árvakurs. „Ég var að skoða upplýsingar um Árvakur. Það er tvisvar sinnum búið að leysa það félag úr snörunni. Af hverju er þessi fjölmiðill mikilvægari en aðrir og fær frekar niðurfellingu á skuldum? Ég skil ekki hvernig það er hægt að fá afskriftir upp á tugi milljóna, og meira í þessu tilviki, á meðan fólk er að missa húsnæðið.“
Athugasemdir