Neistaflug og Eistnaflug, Þjóðhátíð, Írskir dagar, Bræðslan í Borgarfirði, Síldarævintýrið á Siglufirði, Aldrei fór ég suður, Ljósanótt og Menningarnótt í Reykjavík. Þetta er stuttur listi yfir þorpshátíðir. Sumt af þessu eru býsna sérhæfðar tónlistarhátíðir eins og Eistnaflug (og merkar menningarstofnanir! Það er gjörningur að sjá sundlaugina á Neskaupstað fyllast síðhærðum, dökkhærðum og fölum þungarokkurum). Aðrar hátíðir eru meira fyrir þorpsbúa sjálfa, ljóshærðar, þykkmálaðar unglingapíur með Lite-bjórdósir, feitlagnir skeggjaðir ungkarlar með kaldan Víking og lopapeysur. Alltaf aðeins verra veður en allir vonuðu. Að draga upp mynd af þessu fyrir þig kæri lesandi væri tímasóun. Þú hefur að sjálfsögðu setið inni í félagsheimili og hlustað á einhvern spila þekkta slagara á hljómborð, horft á Sveppa, Audda, Villa og Steinda skemmta mannskapnum, beðið þess í ofvæni að eitthvert sveitaballabandið komi fram á upphækkaða sviðinu. Sálin eða Stuðmenn.
Breyttir tímar
Ég er staddur á Höfn í Hornafirði þegar þessi orð eru skrifuð. Uppblásnar gínur í appelsínugulum sjómannabúningum sitja út í garðstólum, litrík stígvél, appelsínugulir borðar og blöðrur hanga, og sumstaðar má ganga út á pall heima hjá fólki til að fá ókeypis humarsúpu. Humar er orðinn að ídentítet Hafnar þótt Íslendingar hafi ávallt fúlsað við honum. Viðskiptahagsmunir sjávarútvegsins og túrismans hafa þó breytt því. Það er kannski táknrænt að gamla kaupfélagshúsið, þungamiðja samfélagsins, og húsið við hliðina þar sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum formaður framsóknarflokksins og forsætisráðherra ólst upp, séu orðin að veitingastöðum. Það eru nýjir tímar á Íslandi, það sem áður þóttu lélegar jarðir með lítilli beit eru orðnar þær allra verðmætustu, hart er slegist um landið sem umkringir Jökulsárlón. Á að rísa hótel þar eða ekki?
Humar í hverju horni
Ég fór að velta fyrir mér humrinum. Þessi litla vera sem grefur sig djúpt í jörðu og getur verið pínu snúinn, (hluti af því hversu hátt verðið af honum getur orðið er hversu erfitt er að koma honum ferskum á áfangastað því humarinn er fljótur að skemmast eftir að hann deyr). Það er absúrd að hugsa til þess að hann hafi verið notaður sem beita fyrir einungis nokkrum áratugum síðan, þegar í dag er litið á hann sem lostæti.
Athugasemdir