Lögmaður Sónar Reykjavík ehf, sem árlega stendur fyrir tónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík, hefur sent stjórn ÚTÓN, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, og Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarráðherra, formlega kvörtun fyrir hönd félagsins vegna framgöngu Sigtryggs Baldurssonar, framkvæmdastjóra ÚTON. Forsvarsmaður Sónar er Björn Steinbekk. Stundin hefur umrætt bréf undir höndum. Þar kemur fram að Björn og Sigtryggur hafi átt í tölvupóstsamskiptum þar sem hinn síðarnefndi hafi látið falla ýmis ummæli sem að mati Björns teljast ærumeiðandi í garð hans. Björn dragi í efa að þau samræmist starfsskyldum framkvæmdastjóra ÚTÓN.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Sigtrygg við vinnslu fréttarinnar.
ÚTÓN eru frjáls félagasamtök sem komið var á laggirnar af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Starfsemi ÚTÓN er meðal annars fjármögnuðu á grundvelli fjárlaga og úthlutar styrkjum úr Útflutningssjóði íslenskrar tónlistar ár hvert. ÚTÓN er enn fremur ætlað að vera milliliður tónlistarmanna þegar kemur að landkynningu á vegum Íslandsstofu. Því er starfsemi ÚTÓN í raun opinbers eðlis.
Björn lýsir enn fremur áhyggjum af eignarhaldi tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves en hún er alfarið í eigu ÚTÓN. Hann telur að það geti haft neikvæð áhrif á kynningu annarra tónlistarhátíða á Íslandi.
Samkrull ríkis og hagsmunaaðila
Ólíkt Sónar Reykjavík, ATP og Secret Solstice er Iceland Airwaves tónlistarhátíðin í raun rekin af ríkinu. Rekstraraðili hátíðarinnar er IA tónlistarhátíð ehf. Samkvæmt ársreikningi frá árinu 2014 er eini eigandi þess ÚTÓN, sem er líkt og fyrr segir nær alfarið rekið á fjárlögum frá ríkinu. Þess má geta að Iceland Airwaves og ÚTÓN halda úti sameiginlegri skrifstofu. Icelandair styrkir hátíðina einnig um háar upphæðir og á vörumerkið Iceland Airwaves, en hátíðin sjálf er hvorki rekin af né í eigu flugfélagsins.
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er því í raun hálfgert ríkisfyrirtæki.
Samkvæmt meistararitgerð Tómasar Young, sem síðar varð starfsmaður ÚTÓN, frá árinu 2010, var ÚTÓN stofnað árið 2006 af Landsbanka Íslands, Útflutningsráði Íslands og Samtóni, samtökum tónlistarrétthafa. Landsbankinn dró sig úr samstarfinu árið 2008 og Útflutningsráð Íslands varð að Íslandsstofu. Þar af leiðandi er ÚTÓN nær alfarið rekið fyrir fé sem kemur með einum eða öðrum hætti úr ríkissjóði. Samkvæmt þessari sömu ritgerð var ÚTÓN rekið árið 2010 fyrir fjárframlag frá stofnaðilum, auk fjárframlaga frá utanríkisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
Athugasemdir