Eftir langa og stranga keyrslu frá Bremen í Þýskalandi var ég kominn til St. Étienne. Löng og ströng keyrsla er reyndar vægt til orða tekið. Flugið var svo hrikalega ódýrt til Bremen, aðeins 25 þúsund krónur fram og til baka, og bílaleigubíllinn líka þannig að við fjölskyldan lögðum í 1.280 kílómetra ferðalag til hinnar sögufrægu borgar sem er heimili eins sigursælasta liðs í frönsku deildinni. Ég þurfti sem betur fer ekki að keyra neitt því ég kom mér upp þeirri afsökun að ég þyrfti að vinna. Síðan kveikti ég á þætti í ferðatölvunni og naut þess að vera farþegi á þýskum hraðbrautum þar sem litið er á hundrað kílómetra hraða sem innanbæjarakstur.
70 krónur á klósettið
Fyrir þá sem ætla að ferðast langar vegalengdir í Þýskalandi mæli ég hiklaust með því að eiga nóg af klinki. Hvert pissustopp kostaði sitt, – tæpa hálfa evru, eða sjötíu krónur – kannski eitthvað sem við Íslendingar ættum að taka til fyrirmyndar þegar ferðamannastraumurinn eykst ár hvert og bensínstöðvarstarfsmenn hafa ekki undan því að fylla á klósettrúllurnar.
Athugasemdir