Alþingismaðurinn Pétur H. Blöndal lést af völdum krabbameins á heimili sínu, í faðmi fjölskyldunnar, síðastliðið föstudagskvöld.
Pétur var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tvo áratugi. Samstarfsfólk Péturs í gegnum tíðina minnist hans af virðingu og hlýleika, óháð flokkum. Pétur var meðal þeirra þekktur fyrir mikinn dugnað og heiðarleika.
Fylgdi eigin sannfæringu
Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir frá reynslu sinni af Pétri á Facebook-síðu sinni í dag. Hann hafi unnið af dugnaði og ósérhlífni. Hún minnist samtala sem hún átti við hann.
„Ég mun sakna Péturs. Við vorum ekki alltaf sammála en mættumst oft á miðri leið og gátum svo sannarlega alltaf rætt málin í góðri sátt. Við ræddum oft um heima og geima; langhlaup, fíknisjúkdóma, barnauppeldi og ræktun appelsínutrjáa svo eitthvað sé nefnt. Það var alltaf hægt að treysta því að hann fylgdi sinni sannfæringu sem stundum gekk þvert á vilja flokksforystunnar. Hann var svolítill pönkari inn við beinið, hugsaði oft út fyrir kassann og reyndi að smíða nýjar lausnir.“
Langhlaupari sem fór eigin leiðir
Margrét er ein þeirra sem segja frá vinnusemi Péturs. „Fáa hef ég hitt vinnusamari. Hann taldi ekki eftir sér, þrátt fyrir erfið veikindi, að standa vaktina í þingsal lengur en allir aðrir. Ég man sérstaklega eftir að hafa heyrt í honum eldsnemma í morgunþætti í útvarpinu. Hann hafði komið beint úr þinginu þar sem hann hafði talað um Icesave alla nóttina. Svo sátum við saman á nefndarfundum til hádegis og eftir það tóku þingstörfin við og alltaf harðneitaði Pétur að fara heim og hvíla sig. Hann sagði að maður sem væri búin að hlaupa Laugaveginn margoft gæti vel sleppt því að sofa við og við. „Farið þið heim, þið eigið fjölskyldu og börn,“ sagði hann gjarna. Hann Pétur var góður og merkilegur maður.“
„Hann Pétur var góður og merkilegur maður.“
Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi Landssambands íslensra útvegsmanna og fyrrverandi fréttamaður, segir sögu af seiglu Péturs á sinni Facebook-síðu. „Pétur var eitt sinn í útlöndum. Hann vildi hlaupa maraþon en var skólaus. Hann keypti sér því par og lagði af stað. Fljótlega fann hann að þeir voru ekki við hans hæfi, eða eins og hann sagði: „Ég missti allar táneglurnar en maður heldur samt alltaf áfram og klárar verkefnin.“ Þetta fannst mér lýsandi fyrir hann. Blessuð sé minning Péturs.“
Þekktur fyrir dugnað og orðheldni
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, deilir reynslu sinni af Pétri. Hann lýsir einnig heiðarleika Péturs.
„Pétur var skemmtilegur samstarfsmaður, orðheldinn og einbeittur. Við unnum oft saman og deildum um margt, en náðum vel saman í baráttunni gegn því að láta lífeyrissjóði almennings greiða húsnæðisskuldir sumra. Svo deildum við áhuga á langhlaupum og hlupum stundum saman.“
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er önnur þeirra sem lýsa dugnaði og heiðarleika Péturs. „Mér þykir afskaplega vænt um samstarf og viðkynni okkar Péturs Blöndal. Hann var duglegur stjórnmálamaður sem fylgdi alltaf sannfæringu sinni en bar jafnframt virðingu fyrir skoðunum annarra. Hann hefði varla geta gefið ungum stjórnmálamanni betra veganesti. Minning um góðan mann mun lifa.“
Doktor í stærðfræði á Alþingi
Á tveggja áratuga ferli sínum á Alþingi barðist Pétur fyrir réttindum og stöðu einstaklinga sem varðar fjármál, húsnæðismál, lífeyrismál og fleira. Samkvæmt svörum Péturs í hagsmunaskráningu Alþingis borgaði hann sjálfur fyrir prófkjör sín að mestu og þáði ekki háa styrki. „Hef farið í 6 prófkjör og greitt þau öll sjálfur (alls sennilega 9 m.kr.) utan einn styrk árið 2007 upp á 700 þ.kr. (prentun og hönnun á bækling).“
Hann þáði engar gjafir, fór í engar boðsferðir, fékk aldrei niðurfelldar skuldir hjá sjálfum sér eða einkahlutafélagi sínu.
Pétur fæddist árið 1944 og var 71 árs þegar hann lést eftir langvarandi baráttu við krabbamein.
Hann var með doktorspróf í stærðfræði frá Kölnarháskóla, en þar nam hann eðlisfræði, stærðfræði, tölvunarfræði, alþýðutryggingar og líkindafræði. Á ferli sínum skrifaði Pétur margar greinar í blöð og tímarit um húsnæðismál, fjármál og lífeyrismál.
Pétur lætur eftir sig sex börn eða kjörbörn. Hann var giftur Moniku Blöndal og eignaðist 4 börn og þar af 3 kjörbörn; Davíð (1972), Dagnýju (1972), Stefán Patrik (1976), og Stellu Maríu (1980). Pétur hóf svo sambúð með Guðrúnu Birnu Guðmundsdóttur og áttu þau saman Baldur Blöndal (1989) og Eydísi Blöndal (1994). Þann áttunda maí síðastliðinn kvæntist Pétur að nýju unnustu til níu ára.
Tók veikindunum af æðruleysi
Börn Péturs greindu fyrst frá andláti hans á Facebook-síðu hans í dag.
„Ástkær faðir okkar Pétur H. Blöndal lést úr krabbameini á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar að kvöldi 26. júní 2015. Hann tók veikindum sínum af æðruleysi og í samræmi við lífsviðhorf sín kvartaði hann aldrei heldur hélt áfram að vera virkur þar til alveg undir lokin. — Davíð, Dagný, Stefán, Stella María, Baldur og Eydís.
Útförin fer fram í kyrrþey að hans ósk. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hans er bent á Minningarsjóð krabbameinslækningadeildar.“
Athugasemdir