„Það er allt í þessari frétt sem er rangt, ef ég væri blaðamaður myndi ég ekki byggja á henni,“ segir Gunnar Smári Egilsson um frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu í morgun þar sem hann er sagður eiga 40 milljóna króna kröfu á útgáfufélag Fréttatímans. Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóri Fréttatímans, tekur undir með Gunnari Smára og segist ekki kannast við þessar tölur.
Í samtali við Stundina staðfestir Gunnar Smári, fyrrverandi útgefandi og annar ritsjóra Fréttatímans, að Morgundagur ehf., útgáfufélag Fréttatímans verði sett í þrot á næstu dögum. Óvissa hefur ríkt um framtíð Fréttatímans frá því síðasta blað kom út þann 7. apríl síðastliðinn. „Hluthafar samþykktu að fara með það í þrot, og verður líklega gert á næstu dögum,“ segir Gunnar Smári.
Gunnar Smári fullyrðir að 40 milljóna króna krafan sem Viðskiptablaðið fjallar um eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Hann segist ekki hafa fengið greidd laun og býst ekki við að fá greitt fimm milljón króna lán sem hann kveðst hafa lánað útgáfufélaginu fyrir nokkrum mánuðum. „Eins og allir yfirmenn, fyrir utan einn, hef ég ekki fengið greidd laun,“ segir Gunnar Smári.
Valdimar Birgisson staðfestir að Þóra Tómasdóttir, annar ritstjóri blaðsins, sé eini yfirmaðurinn sem hafi fengið greidd laun, en enn hafa nokkrir almennir starfsmenn ekki fengið greitt. Eftir því sem Stundin kemst næst voru þeir sem fengu greidd laun þeir starfsmenn sem unnu við síðasta útgefna tölublað Fréttatímans, sem kom út 7. apríl.
Bjarni Ólafsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, segir í samtali við Stundina að heimildir sínar komi frá skjölum yfir skuldir Fréttatímans sem Valdimar Birgisson hefur afhent áhugasömum aðilum um rekstur blaðsins. Valdimar þvertekur fyrir þessa staðhæfingu og segir: „Þetta er ekki komið frá mér og ég kannast ekki við þessar tölur, þetta er bara rangt. Ég veit ekki hvaðan blaðamaður hefur þessar tölur.“
Blaðamanni Stundarinnar gafst ekki færi á að spyrja Valdimar nánar út í málið. „Heyrðu, ég verð að rjúka úr símanum,“ sagði hann.
Athugasemdir