Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, heldur erindi á samkomu hugveitunnar Heritage Foundation í Washington þann 18. ágúst næstkomandi. Á fundinum verður fjallað um tækifæri Bandaríkjanna á Norðurslóðum, stefnumörkun og starfsemi á svæðinu og möguleika annarra ríkja, einkum samstarfsaðila Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu.
Á fundinum, sem haldinn er í fyrirlestrasal Heritage-hugveitunnar, taka til máls þau Robert J. Papp, norðurslóðafulltrúi utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Isaac Edwards, sem starfar fyrir bandaríska þingnefnd um auðlinda- og orkumál og Luke Coffey frá Frelsismiðstöð Margaret Thatcher. James E. Dean hjá Heritage-hugveitunni stýrir fundinum sem James Jay Carafon boðar til, en hann er fræðimaður hjá Heritage og jafnframt varaforseti stofnunarinnar Shelby Cullom Davis Institute for National Security and Foreign Policy.
Heritage Foundation er ein áhrifamesta hugveita Bandaríkjanna og ver á ári hverju gríðarlegum fjárhæðum í boðun markaðsfrelsis, lágmarksríkisafskipta, hefðbundinna fjölskyldugilda og sterkra hervarna.
Athugasemdir