Listamaðurinn Bjarni Bernharður hefur lifað lífi sem fæstir öfunda hann af. Um áratugaskeið hefur hann barist við geðklofa með allri þeirri skelfingu sem sjúkdómnum fylgir. Neysla á sýru varð kveikjan að því að vekja sjúkdóminn upp. Hörmulegasta afleiðingin varð sú að hann banaði fyrrverandi leigusala sínum. Í framhaldinu var hann dæmdur óskahæfur og sendur á réttargeðdeild í Svíþjóð og seinna á Íslandi. Bjarni hefur nú skráð lífssögu sína og vonast til að opna umræðu um geðsjúkdóma og skilja það betur sjálfur hvers vegna fór sem fór.
„Þessi bók er skrifuð fyrir mig og þig. Ég þurfti að koma reglu á líf mitt og skipuleggja mig. Til þess að gera það varð ég að skrifa endurminningar mínar og raða niður í tímaröð. Spurningin sem ég leita svara við er af hverju þetta þurfti að koma fyrir þennan mann,“ segir Bjarni Bernharður, sem er að gefa út lífssögu sína, Hin hálu þrep. Í bókinni fjallar Bjarni með einkar opinskáum hætti um líf sitt sem á seinni árum var undirlagt af geðveiki hans.
Heimilisofbeldi
Bjarni lýsir af einlægni ofbeldi í samböndum sínum og því hvernig geðveikin helltist yfir hann í framhaldi af mikilli neyslu á sýru og hassi.
„Í þessu iðukasti mannlífsins er manneskjan alltaf að lenda utangarðs. Það er aktúelt mál að fjalla um geðsjúkdóma, vímuefnaneyslu, einelti og hvernig barn fer á mis við menntun í gölluðu skólakerfi. Þá er ég að fjalla um ofbeldi í hjónabandi, réttarkerfi, glæp og loks endurreisnina. Þetta fer ég allt í gegnum og vil legga mitt til umræðunnar sem oft hefur verið á villigötum. Ég hef lifað allt þetta og mér fannst að þetta þyrfti að komast til fólksins,“ segir hann.
Óhætt er að segja að ekkert er dregið undan. Bjarni Bernharður fjallar um ofbeldi sitt gegn konu sinni.
Athugasemdir