Fráfarandi ritstjóri The Reykjavík Grapevine, Haukur S. Magnússon, sem hætti störfum í kjölfar þess að þrír kvenkyns lærlingar blaðsins sendu útgefandanum bréf og kvörtuðu yfir samskiptum við hann, krefst milljón króna frá blaðamanni Stundarinnar fyrir að skrifa frétt um málið.
„Loksins tekist að segja upp“
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hefur sent kröfubréf fyrir hönd Hauks, sem stílað er á Áslaugu Karen Jóhannsdóttur, blaðamann Stundarinnar. Þar er þess meðal annars krafist að hún greiði Hauki eina milljón króna í miskabætur fyrir að „meiða æru“ hans.
Í frétt Stundarinnar var greint frá aðdragandanum að brotthvarfi Hauks úr ritstjórastóli. Í síðasta leiðara sínum kvaðst Haukur hafa reynt lengi að hætta, en nú hefði honum „loksins tekist að segja upp, eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir.“
Lærlingar senda kvörtunarbréf til útgefanda
Þrír fyrrverandi starfsmenn blaðsins höfðu hins vegar kvartað til útgefanda blaðsins fyrir uppsögnina undan endurteknum kynferðislegum athugasemdum ritstjórans í sinn garð. Starfsmennirnir tilkynntu Hilmari Steini Grétarssyni útgefanda og Jóni Trausta Sigurðarsyni, nú ritstjóra, um samskiptin, meðal annars bréfleiðis.
Sjálfur neitaði Haukur alfarið að óeðlileg samskipti hefðu átt sér stað þegar Stundin bar málið undir hann. „Ég vísa þessum ásökunum öllum eindregið á bug, enda eiga þær sér enga stoð í raunveruleikanum.“
Ummælin sem Vilhjálmur vill fá hnekkt fyrir dómi eru:
1. „Í öðru þeirra lýsir fyrrverandi samstarfskona Hauks ... alvarlegu atviki. Hún tekur einnig fram að hún hafi verið 0furölvi þegar atvikið átti sér stað. „Í grundvallaratriðum hélt hann áfram að snerta mig og hunsaði mig þegar ég sagði honum að þetta ætti ekki að gerast og að mér liði illa. Hann hlustaði ekki á mig.“
2. Þegar hún hafði áttað sig á því að um óeðlileg samskipti hafi verið að ræða hafi verið orðið of seint að kæra ...
Ummælin eru fengin úr bréfi lærlings The Reykjavík Grapevine til útgefanda blaðsins. Viðkomandi lærlingur kaus að hætta alfarið störfum fyrir Grapevine eftir samskipti við ritstjórann og atvik sem átti sér stað.
„Þú biðjist afsökunar“
Í bréfi Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns er gefinn frestur til föstudags með að biðja Hauk afsökunar og greiða honum milljónina:
„Með ofangreindum ummælum er umbjóðanda mínum gefið að sök alvarlegt kynferðisbrot sem átti sér aldrei stað. Ummælin fela í sér ásökun um refsiverða háttsemi og eru til þess fallin að meiða æru umbjóðanda míns. Þess er krafist að þú biðjist afsökunar á ummælunum, dragir þau til baka og viðurkennir að þau séu röng. Þess er krafist að afsökunarbeiðnin verði birt á áberandi stað í næsta tölublaði Stundarinnar og á www.stundin.is. Þá er þess krafist að þú greiðir umbjóðanda mínum krónur 1.000.000 í miskabætur.“
Athugasemd ritstj.
Frétt Stundarinnar sneri að umkvörtunum þriggja kvenkyns lærlinga Reykjavík Grapevine, sem greindu útgefanda blaðsins frá óeðlilegri framkomu ritstjóra í þeirra garð. Stundin hefur undir höndum sannanir fyrir kynferðislegum athugasemdum, sem og tvö kvörtunarbréf. Ritstjóri ber ábyrgð á því sem yfirmaður að gæta að eigin framkomu gagnvart starfsfólki, með þeim hætti að þeir upplifi ekki að brotið sé gegn þeim í samskiptum. Sú staðreynd að þrír fyrrverandi undirmenn ritstjóra hafi upplifað kynferðislega áreitni, og geta vísað í gögn til vitnis um það, ætti að vera nóg til að fá ritstjórann til að íhuga að biðjast sjálfur afsökunar fremur en að krefjast afsökunarbeiðni sjálfum sér til handa. Stundin og blaðamaður Stundarinnar hafna kröfu um að greiða Hauki milljón króna.
Athugasemdir