Staða framkvæmdastjóra nýrrar Stjórnstöðvar ferðamála var ekki auglýst þrátt fyrir að lög geri ráð fyrir að öll laus störf hjá ríki skuli auglýsa. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar segir að gerður hafi verið tímabundinn ráðgjafasamningur við framkvæmdastjórann á meðan verið sé að móta endanlega starfsemina. Samningurinn hafi verið gerður í samræmi við opinber innkaup og er heildarkostnaður vegna hans áætlaður 1.950.000 krónur á mánuði.
Í gær kynntu Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, nýja ferðamálastefnu en hluti af henni er stofnun Stjórnstöðvar ferðamála. Um er að ræða samvinnuverkefni stjórnvalda, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar og á stjórnstöðin að starfa til ársins 2020. Tilgangurinn er að samræma vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir, forgangsraða verkefnum og tryggja framkvæmd þeirra. Ragnheiður Elín verður formaður stjórnstöðvarinnar og í gær var tilkynnt að Hörður Þórhallsson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri, en hann gegndi síðast stöðu framkvæmdastjóra Actavis yfir Asíu, Eyjaálfu og Afríku.
Athugasemdir