Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, gerir grín að bágu ástandi raflagna í flóttamannabúðunum Shatila í Líbanon á Snapchat.
Sigmundur er staddur á svæðinu þar sem hann kynnir sér aðstæður flóttamanna og starfsemi stofnana Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins. Rafmagnslínur og vírar hanga milli húsa, sums staðar í höfuðhæð fólks. Að því er fram kemur á fréttavefnum The National deyr reglulega fólk úr raflosti vegna víranna. Á Snapchat birtir forsætisráðherra Íslands mynd af þeim og skrifar: „Lofaði að skila því að það vantar rafvirkja í Shatila“.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, pistlahöfundur á Kjarnanum og blaðamaður á Fréttablaðinu til margra ára, gagnrýnir forsætisráðherra á Facebook-síðu sinni. „Forsætisráðherra vor skemmtir sér vel í útlöndum og missir ekki húmorinn, en fjöldi fólks hefur látist vegna þessara raflagna sem eru sannkallað neyðarbrauð við hörmulegar aðstæður. SDG fer hamförum á snappinu,“ skrifar Kolbeinn.
Athugasemdir