Reglulega sprettur upp umræða um Mannanafnanefnd og meinta íhaldssemi stofnunarinnar. Óttarr Proppé þingmaður lagði nýverið fram frumvarp um að nefndin verði lögð niður og öll ákvæði í tengslum við hana felld brott.
Mannanafnanefnd gagnrýnir frumvarpið harðlega í umsögn sinni og segir meðal annars varhugavert „að gera slíka grundvallarbreytingu á nafnakerfinu sem lagt er til í frumvarpinu en þá yrði til að mynda hægt að nefna dreng Þorgerði og stúlku Sigmund.“
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans-Ísland og transkona, segir í samtali við Stundina það vera mikið réttindamál fyrir transfólk að lögum um Mannanafnanefnd verði breytt. „Það myndi breyta svo miklu fyrir transfólk að geta breytt nafni sínu því transfólk er að lenda í svo lenda í svo mörgu þegar það er til dæmis að ferðast eða það er að borga með korti ef það stendur Jón á kortinu. Fólk hefur verið sakað um að stela kortum og jafnvel stoppað af lögreglunni. Þannig að þetta hefur mjög leiðinlegar afleiðingar. Þetta er í rauninni tímaskekkja, byggt á gömlum hefðum um að vilja flokka fólk undantekningarlaust í karl og kona,“ segir Ugla.
Hún bendir sömuleiðis á að margt transfólk vilji ekki skilgreina sig sem annað hvort karl eða kona. „Það myndi algjörlega auðvelda transfólki mikið, og sömuleiðis transfólki sem vill ekki endilega skilgreina sig sem karl eða konu, sem vill kannski bæði heita karlmanns- og kvenmannsnafni. Ef þú ert skráður líffræðilega karlmaður í þjóðskrá, þá máttu ekki bera kvenmannsnafn,“ segir Ugla.
„Það var augljóst af þessum orðum um Sigmund og Þorgerði að þau eru ekki „pro“ hvað varðar transfólk.“
Athugasemdir