Óskar tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara Stundarinnar við útidyr heimilis hans í Hvassaleiti. Í húsinu er rekin félagsmiðstöð fyrir aldraða og í anddyrinu er búið að stilla upp fjölda páskaeggja og heimilisfólk getur skráð sig fyrir eggi. Hann segir sposkur frá því að hann sé búinn að panta sér stærsta eggið, sem er líklega um 3 kg að þyngd. Hann ætli hins vegar ekki að greiða fullt verð fyrir það. Þarna slær hann strax tóninn fyrir heimsóknina. Það hafði heyrst að Óskar væri mikill húmoristi og það er deginum ljósara að það er engin lygi.
Óskar er fæddur árið 1954. Hann var yngsta barn þeirra Kristínar Laufeyjar og Margeirs sem bjuggu á Brávallagötu í Reykjavík með börnin sín fjögur, tvo drengi og tvær stúlkur. Þegar Kristín Laufey sá Óskar nýfæddan sá hún strax að eitthvað amaði að honum en hún þekkti þó ekki Downs-heilkennið. Á þessum árum voru börn með það heilkenni nefnilega ekki mikið á meðal fólks.
Í viðtali sem birtist í Viljanum í verki, sögu Styrktarfélags vangefinna 1958–2008, minnist Kristín Laufey fæðingar yngsta sonarins. „Ég get ekki sagt að það hafi verið áfall að komast að þessu. Við Margeir vorum samstiga og ákváðum að gera það besta úr þessu öllu saman,“ sagði hún meðal annars þar. Þeim var ráðlagt að láta hann frá sér á Kópavogshæli en tóku það ekki í mál og voru þvert á móti ákveðin í því að leyfa honum að njóta sín eins og hann var. Hugarfar og framsýni foreldra hans var gæfa Óskars, sem átti með þeirra hjálp eftir að eiga hamingjuríkt líf.
Athugasemdir