Dagsetrið var staður þar sem heimilislausir og fólk í vímuefnavanda gat fengið skjól yfir daginn. Nú er hins vegar búið að selja húsnæðið að Eyjaslóð 7 þar sem Dagsetrið var til húsa og loka starfseminni. Það gerðist þann 16. ágúst, þegar það þurfti að tæma húsið. Það þýðir að einstaklingar sem eiga hvergi heima og nýttu sér áður aðstöðuna geta hvergi leitað skjóls yfir daginn, ekki nema rétt á meðan Súpueldhúsið hjá Hjálpræðishernum er opið í hádeginu.
Rannvá Olsen er forstöðukona Dagsetrins. Hún hefur áhyggjur af ástandinu og segir brýnt að bregðast við. Það segir líka einn úr þessum hópi sem blaðamaður Stundarinnar hitti á förnum vegi þar sem hann var staddur í Fógetagarðinum, að drepa tímann í rigningunni þar til hann kemst inn í Súpueldhúsið í kvöld. Hann þakkaði fyrir að eiga góða úlpu en sagðist þurfa að komast eitthvert inn svo hann gæti saumað hana saman þar sem hún hefur rifnað og fest á hana tölur.
Hugsar til látinna félaga
Herbert Marínósson er 73 ára gamall borgarbúi sem á ekkert þak yfir höfuðið. Hann harmar að Dagsetrinu hafi verið lokað. „Þetta raskar leiðum, gönguleiðum um borgina. Maður fer yfirleitt eftir fastri rútínu um borgina. Þetta raskar því hvaða leiðir maður fer.
Svo er veturinn framundan. Allt á þessu landi byggist á veðri og vindum. Það getur orðið alveg skjóllaust í vetur ef engin afdrep eru. Þetta var okkar eina haldreipi,“ segir Herbert í samtali við Stundina. „Það er ótækt að vera úti í svona vatnsveðri eins og var fyrripartinn í dag. Það er nú búið að stytta upp, sem betur fer. Það á að vera prýðisveður á morgun en það er aldrei á vísan á róa með þetta.“
Hann hugsar til þeirra sem hafa látist á götunni. „Auðvitað hefur maður áhyggjur af því. En maður ræður ekkert við það,“ segir hann hugsi og bætir því við að vandinn sé að hluta til Útlendingastofnunnar. „Meiri hluti þeirra sem sækja í skýlið eru útlendingar.“
„Allt á þessu landi byggist á veðri og vindum. Það getur orðið alveg skjóllaust í vetur ef engin afdrep eru.“
Reyna að semja við borgina
Nú standa yfir viðræður við borgina. „Við erum að reyna að gera samning við borgina,“ segir Rannvá, „ég get ekki greint betur frá því að svo stöddu en ég vonast eftir samstarfi við borgina varðandi þennan málaflokk. Við erum búin að sinna honum svo lengi, byrjuðum árið 2007 og svo kom borgin inn í þetta seinna. Þannig að Hjálpræðisherinn hefur verið að sinna þessu svolítið einn en við viljum fá borgina til að hjálpa okkur með þetta, því þetta snýst um borgarbúa.“
Á meðal þeirra sem hafa verið að nýta úrræðið eru bæði Íslendingar og útlendingar, sem eru heimilislausir, margir í neyslu áfengis eða vímuefna en ekki allir. Þótt búið sé að loka Dagsetrinu eru Borgarverðir enn að störfum og sinna heimilislausu fólki á daginn ef það er í vandræðum. „Nú geta þeir reyndar ekki keyrt þá í Dagsetrið þannig að fólk fer þá í fangaklefa eða til okkar. Sem er alls ekki slæmt. Fólk er þá ekki á götunni á meðan,“ segir Rannvá. „Annars labbar fólk bara úti á meðan staðan er svona. Að sjálfsögðu er brýnt að bregðast við.“
Herbert furðar sig þó á því hvað hann sér borgarverðina sjaldan. „Þeir sjást varla. Þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera og fara aðallega með fólk í fangaklefa. En þótt þeir fari ekki út í Örfirsey þá gætu þeir farið leiðir innan bæjar til að koma okkur á milli staða. Þetta byggist á því að komast einhvers staðar inn og á milli staða. Ég er ekki göngufær.“
Veturinn framundan
Rannvá segir að á milli 18-40 manns hafi leitað daglega í Dagsetrið, eftir því eftir því hvað langt var liðið á mánuðinn. „Stundum áttu allir peninginn og þá komu fáir. Stundum átti enginn pening og þá komu allir. Það fór eftir því hvenær þeir voru ríkir og hve lengi. Oftast voru þetta um þrjátíu einstaklingar sem voru að koma daglega.“
Hún þakkar fyrir að veturinn sé ekki skollinn á og vonast til þess að hægt verið að grípa til ráðstafana áður en það gerist. „Það er ekki orðið svo kalt núna þótt dagurinn í dag hafi verið hundleiðinlegur. En það þarf að hugsa þetta vandlega fyrir veturinn. Og veturinn byrjar svo snemma, í október, nóvember er orðið kalt og hrátt og leiðinlegt. Að sjálfsögðu þarf að gera eitthvað í þessu.“
„Þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera og fara aðallega með fólk í fangaklefa.“
Á götunni í átta ár
Herbert hefur verið heimilislaus frá árinu 2007. Þá fékk hann reikninga fyrir viðgerðum á húsinu sem hann taldi ranga og neitaði að borga. „Þeir þrjóskuðust við og mér var hent út. Þetta voru vitlausir reikningar sem ég fékk út af viðgerðunum á Skúlagötu og annað eftir því. Það vantaði heila brú í þetta en þeir neituðu að endursemja og bættu seðilgjöldum ofan á, og endalausum kostnaði. Þetta var eins og pýramíti sem byggðist upp.“
Veturinn 2009-2010 hafði hann aðgang að geymsluhúsnæði í Yrsufellinu þar sem hann gat farið inn og yljað sér. Síðan var því lokað haustið 2010. „Þá fór ég í skýlið.“
Aðspurður hvað haldi honum gangandi, öll þessi ár í harkinu, segist hann ekki vitað það lengur. „Ég er hættur að hugsa út í það.“
Athugasemdir