Allt bendir til að fjöldagrafir hafi verið grafnar í Afríkuríkinu Búrúndí í síðastliðnum desembermánuði. Þetta sýna gervihnattamyndir, myndbandsupptökur sem og vitnisburður sem mannréttindasamtökin Amnesty International hafa tekið saman og birt á vef sínum.
Mikil ólga hefur verið í landinu undanfarin misseri eða allt frá því að forseti landsins, Pierre Nkurunziza, tilkynnti í maí að hann myndi bjóða sig fram til forseta á ný. Andstæðingar hans töldu framboð hans brjóta í bága við stjórnarskrá landsins þar sem það yrði hans þriðja kjörtímabil. Svo fór að Pierre var endurkjörinn forseti landsins í júlí. Fyrst fóru fram friðsöm mótmæli en harka færðist í leikinn eftir að lögreglan og herinn börðu mótmælin niður. Margt bendir nú til þess að borgarastyrjöld sé að brjótast út. Afríkusambandið hyggst senda 5.000 manna friðargæslulið til landsins og er það í fyrsta skipti í sögunni sem slíkt er gert í óþökk stjórnvalda lands.
Athugasemdir