„Það var orðið tímaspursmál hvenær báturinn léti undan. Höggin og djöfulsskapurinn var það mikill og ísinn var mjög þéttur,“ segir Sigurður Pétursson, skipstjóri í Kuummiut á Austur-Grænlandi, sem lenti í sjávarháska á leið sinni til Grænlands í gær þegar bátur hans sökk. Sigurður var á leið frá Bolungarvík til Grænlands þegar hann lenti í miklum ís. Með í för var fjölskylda Sigurðar, Anna Manikutdlak, nítján ára sambýliskona hans, Sunna, þriggja ára dóttir þeirra, og systir Önnu. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu.
„Ég var búinn að vera fastur í ísnum í eina viku,“ segir Sigurður, sem hlotið hefur viðurnefnið Ísmaðurinn, í samtali við Stundina.
„Svo fór bara að blása og það var komin mikil hreyfing. Ég nálgaðist ískantinn aftur og það var orðið mjög órólegt. Það var mikil ölduhæð í kantinum og íshaf allt í kringum mig. Ég sat bara fastur í ísnum og þetta voru mikil högg og læti.“
Sigurður segir farþega hafa haldið ró sinni. Dóttir hans, Sunna, hafi verið óhrædd. „Það var mjög gott að eiga við hana. Hún hélt sér nálægt mér, svo það var allt í lagi,“ segir Sigurður, en viðurkennir jafnframt að ástandið hafi verið orðið tvísýnt undir lokin. „Það var orðið spursmál hvenær báturinn léti undan. Höggin og djöfulsskapurinn var það mikill og ísinn var mjög þéttur.“
Athugasemdir