Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Fangelsi án lausnar

Í fang­els­inu á Hólms­heiði eru kon­ur lok­að­ar inni vegna brota sem þær frömdu und­ir áhrif­um áfeng­is- og vímu­efna. Fá úr­ræði eru hins veg­ar til stað­ar inni í fang­els­inu til þess að mæta þess­um vanda, þar sem einn sál­fræð­ing­ur sinn­ir öll­um föng­um í fang­els­um og eng­inn með­ferð­ar­gang­ur er fyr­ir kon­ur. Það er ekki held­ur neitt sem tek­ur við þeim þeg­ar þær ljúka afplán­un, og þær lýsa því hvernig þær fara beint úr fang­elsi á göt­una og það­an aft­ur inn í fang­els­ið. Þetta er víta­hring­ur sem þú fest­ist í, segja þær.

Fangelsi án lausnar

Í desember þegar jólaljósin lýsa upp miðbæinn umlykur mykrið fangelsið á Hólmsheiði. Þar situr inni kona, nýkomin af götunni. Hún mætti þangað óbeðin, bankaði upp á og bað um hjálp. Hún er ekki orðin þrítug en var að gefast upp á því að eiga engan samanstað, föst í viðjum eiturlyfja og glæpa, þar sem ekkert beið hennar nema geðveiki eða dauði. Hún vissi að hún yrði að finna leiðina út og það strax og lét því loka sig inni. Hún gerði það af ótta við dauðann.

Lét loka sig inni

„Ég er ekki vond manneskja,“ segir hún þar sem við sitjum í eldhúsinu, „en þegar ég er í neyslu tekur stjórnleysið yfir og ég geri viðbjóðslega hluti sem ég myndi annars aldrei gera. Ég vil ekki meiða fólk eða særa það en þegar ég er í neyslu er ég stjórnlaus og veit ekkert hvað ég er að gera.“

Bára hefur verið í neyslu vímuefna frá barnsaldri. Hún ólst upp við vanrækslu og afskiptaleysi, fékk aldrei að heyra að hún væri nokkurs virði og sótti sér viðurkenningu þar sem hún gat fengið hana. Þegar hún reyndi að hætta og hefja nýtt líf kynntist hún krökkum sem voru komnir lengra og sökk enn dýpra. Á svipuðum tíma og jafnaldrar hennar voru að hefja framhaldsskólanám var hún að hverfa úr samfélaginu. Í neyslu hefur hún ítrekað brotið af sér og gert ljóta hluti á kostnað annarra, en situr inni fyrir smáglæpi. Hún hefur beðist afsökunar á því versta, reynt að bæta sig og snúa af þessari braut, en áföll og skortur á stuðningi hjálpa ekki til. Hún hefur hvergi fengið hjálpina sem hún þarf.

„Þær koma oft inn mjög illa farnar, mun verr en karlarnir.“

Konur koma verri inn

Konur sem koma í fangelsi eru yfirleitt mun verr staddar en karlar sem koma inn. „Þær eru illa farnar líkamlega og andlega,“ segir fangavörður á vakt, Einar Andrésson. Hann datt inn í fangavörslu fyrir tilviljun, nýútskrifaður úr menntaskóla að leita sér að sumarvinnu rakst hann á félaga sinn fyrir utan Hegningarhúsið, og er hér enn, 37 árum síðar. „Þær koma oft inn mjög illa farnar, mun verr en karlarnir. Þarna úti virðast dómstólar og lögregla hlífa konum við fangelsi. Eitthvað í kerfinu gerir það að verkum að strákarnir detta mun hraðar inn en stelpurnar. Ef þær tilheyra undirheimunum er eins og þar sé þeim líka hlíft og strákarnir taki frekar á sig sökina. Allt hjálpast þetta að þannig að þegar þær koma loks inn eru þær yfirleitt langt gengnar.“ Þessu samsinnir varðstjórinn, Magnús Páll Ragnarsson, sem bætir því við að kerfið sé í raun byggt upp fyrir karla. „En það er rétt að þegar þær koma inn eru þær iðulega verr settar en karlarnir, bæði á sál og líkama. Það er búið að misnota þær, brjóta á þeim og beita þær sálarofbeldi á allan hátt. Ef þær tilheyra undirheimunum má gera ráð fyrir því að í 90 prósent tilvika hafi þær verið misnotaðar með einhverjum hætti. Þess vegna eru þær brotnari og verr á sig  komnar en karlarnir. Ég held að það þurfi að vera meiri skilningur á aðstæðum kvenna í fangelsi.

Að sjálfsögðu koma líka hingað karlar sem hafa verið misnotaðir, lamdir og barðir og eru á svipuðum stað og þær, eru búnir að missa allt og eiga ekkert.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár