Einn afskekktasti staður jarðar er eldvirki eyjaklasinn Tristan da Cunha í Suður-Atlantshafi, en eina byggða eyjan hefur stundum verið nefnd „einmanalegasta eyja í heimi“. Þar búa nú 268 manns í „höfuðborginni“ Edinburgh of the Seven Seas, sem heimamenn nefna einfaldlega The Settlement, eða „Nýlendan“.
Eyjarnar, sem þykja gríðarlega fallegar, eru nokkurn veginn miðja vegu á milli tveggja heimsálfa, 2.816 kílómetrum frá Suður-Afríku og 3.360 kílómetrum frá Suður-Ameríku. Skiptast þær í grófum dráttum í fjórar eyjar; þá sem höfuðborgin er á, Tristan da Cunha, Eyjuna óaðgengilegu (Inaccessable Island), Næturgalaeyjarnar (Nightingale Islands) og hina litlu Gough-eyju.
Fyrstu landnemarnir voru fjórir Bandaríkjamenn sem komu árið 1810. Þrír þeirra létust tveimur árum seinna, en sá fjórði hélt þó áfram búsetu á eyjunni. Árið 1816 lýsti Breska konungsveldið yfir eign sinni á eyjunni, en sagt er að ástæðan hafi verið að koma í veg fyrir að Frakkar gætu notað eyjuna sem bækistöð til þess að frelsa Napóleon sem var fangi á eyjunni Sánkti Helenu, sem einnig er í sunnanverðu Atlantshafi.
Næstu hundrað ár fjölgaði íbúum vegna umsvifa breska flotans, en eftir erfiðan vetur árið 1906 og harðindi áratugina á undan skipaði ríkisstjórnin íbúum að yfirgefa eyjuna. Eyjarskeggjar héldu þá íbúafund þar sem þeir neituðu að verða við skipuninni. Í kjölfarið jókst mjög einangrun þeirra og á árunum 1909 til 1919 kom ekkert skip til eyjanna, fyrr en breska herskipið HMS Yarmouth kom til þess að segja íbúum frá því hvernig fyrri heimsstyrjöldin hafði farið.
Í október 1961 gaus svo eldfjallið á Tristan da Cunha. Urðu þá allir íbúar að yfirgefa eyjuna og voru þeir fluttir til Bretlands. Hið konunglega breska vísindafélag komst að þeirri niðurstöðu í lok goss að eyjan væri óbyggileg. Eftir að hafa dvalist í Englandi í 18 mánuði efndu íbúarnir þó til kosninga þar sem ákveðið var með 148 atkvæðum gegn 5 að snúa aftur til eyjunnar.
Athugasemdir