„Hugsaðu þér allt plássið sem hver maður hefur. Fólkið og víðáttan,“ segir Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur og kennari, þegar við höfum heilsast. Ég hafði spurt um Strandirnar og hug hennar til þess svæðis sem hafði fóstrað hana síðasta áratuginn. Þarna stóð hún svarthærð með rauðan varalit og óaðfinnanlega klædd í svart. Allt í stíl. Hefðarfrúin sem flutti næstum alla leið á Hornstrandir til að njóta þess að búa í örlitlu samfélagi íslenskrar sveitamenningar. Ég verð dálítið sem stjörnusleginn. Vigdís hefur alla tíð verið hátt skrifuð í mínum huga sem rithöfundur og manneskja. Hún biður mig afsökunar á því að kaffivélin sé biluð. Ég býð þér upp á sódavatn í staðinn,“ segir hún. Ég þakka fyrir mig og læt eins og mér sé sama um kaffileysið.
Fyrir nokkrum dögum fluttu Vigdís og María Guðmundsdóttir ljósmyndari frá Ströndum til Reykjavíkur. Stökkið er stórt. Vigdís og María bjuggu um árabil í Árneshreppi. Þær settu svo sannarlega svip á samfélagið, ljósmyndarinn og rithöfundurinn, og nutu virðingar og vináttu samborgara sinna í einu minnsta sveitarfélagi landsins þar sem innan við 40 manns hafa vetursetu á stóru og einangruðu landsvæði.
Ekki viðtal
„Þetta verður samtal en ekki viðtal,“ segir Vigdís ákveðin þegar hún hafði boðið mér sæti á nýja heimilinu. Ég malda í móinn og vil halda mér utan við viðtalið að vanda. En Vigdís gefur sig ekki. Við eigum sameiginlegan bakgrunn í að skrifa bækur og að hafa búið á Ströndum.
Athugasemdir