Framkvæmdaráð Dögunar telur að flokkurinn sé beittur þöggun í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef flokksins um helgina. „Það er deginum ljósara að fjölmiðlar hunsa flest allar ályktanir og fréttatilkynningar frá Dögun, stjórnmálasamtökum um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Þó að einum fréttamiðli undanskildum, netmiðlinum Mbl.is,“ segir þar. Er fundið að því að aðrir fjölmiðlar en Mbl.is hafi ekki fjallað um landsfund flokksins. Í ljósi þessa hyggist flokkurinn setja á laggirnar eigin fréttaveitu, netsjónvarp, og er stefnt að útsendingum á fyrsta ársfjórðungi 2016. „Dögun hvetur blaðamenn til að fara betur með þær lýðræðislegu skyldur sem þeir hafa,“ segir í lok tilkynningarinnar.
Dögun bauð fram í síðustu þingkosningum en náði ekki inn þingmanni. Samkvæmt lögum flokksins er tilgangur hans að „stuðla að betra samfélagi, sem hefur umburðarlyndi, réttlæti, heiðarleika, siðgæði og lýðræði að leiðarljósi. Samfélagi sem byggir á virkni og ábyrgð þegnanna og jafnræði allra, óháð aldri, búsetu, kyni, efnahag, kynþætti, trúarbrögðum, fötlun, kynhneigð, stöðu eða uppruna.” Í framkvæmdaráði Dögunar sitja Sigríður Fossberg Thorlacius, Ragnhildur L. Guðmundsdóttir, Björgvin Vídalín, Baldvin Björgvinsson og Gunnar Hólmsteinn Ársælsson. Formaður flokksins er Helga Þórðardóttir og varaformaður Sigurður Haraldsson.
Athugasemdir