Mér finnst ég vera heima þegar ég er á Íslandi. Löndin líkjast og mennirnir með,“ segir Brynhild Høgnadóttir, 48 ára framkvæmdastjóri Umferðarráðs, sem býr á Velbastað í Færeyjum.
Fögnuður Færeyinga yfir leikjum íslenska landsliðsins í knattspyrnu á Evrópumótinu vakti athygli hérlendis á sambandi þjóðanna tveggja. Brynhild er ein níu Færeyinga sem Stundin spurði út í tengsl almennra borgara í Færeyum við Ísland og sýn þeirra á Íslendinga.
„Íslendingar eru alltaf vingjarnlegir við Færeyinga – maður finnur fyrir skyldleika þjóðanna. Þegar allt kemur til alls eru Íslendingar mun betri í að setja orð á sínar tilfinningar en Færeyingar. Mitt álit er að það sé þetta sem við sjáum á knattspyrnuvellinum núna,“ segir Ingi Samuelsen, 54 ára blaðamaður, settur ritstjóri á portal.fo og ritari í Norræna Félaginu í Færeyjum, sem býr í Hoyvík. Hann hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og segist álíta landið vera fallegt og mikilfenglegt, „með heillandi náttúru og vingjarnlegri þjóð“.
Saga íslensku og færeysku þjóðanna er samofin og einkennist af bræðralagi. Þannig voru Færeyingar fyrstir til að stökkva Íslendingum til hjálpar eftir að drambsemi útrásaráranna kom í bakið á þeim í bankahruninu. Meðan aðrir sneru baki við Íslendingum og lánstraust Íslands var í ruslflokki tilkynntu Færeyingar um að ákveðið hefði verið með þverpólitískri samstöðu að bjóða Íslandi lán upp á þrjú hundruð milljónir danskra króna.
„Það var sérstakt að koma til Íslands á meðan kreppan lék ykkur sem harðast. Það var litið á okkur Færeyinga sem hetjur, það hef ég hvergi upplifað annars staðar,“ segir Annika Sølvará, 47 ára Klakksvíkingur, sem býr í Þórshöfn og gegnir stöðu framkvæmdastjóra Vísindaráðs Færeyja og vísindabókaútgáfunnar Fróðskaps.
Færeyingar, sem rætt var við fyrir Stundina, lýsa einstöku sambandi Færeyinga og Íslendinga. Þeir upplifa meiri gestrisni á Íslandi en annars staðar, sjá Íslendinga gjarnan sem djarfa og með ríkulegt sjálfsmat, en stundum yfirdrifna sjálfstrú.
Athugasemdir