„Beltin bjarga. Það er bara þannig og ég er svo þakklát fyrir að vera á lífi,“ segir Auður Gísladóttir sem lenti í alvarlegu bílslysi á Suðurlandsvegi í gær.
Hún var á leið frá Reykjavík og suður á land þegar hún missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún fór utan vegar og valt í þrjá hringi.
„Ég held að ég hafi brotið rúðuna með höfðinu á mér. Þá fékk ég líka flösku í andlitið og litla garðhrífu í öxlina. Síðan man ég ekki meir því ég held að ég hafi misst meðvitund,“ segir Auður sem nú er á batavegi en hún er talin hafa sloppið mjög vel og það megi að mestu rekja til bílbeltanotkunar.
Skelfingu lostin og föst í bifreiðinni
Hópur ferðamanna á einkabíl voru fyrstir á slysstað og reyndu að ná Auði út úr bifreiðinni en myndband af björguninni hefur nú ratað á samfélagsmiðilinn YouTube.
Auður vissi ekki af myndbandinu þegar blaðamaður Stundarinnar hafði samband. Svo virðist sem að því sé hlaðið upp af síðu á YouTube sem kennir sig við asíska borgarablaðamennsku. Í myndskeiðinu sést hvar ferðamennirnir koma hlaupandi að og heyrist í Auði gráta, skelfingu lostin, þar sem hún sat föst í bifreiðinni.
„Það eina sem mér dettur í hug að segja er að þakka öllu þessu góða fólki“
„Það er rosalegt að horfa á þetta svona eftir á. Það eina sem mér dettur í hug að segja er að þakka öllu þessu góða fólki sem aðstoðaði mig eftir slysið. Bæði þessum ferðamönnum sem og öðrum vegfarendum sem komu að slysinu. Þá vill ég líka þakka starfsfólkinu á bráðamóttökunni í Fossvogi,“ segir Auður sem vill ítreka boðskap sögunnar.
„Munið að beltin bjarga.“
Myndbandið frá ferðamönnunum
Athugasemdir