Árlegt tekjutap hins opinbera vegna skattfrelsis séreignarsparnaðar er metið á 1,5 milljarða króna en ekki 15 milljarða eins og fram kom í kynningarefni sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins og Stundin greindi frá í dag.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins, bendir á að aðgerðirnar kosti ekki 15 milljarða á ári heldur 1,5 milljarða. Gagnrýnir hann Stundina vegna málsins.
Jóhannes skrifar:
Verðlaunablaðamenn geta greinilega hlaupið á sig eins og aðrir. Í frétt Stundarinnar af #FyrstaFasteign segir réttilega að kostnaður ríkisins sé metinn 15 milljarðar á TÍU ára tímabili - þ.e. um 1,5 ma. á ári x tíu ár. Jóhann Páll virðist hins vegar hafa séð þetta einhverjum ofsjónum því fyrirsögnin segir kostnaðinn vera 15 milljarða á hverju ári... og að með því megi borga allt heilbrigðiskerfið í heild sinni. Það sem er hins vegar rétt, er að með úrræðinu getur fólk lækkað greiðslubyrði sína og heildargreislur á lánstíma húsnæðisláns um rúmlega fjórðung, meira en 25%. Og það er alveg þess virði að ríkið gefi eftir 1500 milljónir í skatta á ári til þess.
Stundin vitnaði í kynningarefni ríkisstjórnarinnar þegar fullyrt var að úrræðin kostuðu 15 milljarða á ári. Í kynningarefninu stóð: „Árlegt tekjutap hins opinbera vegna skattfrelsis séreignarsparnaðar er metið 15 milljarðar króna á tíu árum í grunndæmi.“ Að sögn Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, var um villu í kynningarefninu að ræða. Ummæli Jóhannesar um að Stundin hafi greint frá því að með sams konar upphæð mætti „borga allt heilbrigðiskerfið í heild sinni“ eru ekki rétt. Í frétt var hins vegar minnst á áætlaðan kostnað við að fella niður greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.
Athugasemdir