Amnesty International hefur samþykkt að beita sér fyrir afglæpavæðingu vændis. Tillagan var samþykkt á fundi alþjóðahreyfingarinnar í Dublin í dag. Þar var samþykkt að fela stjórn samtakanna að móta stefnu í þessum málum til að styðja við afglæpavæðingu vændis og tryggja að fólk í kynlífsiðnaði njóti fullrar og jafnrar verndar gagnvart misnotkun, mansali og ofbeldi.
Í tilkynningu Amnesty International segir að fólk sem starfar við kynlífsiðnaðinn sé jaðarhópur sem stendur stöðugt frammi fyrir hættu á mismunun, ofbeldi og misnoktun. Það sé niðurstaða tveggja ára rannsóknarvinnu að þessi leið sé best til þess fallin að tryggja mannréttindi þessa hóps og draga úr hættunni á ofbeldi og misnotkun sem þeir standa frammi fyrir.
Íslandsdeild Amnesty International tók afstöðu gegn afglæpavæðingu vændis í breytingartillögu sem deildin lagði fram með Svíum. Breytingartillagan fékk ekki hljómgrunn á fundinum. Þegar til atkvæðagreiðslu kom sátu fulltrúar Íslandsdeildarinnar hins vegar hjá.
Hörður Helgason, formaður Íslandsdeildar Amnesty International, segir að alþjóðasamtökin hafi farið fram á að trúnaður myndi ríkja um afstöðu deildarinnar þar til tillagan hefði verið afgreidd og niðurstaðan kynnt. Starfsmennirnir gátu því ekki rætt afstöðu deildarinnar opinberlega á síðustu dögum, þegar mikil umræða hefur verið um málið. „Okkur voru frekar þröngar skorður settar um það hvernig við gátum svarað fjölmiðlum varðandi okkar afstöðu gagnvart þessari tillögu og þurftum að reiða okkur á óformleg samtöl. Sú ákvörðun var tekin á fundi stjórnarinnar 30. júlí síðastliðinn, þar sem það var einróma samþykkt að það væri ekki hægt að styðja þessa tillögu vegna þess að göngin sem lágu fyrir væru ekki nægilega traust.“
Vont að geta ekki leiðrétt ráðherra
Hörður segir bagalegt hvernig brugðist var við tillögunni á Íslandi, í ljósi þess að Íslandsdeildin hafi ávallt verið andsnúin henni. „Við gátum ekki komið á framfæri leiðréttingum við umræðunni sem spannst í kjölfarið. Sérstaklega þótti okkur bagalegt að geta ekki leiðrétt utanríkisráðherra ríkisstjórnar Íslands sem gagnrýndi okkur sérstaklega fyrir þessar tillögur um afglæpavæðingu eða afléttingu refsingu vændisfólks og vitnaði máli sínu til stuðnings í átakið HeForShe sem UN Women stendur að. Í ljósi þess að samtökin eru ekki einungis hlynnt afléttingu refsinga, eins og Amnesty, heldur ganga lengra og viðurkenna þessa iðju sem atvinnugrein,“ segir Hörður.
„Sérstaklega þótti okkur bagalegt að geta ekki leiðrétt utanríkisráðherra ríkisstjórnar Íslands sem gagnrýndi okkur sérstaklega fyrir þessar tillögur.“
Hann segir að fulltrúar Íslandsdeildarinnar hafi fljótlega fundið samherja í öðrum deildum þegar þeir mættu til þingsins og reynt að ná samstöðu um breytingartillögu við fyrirliggjandi tillögu. „Eina deildin sem ég veit um sem ætlar að uppljóstra að hún hafi tekið þátt í því er sænska deildin.
Breytingartillagan var tekin fyrir í dag og felld. Niðurstaðan var engu að síður sú að upprunalega tillagan sem var til afgreiðslu á þinginu var í meðferðum þingsins stórlega breytt. Svo mikið að hún var lögð til hliðar og ný tillaga samin í staðin. Þessi nýja tillaga, þar sem efnislega var komist að sömu niðurstöðu, var samþykkt,“ útskýrir Hörður.
Hann getur ekki tjáð blaðamanni hvernig deildirnar kusu eftir löndum, en segir að mikill meirihluti hafi verið fyrir tillögunni. Líkt og fyrr segir sat Íslandsdeildin hjá þegar atkvæði voru greidd um tillöguna umdeildu, þar sem lagt var til að vændi yrði afglæpavætt. „Við sátum hjá við lokaafgreiðslu málsins í samræmi við stjórnarályktun þann 30. júlí, þar sem við komumst að þeirri niðurstöðu að það væru ekki fyrirliggjandi gögn til að styðja þetta en við gætum ekki tekið afstöðu til þess hvað gerðist ef alþjóðasamtökin myndu leggja gögnin fram síðar.“
„Við sátum hjá við lokaafgreiðslu málsins í samræmi við stjórnarályktun þann 30. júlí.“
Vændiskonur mótmæltu tillögunni
Í sameiginlegri yfirlýsingu sjö kvennasamtaka á Íslandi var tillagan um afglæpavæðingu vændis gagnrýnd harðlega. „Ef Amnesty International mælir með að því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum þar með gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin. Slík stefna myndi skaða þann mikilvæga trúverðugleika og það traust sem Amnesty nýtur í dag. Það má ekki gerast,“ segir í yfirlýsingu þeirra.
Sambærilegar yfirlýsingar bárust frá ýmsum kvennahreyfingum erlendis. Auk þess tjáði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sig um málið, sagði vændi ekki vera atvinnugrein og ekki eiga að fá að þrífast sem slík. „Mér finnst hryggilegt til þess að hugsa að á sama tíma og við hvetjum karla um allan heim til að leggja sitt af mörkum til #heforshe og koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og tryggja kynjajafnrétti þá skulu ein stærstu og virtustu mannréttindasamtök heims leggja þessar tillögur fram,“ skrifaði hann á Facebook.
Þá skrifaði íslensk kona sem hefur verið í vændi bréf til Íslandsdeildarinnar sem birt var á Stundinni þar sem hún biðlaði til þeirra að berjast gegn tillögunni. Í sama streng tóku fyrrverandi vændiskonur sem útskýra hér af hverju þær lögðust gegn tillögunni.
„Getum ekki gefist upp“
„Við getum ekki gefist upp. Það er rignir inn á netið yfirlýsingum frá samstarfskonum okkar um allan heim. Amnesty hefur misst trúverðugleika og traust,“ skrifaði Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, á Facebook eftir að tillaga Amnesty var samþykkt á alþjóðaþinginu.
Fyrr í dag var hún til viðtals í þætti um vændi á BBC, ríkisútvarpi Bretlands. Þar vitnaði hún í skýrslu um hvernig sænska módelið hefði gefist í Noregi og sagði þar vændi hafa minnkað um 25 prósent og lögin stuðlað að vitundarvakningu um vændi. „Auk þess teljum við mikilvægt að bent sé á að þeir sem kaupa vændi geta aldrei vitað hvort konurnar eru þar af fúsum og frjálsum vilja eða hvort þær eru fórnarlömb mansals. Ef okkur er alvara með baráttunni gegn mansali þá getum við ekki annað en reynt að draga úr eftirspurn eftir vændi, því mansal þrífst nær einvörðungu þar sem vændi blómstrar.
Í umræðum um jaðarsettar fátækar konur sagði Guðrún óþolanlegt að slíkar konur stæðu eftir án nokkurra valkosta og yrðu að hafa lifibrauð af því að selja líkama sinn. „Við skilgreinum þetta ekki sem atvinnugrein og óháð því hvaða lög gilda verður að efla félagsleg aðstoð og tryggja konum útgönguleið. Konur þurfa á slíkum kostum að halda til að þær neyðist ekki til að halda áfram í vændisiðnaðinum.“
Athugasemdir