Brotnir gluggar, bilaðir ofnar, mygla í eldhúsi, ónýtur eldhúsvaskur sem lyktar illa, engar gardínur og slæmur frágangur á rafmagni. Örfáir stólar og borð, lítill sem enginn borðbúnaður og óþrifnaður. Þannig lýsir Sema Erla Serdar aðstæðunum eins og þær voru á Skeggjagötu í byrjun vikunnar, áður en hópur fólks gekk þar inn á þriðjudagskvöld með hirslur, stóla, lampa, kaffivélar og fleiri nauðsynjar til að bæta líf hælisleitenda sem þar búa.
Aðdragandann að heimsókn Semu Erlu og félaga má rekja til þess að á mánudagskvöld las Sema Erla frétt Stundarinnar um að hælisleitendur sem byggju á Skeggjagötu borðuðu mat sinn af gólfinu, þar sem þeir hefðu enga stóla til að sitja á. Hún sendi út neyðarkall á Facebook og óskaði eftir húsgögnum og öðrum hlutum, til að gera búsetu þeirra bærilegri og mannúðlegri. Hátt í hundrað manns höfðu samband og buðu fram aðstoð.
Daginn eftir heimsótti hún Skeggjagötu ásamt vinkonu sinni, Margréti Norðdahl. Um kvöldið fóru þær svo, ásamt öðrum, söfnuðu saman húsgögnum og keyrðu þau á Skeggjagötuna.
Athugasemdir