68 milljarðar króna féllu ríkissjóði í skaut vegna stöðugleikaframlaga á fyrri helmingi ársins. Þetta kemur fram í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2016 sem birt hefur verið á vef fjármálaráðuneytisins.
Til samanburðar má nefna að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016 nema útgjöld til Landspítalans rúmum 54 milljörðum. Þá hefur samanlagður heildarkostnaður við byggingu nýs Landspítala verið metinn á 85 milljarða króna.
„Handbært fé frá rekstri batnaði verulega á milli ára og var jákvætt um 37,9 ma.kr. samanborið við neikvætt handbært fé upp á 30,3 ma.kr. 2015. Þetta skýrist að stærstum hluta með tekjum af stöðugleikaframlögum á árinu 2016 sem námu 68 ma.kr á fyrri helmingi ársins,“ segir í greiðsluuppgjörinu.
„Handbært fé lækkar um 79,5 ma.kr. samanborið við lækkun um 37,1 ma.kr. á árinu 2015 sem skýrist að stærstum hluta af afborgunum lána sem námu 124,9 ma.kr. á tímabilinu.“
Athugasemdir