Ekki einungis mannfólkið er kalt og hrakið í dag en smáfuglar sækja nú í hitann inn í 10-11 í Austurstræti. Ekki verður betur séð en allt að tíu smáfuglar hafi komið sér fyrir í versluninni. „Þeir hafa smeygt sér inn út af veðrinu, þeir sækja í hlýjuna,“ segir Guðmundur Hafsteinsson, verslunarstjóri búðarinnar.
Guðmundur segir að hringt hafi verið í meindýraeyði sem mun væntanlega veiða fuglanna með háfi og koma þeim aftur út í óveðrið. „Hann er á leiðinni og mun sleppa þeim út.“
Uppfært: Meindýraeyðir hefur nú fangað fuglana í háf og varpað þeim út í vetrarveðrið.
Að sögn starfsmanna er þetta óvanalegt en það gerist þó að einn og einn fugl álpist inn í búðina.
Slæmt veður er á höfuðborgarsvæðinu og er búist við því að vind lægi seinni partinn. Veðurstofa hefur gefið út stormviðvörun sem gengur í austanátt 15-25 metrar á sekúndu með snjókomu og skafrenningi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur bent almenningi á að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. „Færð er að spillast í borginni og farnar að berast beiðnir um aðstoð vegna fastra bíla í úthverfunum. Við minnum fólk á að vera ekki að fara af stað að nauðsynjalausu enda er veðrið enn að versna,“ segir á Facebook-síðu lögreglu.
Athugasemdir