Vísindin, stjórnmálin, Þorvaldur
Það kann að vera rétt að Lars Calmfors hafi ekki haft umboð til að veita Þorvaldi Gylfasyni stöðu ritstjóra hins margumtalaða tímarits. Eigi að síður er borðleggjandi að fjármálaráðherra og undirtylla hans sögðu beinum orðum að hann fengi ekki stöðuna vegna þess að skoðanir hans samrýmdust ekki viðhorfi þeirra.
Af ummælum þessara manna („rökstyðjenda“) verður ekki annað ráðið en að þeir telji gefið að ráðherrann og/eða skoðanasystkini hans muni ríkja í ráðuneytinu til eilífðarnóns. En undrin gætu gerst, kannski verður mynduð ný stjórn á næsta ári með nýjum fjármálaráðherra, hann gæti t.d. heitað Þorvaldur Gylfason.
Hvað um það, ber að skilja þennan meinta rökstuðning fyrir höfnun Þorvaldar þannig að djúp sé staðfest milli hagfræði og stjórnmálaskoðana? Er hagfræðin að mati „rökstyðjenda“ öldungis hlutlaus um gildismat og eins hlutlæg og frekast er unnt? Sé svo þá vita þessir menn ekki mikið um vísindi.
Gylfi Þ og gildismatið
Öllu snjallari maður, Gylfi Þ. Gíslason, faðir Þorvaldar, gerði sig sekan um svipaða villu. Hann staðhæfði að vel mætti mæla fjarlægðina milli Reykjavíkur og Akureyrar en ekki hvor staðurinn væri fegurri. Fegurðin væri eingöngu spurning um huglægt gildismat, en fjarlægðin mælanleg með hlutlægum hætti. Raunhæfingar mætti styðja eða fella með reynslurökum, stefnustaðhæfingar (skoðanir) ekki (Gylfi 1975: 5 og 11).
Hafi Gylfi haldið að mælingar væru óháðar gildismati þá hefur honum orðið laglega á í messunni. Hvorki er hægt að mæla eitt né neitt nema að geta metið hvort mælingin hafi verið framkvæmd með góðum eða slæmum hætti.
Að breyttu breytanda gildir slíkt hið sama um raunhæfingar, þær geta verið vel, illa eða alls ekki ígrundaðar. Að kveða á um eitthvað sé gott eða slæmt er að kveða upp gildisdóm.
Það er einfaldlega rangt að ávallt sé djúp staðfest milli raunhæfinga og gildisdóma. Að segja að bitlaus hnífur sé slæmur hnífur er bæði að setja fram raunhæfingu og kveða upp gildisdóm. Reynslan getur sýnt að hnífurinn sé bitlaus en það er skilgreiningaratriði um hníf að hann er tæki til að stinga og skera. Bitlaus hnífur er ekki gott tæki til þess arna og því lélegur sem hnífur (hann getur verið góður sem skraut eða minjagripur).
Þótt margar raunhæfingar séu sneyddar gildismati þá er til tegund raunhæfinga sem er með nauðsyn gildishlaðin, samanber áðurnefnt dæmi.
Athugið annað: Þetta dæmi sýnir að gildismat er ekki alltaf huglægt og/eða smekkbundið. Það er hlutlægt mat á gildi hnífs að sé hann bitlaus er hann að öllu jöfnu lélegur hnífur.
Það er líka hlutlægt mat á rökum að séu þau mótsagnarkennd eru þau að öllu jöfnu léleg rök.
Gylfa til afbötunar skal sagt að hann var barn síns tíma eins og við öll. Hans kynslóð menntaðist á blómaskeiði raunspekinnar (pósitivísmans) en fylgismenn hennar töldu ginnungagap vera milli vísinda og gildismats. Vísindin væru hlutlæg, gildismat öldungis huglægt. En eins og dæmið um hnífinn sýnir þá er það einfaldlega rangt.
Hlutlægni og hlutleysi.
Vindum okkur nú alfarið að vísindum en fyrst skulum við líta á nokkur meginhugtök. Oft blanda menn saman hlutlægni og hlutleysi.
Þeir athuga ekki að í fyrsta lagi táknar orðið „hlutlægni“ a.m.k. tvö hugtök, annars vegar hugtakið um það sem er sneytt huglægni, hins vegar það sem sýnir veruleikann eins og hann kemur fyrir af skepnunni.
Hlutleysi er önnur ella, við getum til dæmis talað um hlutleysi miðað við afstöðu til pólitískra mála og hlutleysi miðað við gildismat. Og við getum deilt um það hvort slíkt hlutleysi sé mögulegt, þ.á.m. í vísindum.
Reyndar er ég nokkuð viss um að hlutleysi um gildismat sé röklega útilokað þegar vísindi eru annars vegar en að hlutlægni sé a.m.k að einhverju marki mögulegt.
Alla vega geta vísindin ekki verið hlutlaus um þekkingarlegt gildismat, t.d. spurninguna um hvort rök fyrir tiltekinni kenningu séu góð eða slæm.
Þau geta heldur ekki verið hlutlaus um það hvort taka beri góðan rökstuðning fram yfir lélegan rökstuðning. Eða hvort mikilvægt sé að beina sjónum sínum að tilteknum fyrirbærum en hundsa önnur fyrirbæri.
Athugið að það að segja eitthvað mikilvægt eða lítilvægt er að fella gildisdóm um það, eins er það gildisdómur að segja tiltekin rök góð. Gildismat vísindamanna, ekki síst spurningin um hvað sé mikilvægt og hvað sé ekki mikilvægt, getur haft örlagarík áhrif á stefnu rannsókna.
Oft ræður peningurinn miklu um hvað teljist mikilvægt. Fé er ausið í læknisfræðilegar rannsóknir á velsældarsjúkdómum vestrænna manna, mun minna fé er varið til rannsókna á sjúkdómum sem herja á fátæklinga í þriðja heiminum. Lítum á kemísk efni til lækninga. Á milli 2000 og 2011 var aðeins 4% þeirra efna, sem löggildingu hlutu, efni sem nota skyldi til lækninga á hitabeltissjúkdómum. Í augnablikinu er verið að þróa 180 ný lyf gegn velsældarsjúkdómnum sykursýki (Berg, Vik og Ziegler (2015).
Að minni hyggju þýðir þetta að efnahagslegt vald ræður miklu um hver þróun þekkingarinnar er, a.m.k. í þeim vísindagreinum sem varða manninn. Vísindamenn vita miklu meira um velsældarsjúkdóma en hitabeltissjúkdóma vega hlutdrægni auðmagnsins.
Bæta má við að sjálfsagt hefur hlutdrægni ríkisvaldsins sitt að segja. Mér skilst að norska rannsóknarráðið styrki helst rannsóknir sem það telur vera þjóðarbúinu og ríkinu til framdráttar.
Vansönnun, Hesse, og hugmyndafræði
Víkjum að hugtakinu um vansönnun. Margir vísindaheimspekingar telja að vísindakenningar séu vansannaðar af reynslurökum. Kenning sé annað og meira en summa þess sem við teljum okkur vita um staðreyndir. Lítum á fræga kenningu Isaac Newtons um að afl sé það sama og massi sinnum hröðun (F=ma). Hún á að vera algild, gilda um allt afl, allan massa og alla hröðun en við getum aldrei þekkt allt mögulegt afl, massa og hröðun.
Vísindamönnum er ekki kleift að kanna allar mögulegar staðreyndir um málið þó ekki væri nema vegna þess að þeir geta ekki kannað ástand mála í framtíðinni. Kannski breytist veröldin róttækt einhvern tímann í framtíðinni þannig að F = ma verður röng þá. En við höfum enga reynsluþekkingu af ástandi mála í framtíðinni.
Breski vísindaheimspekingurinn Mary Hesse hefur lög að mæla er hún segir að vegna þess að vísindakenningar séu vansannaðar þá skapist rými fyrir hugmyndafræðileg áhrif, samanber dæmið um læknisfræðina (Hesse 1982: 98-115).
Athugið að hún segir ekki að rýmið hljóti að fyllast en ætla má að meiri líkur séu á slíku þegar fræðin um manninn eru annars vegar, ekki síst félagsvísindum. Ástæðan er m.a. sú að erfitt hefur reynst í mannvísindum að tengja reynslugögn við kenningar, gjá virðist vera á milli reynslu og kenninga (köllum það „gjárvandann“).
Margt má gott um hagfræði segja en ýmislegt bendir til þess að líkön hagfræðinnar séu oft í of litlum tengslum við reynslugögn, eigi það til að svífa í lausu lofti (samkvæmt Krugman 2009 og Albert 1965).
Vesen er líka á sálfræðinni þótt hún sé líka merk fræðigrein. Illa gengur að endurtaka margar tilraunir hennar, auk þess hafa frægar tilraunir verið gagnrýndar mjög harkalega (Nosek 2015).
Ekki má gleyma garminum honum Katli, félagsfræðinni. Það hefur verið erfiðleikum bundið að ákveða um hvað fagið eigi að snúast, allt mögulegt og ómögulegt flokkast undir félagsfræði.
Sé það sem hér segir mannvísindi satt þá má ætla að hugmyndafræði eigi greiðari aðgang að þeim en náttúruvísindum og stærðfræði.
Tekið skal fram að ekki má draga þær ályktanir af því sem hér segir um vansönnun og vísindi að mannvísindamenn eigi að sitja með hendur í skauti og sætta sig við ofurveldi hugmyndafræða. Þeim er alltént einboðið að reyna að leysa gjárvandann. En eins og við munum sjá er á endanum ókleift að úthýsa hugmyndafræði (og þar með skoðunum) algerlega úr mannvísindum.
Gildishlaðin hugtök
Lítum á spekimál finnska heimspekingsins Georg Henrik von Wright. Hann benti á að á að samfélagið væri að nokkru skapað úr gildishlöðnum hugtökum sem ekki verði skilin á öldungis óhlutdrægan máta (hugtökin um hníf og rök eru gildishlaðin).
Tökum sem dæmi hið gildishlaðna, fordæmandi hugtak „morð“, en það sé einn hornsteinn allra samfélaga að manndráp af vissu tagi séu ekki liðin. Því sé ekki til siðferðilega hlutlaus aðferð við að beita hugtökum sem varða manndráp. Segi ég að hún hafi drepið hann í sjálfsvörn þá réttlæti ég gjörð hennar (t.d. von Wright 1979: 32-47). Staðhæfingar um slíkar staðreyndir eru því gegnsýrðar gildismati.
Athugum fræðilegar rannasóknir sem varða morð og fóstureyðingar. Hagfræðingarnir Steven Levitt og Stephen Dubner veltu því fyrir sér hvers vegan tíðni morða vestanhafs hefur verið minni á tímabilinu 1990-2005 en á sjöunda áratugnum. Þeir töldu sig geta hrakið ýmsar vinsælar kenningar um málið og staðhæfðu að líklegast megi þykja að lögleiðing fóstureyðinga sé skýringin.
Fátækar, einstæðar mæður, sem einatt voru dópistar eða drykkjumenn og bjuggu í hættulegum hverfum, eyddu oftar fóstrum en aðrar konur. Meiri líkur eru á því að börn slíkra mæðra verði morðingjar en börn annarra mæðra. Því hafi mögulegum morðingjum einfaldlega verið eytt í móðurkviði. En Levitt og Dubner viðurkenna að andstæðingar fóstureyðinga geti sagt að eiginlega hafi tíðni morða aukist á þessu tímabili því fóstureyðingar séu morð (Levitt og Dubner 2005: 4-6 og 117-144).
Fræðimaður sem er andsnúinn frjálsum fóstureyðingum myndi kannski leggja fram aðrar tölur þar sem fóstureyðingar reiknast sem morð. Því er gagnrýnið mati á viðfanginu hluti af starfi mannvísindamannsins, annars er hætta á að hann réttlæti fyrirbæri án þess að ætla sér það, verður hlutdrægur vegna hlutleysistilburða sinna. En hið gagnrýna mat má ekki leiða til þess að hann kasti allri hlutlægni fyrir róða.
Tekið skal fram að ekki eru allir sáttir við þessa greiningu Dubners og Levitts, t.d. hefur Steven Pinker gagnrýnt hana harkalega (Pinker 2012). En það skiptir engu máli fyrir minn rökstuðning, aðalmálið er að afstaða manna til fóstureyðinga hlýtur að ákveða hvernig þeir reikna morðtíðni, ef ekki þá eru þeir ekki samkvæmir sjálfum sér.
Skjervheim og hlutdrægni félagsvísinda
Norski heimspekingurinn Hans Skjervheim taldiað félagsvísindi hlytu að vera á vissan hátt hlutdræg. Ekkert mál sé fyrir náttúruvísindamanninn að skoða viðfangið utan frá, vera áhorfandi. Hann geti ekki gert sjálfan sig að öreind eða gerli þótt hann rannsaki slík fyrirbæri.
Öðru máli gegni um félagsvísindamanninn. Það sé erfitt fyrir hann að vera hreinræktaður áhorfandi að því samfélagi sem hann rannsakar. Hann getur ekki komist hjá því að vera að nokkru leyti þátttakandi, raunverulegur eða virtúell þátttakandi.
Hugsum okkur fræðimann sem rannsakar orsakir glæpa, hann kemst að þeirri niðurstöðu að meginorsök þeirra sé að glæpamenn séu aldir upp í fátækt, af einstæðum mæðrum. En glæpamennirnir hafa kannski sjálfir allt aðra skýringu.
Ef fræðimaðurinn trúir sinni eigin skýringu þá verður honum að vera röklega kleift að verja skoðun sína í rökræðu við glæpamennina og sýna fram á að þeirra skýring sé ósönn, hans sönn. Þeir eiga möguleika á því svara honum og andæfa kenningu hans. Þannig er félagsvísindamaðurinn virtúell þáttakandi í rökræðu við „viðfang sitt“. Félagsvísindamaðurinn getur aldrei verið hreinræktaður áhorfandi að samfélags-leiknum, hann er ávallt mögulegur eða raunverulegur þátttakandi í krafti sinna fræða.
Lítum á mitt eigið dæmi: Trumpliðar meðal verkamanna virðast halda að versnandi kjör sín séu innflytjendum að kenna. Setji hagfræðingur fram þá kenningu að aðalorsökin fyrir þessum ósóma sé hnattvæðing og aukin sjálfvirkni í framleiðslu þá getur hann ekki talist trúa kenningunni nema að hann sé röklega tilbúinn til að verja kenninguna gegn þessum Trumpliðum.
Skjervheim segir að kenningar í félagsvísindum geti ekki verið hlutlausar um pólitískt gildismat. Annað hvort réttlættu þær eða vanréttlættu þau viðhorf sem menn hafa til samfélagsins. Þær geta líka réttlætt það viðhorf að í lagi sé að vera skoðanalaus en eins og sjá má verður líka að réttlæta það viðhorf.
Í tilviki glæpafræðingsins vanréttlætir hann skoðanir glæpamannanna á glæpum. Samfélagið sé sjálft að nokkru skapað úr þeim skoðunum sem menn hafa, t.d. skoðunum á glæpum.
Félagsvísindi séu í eðli sínu gagnrýnin vísindi, annað hvort orka kenningar þeirra sem gagnrýni á samfélagið eða sem gagnrýni á þá sem gagnrýna samfélagið. Eða sem gagnrýni á þá sem halda að fræðimaðurinn geti ekki verið hlutlaus (Skjervheim 1976: 51-72, 209-225).
Þessi greining er öflug, henni trúi ég þar til annað sannara reynist.
Engin hlutlægni?
Þýðir þetta að félagsvísindamönnum beri að láta hlutlægni og sannleika lönd leið? Nei, hvorki Skjervheim né ég telja að svo sé, munið að hlutlægni og hlutleysi eru tvö ólík hugtök.
Það er ekki hægt að úthýsa sannleikanum og hlutlægninni úr vísindunum án þess að lenda í röklegum vandkvæðum. Ég get ekki bæði sagt að vísindin hafi gildismatsþátt og um leið sagt að sannleikur og hlutlægni séu blekkingar. Með því að staðhæfa þetta hef ég viðurkennt að a.mk. ein staðhæfing sé sönn. Engin staðhæfing getur verið sönn nema hún sé hlutlæg í báðum merkingum orðsins. Er líklegt að hún eigi einkarétt á sannleikanum? Nei, hún getur ekki verið sönn nema fjöldi annarra staðhæfinga sé sannur, t.d. staðhæfingin „til eru vísindi“, „til eru staðhæfingar“ o.s.frv.
Að taka sannleika og hlutlægni fram yfir ósannindi og blekkingar er vissulega að fella gildisdóm en það rýrir ekki gildi sannleiksleitar og hlutlægnis.
En björninn er ekki unninn enn. Bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty sagði að ekkert vit væri í að tala um sannleika með stórum staf. Aðeins setningar hafi sanngildi og þær væru hlutar af tungumálum en þau væru sköpunarverk manna. Þess vegna væri sannleikur á vissan hátt okkar sköpunarverk, veruleikann væri orsakavaldur þess að setningar yrðu sannar eða ósannar en gæti ekki ákvarðað sannleika með dýpri hætti en sem svo.
Ástæðan væri sú að af setningum leiddu aðeins aðrar setningar, réttlæting væri það eitt að draga ályktanir frá gefnum forsendum sem væru í mynd setninga, ályktanir líka. Þess vegna sé lítið vit í að líta á sannar setningar sem eins konar spegla sem spegli veruleikann. Einnig megi draga þá ályktun að vísindin geti ekki verið tæki til að afhjúpa möguleg leyndarmál heimsins (Rorty 1990: 35-45).
Vandinn er sá að heimspekikenningar á borð við þær að sannleikurinn sé bara fall af tungumálum eru umdeildar og engin þekkt leið til að ákvarða hvort þær séu sannar. Kenningin um að vísindin geti eflt skilning okkar á veruleikanum er ekki endilega lakar rökstudd en kenningar Rortys um hið gagnstæða. Vísindalegur bragur er á kenningum hans um að veruleikinn orsaki bara það að við teldum setningar sannar, réttlæting væri eingöngu það að draga ályktanir af gefnum forsendum.
Af þessum staðhæfingum Rortys verður aðeins dregin sú ályktun að veruleikinn sé í eðli sínu nokkuð sem sannleikurinn geti ekki ákvarðað með djúpum hætti.
En þá vitum við þegar eitthvað um eðli veruleikans, má þá ekki fullt eins gera ráð fyrir því að vísindin geti ráðið gátur veruleikans?
Til að gera illt verra segir Rorty annars vegar að lítill veigur sé í heimspeki, hins vegar notar hann heimspekirök í stórum stíl.
Ráða má af líkum að eitthvert vit sé vísindum, að þau geti sagt okkur með einum eða öðrum hætti eitthvað af viti um veruleikann. En það er auðvitað ekki 100% öruggt.
Lokaorð.
Niðurstaðan er þessi: Að reyna að vera öldungis skoðanalaus í félagsvísindalegum rannsóknum er álíka líklegt til árangurs og það að reyna að hefja sjálfan sig upp á hárinu.
En það þýðir ekki að félagsvísindamenn eigi að láta sannleika og hlutlægni lönd og leið og einbeita sér að álitsgjöf. Mannvísindin hafa tvíeðli, annars vegar skoðanaeðlið, hins vegar hlutlæga eðlið (vissulega eru mörkin milli þeirra engan veginn skýr). Mannvísindamönnum ber að finna kjörvægi milli þessara þátta.
Og heimurinn ferst ekki þótt Þorvaldur Gylfason láti í ljós sitt skína um pólitík enda er afstöðutaka byggð inn í fræðiskrif hans eins og annarra félagsvísindamanna.
Það er meira að segja í góðu lagi að veita honum ritstjórastöðu, jafnvel fjármálaráðherrastöðu ef vitflokkarnir ná að mynda stjórn.
Heimildir:
Albert, Hans (1965): "Modelplatonismus. Der neoklassische Stil des ökonomischen Denkens in kritischer Beleuchtung", í Ernst Topitsch (ritstjóri). Logik der Sozialwissenschaften, Kiepenhauer og Witsch: Berlín og Köln, bls. 406-434 (er til í enskri þýðingu á netinu).
Berg, Marit; Vik, Audun; Ziegler, Sigurd (2015): „En nobelpris for de fattige“, Aftenposten, 20 október.
Gylfi Þ. Gíslason (1975): Þættir úr rekstrarhagfræði I. Reykjavík.
Hesse, Mary (1982): “Science and Objectivity”, í Held, David og Thompson, John (ritstjórar): Habermas. Critical Debates. London og Basingstoke: MacMillan Press, bls. 98-115.
Levitt, Steven D. og Dubner, Stephen J. (2005): Freakonomics. Harmondsworth: Penguin.
Krugman, Paul (2009c):“How did economists get it so wrong?”, New York Times Magazine, 6 september. http://www.nytimes.com/2009/09/06/magazine/06Economic-t.html. Sótt 12/8 2010.
Nosek, Brian og fleiri (2015): “Estimating the reproducibility of psychological science”, Science, Vol. 349. Issue 6251. Sótt 19/3 2018 á http://science.sciencemag.org/content/349/6251/aac4716.full
Pinker, Steven. 2012. The Better Angels of Our Nature. Harmondsworth: Penguin.
Rorty, Richard (1990): Objectivity, Relativism and Truth. Cambridge: Cambridge University Press.
Skjervheim, Hans (1976): Deltakarar og tilskuarar og andre essays. Ósló: Aschehoug.
Von Wright, Georg Henrik (1979): „Humanism and the Humanities“. Annales Academicae Regiae Scientorum Uppsalienses 22, bls. 32-47.
Athugasemdir