Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Trumptín, ræningjahöfðingi?

Glöggir lesendur hafa örugglega séð að „Trumptín“ er blanda af nöfnum Trumps og Pútíns en hnífurinn virðist ekki ganga á milli þeirra félaga. Trump sýndi Pútín fádæma undirlægjusemi á Helsinkifundinum og virðist ekki hafa gagnrýnt hann fyrir eitt né neitt, hvorki innlimun Krímskaga né mögulega aðild að Skripalmálinu. Trump þykist að vísu hafa gagnrýnt hann fyrir afskipti af ameriskum kosningum en ekki kom það fram á blaðamannafundinum (Pútín sagði þar beinum orðum að hann hefði óskað þess að Trump yrði forseti). Áður hafði Trump komið fram við NATO þjóðir, G7 og ESB með ruddalegum hætti sem rússneska leiðtoganum hlýtur að líka. Rétt eins og Pútín er Trump andsnúinn Evrópusambandinu. Þess utan  gerir hann  meira en að gefa í skyn að Bandaríkin telji sér ekki endilega skylt að koma til varnar öðrum NATO þjóðum verði á þær ráðist, þótt NATO samningurinn kveði skýrt á um slíkt. Það þótt hinar NATO þjóðirnar hafi stutt BNA eftir árásina á Tvíburaturnana. Hugsum okkur að Pútín hefji blandað stríð (e. hybrid war) í Eystrasaltslöndunum. Myndi Trump þá segja að hann teldi BNA ekki bera skyldu til að aðstoða þessi lönd? Hefur Pútín eitthvað á Trump? Dáir Trump Pútín vegna þess hve einráður hann er? 

Gessen og fleiri um Trumptín

í bók sinni um Pútín segir hin rússnesk-ameríska Masha Gessen að rússajöfur sé ekkert annað en ótíndur þjófur. Hann hafi þegar áður en hann varð forseti átt þátt í að ræna stórum fúlgum fjár sem erlendar hjálparstofnanir sendu til Pétursborgar. Gessen hefur í blaðagreinum og viðtölum borið Pútín og Trump saman og sagt þá eiga margt sameiginlegt, báðir séu ótíndir lygarar sem noti óþverralegt orðbragð og innantómar klisjur. Sé rétt að Pútín noti rússneska hagkerfið eins og eigin sparibauk má spyrja hvort Trump hyggist nota forsetaembættið með svipuðum hætti. Michael Wolf segir í bók sinni Fire and Fury að eitt fyrsta embættisverk Trumps hafi verið að hringja í forseta Argentínu. Nokkrum dögum seinna voru lög sett þar syðra sem auðvelda Trump að stofnsetja hótel þar. Alla vega notar hann klúbb sinn Mar-a-Lago til að taka á móti erlendum fyrirmönnum og eykst verðgildi hans mjög fyrir vikið. Eru engin lög þar vestra sem banna forseta slíkt og þvílíkt?

Að féfletta aðrar þjóðir

Það er ýmislegt í stefnu Trumps sem bendir til þess að hann hyggist auðga Bandaríkin á kostnað annarra þjóða. Tollverndarstefna hans bendir mjög til þess, einnig sú staðreynd að hann ver Kísildalsfyrirtækin með kjafti og klóm gegn tiltraunum Evrópuríkja til að skatta þau með eðlilegum hætti. Takist vörn Trumps þá munu evrópskir skattgreiðendur þurfa að blæða. Og taksit honum að neyða Mexíkóa til að borga fyrir múrinn þá mun BNA hafa æðimikið fé af mexíkóskum skattgreiðendum. Það er greinilegt að Trump hafði ákveðna áætlun í huga er hann tók við forsetaembættinu og fylgir henni út í ystu æsar. Hann stendur við loforð/hótanir sínar. Í kosnningarbaráttunni sagðist hann ætla að taka olíuna af Írökum, á venjulegu máli: Ræna henni. Taka ber þessa hótun forsetans alvarlega, hann vill láta Íraka borga fyrir innrásina sem gjöreyðilagði landið. Íraskur stúdent minn sagði mér að ástandið þar hefði verið slæmt á dögum Saddams en versnað mjög eftir innrásina.

NATO

Athugum yfirlýsingar Trumps um að NATO þjóðir skuldi BNA stófé vegna þess að fæstar þeirra hafa náð því takmarki að verja tveimur prósentum af þjóðartekjum til varnarmála. Hann virðist ekki vita eða vilja vita að samningar NATO þjóðanna kveða á um að þessu takmarki skuli náð fyrir 2024 þannig að allt tal um skuld nú er fáránlegt. Þess utan byggir skuldahjal forsetans á þeirri röngu forsendu að Bandaríkin greiði 70-80% af herkostnaði NATO. Carl Bildt, hægrimaður og fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að helmingur af útgjöldum BNA til hermála séu útgjöld til varna á Kyrrahafssvæðinu, fjórðungur fari í hernaðarbrölt í Miðausturlöndum. Þess utan sé aðvörunarkerfi Bandaríkjamanna í Evrópu aðallega til varnar Bandaríkjunum sjálfum. Margar herstöðvar í Evrópu, t.d. Rammstein og Fairford, séu notaðar til herflutninga á átakasvæði utan Evrópu og annarrar þjónustu sem varðar hernaðarbrölt á þessum svæðum. Í ofan á lag borgi Evrópuríkin tvöfalt meira til evrópskra varna en Bandaríkin geri. Það sé því hreinlega rangt að Bandaríkin fjármagni obbann af NATO kostnaðnum. Og ég bæti við: NATO ríkin skulda Bandaríkjunum ekki einseyring, skuldahjal Trumps kann að vera tilraun hans til að féfletta Evrópuríkin.

 

Lokaorð

Trump er líkari Pútín en góðu hófi gegnir og á erfitt með að dylja hrifningu sína af honum. Um leið og hann úthúðar bandamönnum Bandaríkjanna, Pútín væntanlega til óblandinnar ánægju. Það er því vel við hæfi að spyrða þá félaga saman og tala um Trumptín, ólígarkann ógurlega. Nú eða jafnvel ræningjahöfðingjann.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni