Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Svíþjóð og kosningarnar

Ég bjó í Svíþjóð einn vetur fyrir tæpri hálfri öld. Eitt sinn var íslenskur læknir, sem lengi hafði búið með sænskum, í heimsókn hjá foreldrum mínum. Talið barst að umræðuhefð Svía. Læknirinn sagði „sænskir þátttakendur í umræðu eru eins og læmingjahjörð, allir hlaupa í sömu áttina“. Eins og ég hef sagt í fyrri færslum er hneigð til þrúgandi sáttamenningar í Svíþjóð. Um leið eiga læmingjarnir sænsku það til að breyta skyndilega um stefnu. Í bók sinni um Svíþjóð, The New Totalitarians, segir breski blaðamaðurinn Roland Huntford að á stríðsárunum hafi hlaupagikkurinn Gunder Hägg verið hetja Svía, eftir stríðið breyttu læmingjarnir um stefnu, hlupu burt frá hlauparanum, gleymdu hetjunni.

Vandi Svía

Lengi vel mátti varla nefna vandamál tengd innflytjendum og flóttamönnum, aukið ofbeldi í hverfum þar sem þeir búa. Þetta gat hinn varhugaverði flokkur Svíþjóðardemókrata nýtt sér, þeir einir tóku á vandanum en gerðu líkast til  alltof mikið úr honum. Allt í einu breytti læmingjahjörðin stefnu, á síðustu misserum kepptust allir við að fordæma uppvöðslusaman lýð af erlendu bergi brotinn. En of seint, svo virðist sem Svíþjóðardemókratar ætli að vinna sögulegan sigur. Hefðu lýðræðisflokkarnir haft hugrekki til að ræða innflytjenda- og flóttamannavandann þá hefði mátt koma í veg fyrir þennan sigur. Tekið skal fram að þeir sem skapa þennan vanda eru tæpast dæmigerðir fyrir meirihluta flóttamanna og innflytjenda. Sjálfur bý ég við götu þar sem fjöldi flóttamanna býr,  hér er allt með kyrrum kjörum og fólkið rólegt og kurteist. Bæta má við að ég hef haft fjölda nemenda frá Afríku og Miðausturlöndum, og hef ekkert nema gott um þá að segja. Í fyrra dúxaði Eþíópímaður, í hitteðfyrra Sómali.

 Kannski er Noregur betra land fyrir flóttafólk en Svíþjóð.  Hvað sem því líður þá eiga  margir af þessum vandræðagemsum  rætur í samfélögum sem skortir lýðræðis- og frelsishefðir. Sú staðreynd gerir sjálfsagt illt verra. Heimamenn eru heldur ekki saklausir, þeir tóku við of mörgum flóttamönnum of hratt. Gátu hvorki sigtað varasama einstaklinga út né sinnt flóttamönnum með sóma. Í ofan á lag hafa sænsk yfirvöld  átt þátt í að skapa gettó innflytjenda sem orðið hafa gróðrastíur fyrir glæpagengi. En gengin sjálf hljóta þó að bera ábyrgð á gerðum sínum.

Það góða við Svíþjóð

Að þessum orðum mæltum hyggst ég lofa hið góða við Svíþjóð. Flestar staðtölur benda til þess að Svíþjóð sé gott land að búa í. Það er ekki bara velferðinni að þakka heldur „dýnamísku“ efnahagslífi, Svíar eru taldir með þeim þjóðum sem mesta nýsköpun stunda í efnahagslífinu. Einnig eru stjórnmálamenn almennt heiðarlegir, tiltölulega óspilltir.

Lokaorð.

Vonandi tekst Svíum að leysa áðurnefnd vandamál með þeirri festu og skipulagsgáfu sem þeim er gefin. Aðeins með þeim hætti verður hægt að vængstýfa hina skuggalegu Svíþjóðardemókrata.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni