Sjallar veðja á einstaklinginn
Slagorð Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningabaráttu ku eiga að vera „veðjum á einstaklinginn“. Slík veðmál eru flokknum töm, t.d. veðjaði Sigríður Andersen á ýmsa einstaklinga í Landsréttarmálum. Einnig var veðjað á ákveðna einstaklinga þegar Landsbankinn var einkavæddur.
Nú síðast veðjaði Áslaug Arna hressilega á einstaklinginn Jón Steinar.
Sjallar veðjuðu heldur betur á einstaklinginn í umferðarmálum. Þegar þeir réðu Reykjavík var lítið gert til að efla almenningssamgöngur. Afleiðingin var bílasprenging með tilheyrandi svifryksvanda og umferðaröngþveiti.
Hvað skyldi einkabílafarganið kosta skattgreiðendur? Hve mikið mein gerir það vistkerfinu?
Einstaklingur og einkafyrirtæki
Fyllsta ástæða til að líta þetta slagorð gagnrýnum augum. Svo virðist sem Sjallar líti á einkafyrirtæki sem einstaklinga, ríkið virðist vera andstæðan við einstaklinginn rétt eins og svart er andstæða hvíts.
En til eru einkafyrirtæki sem velta mun meiru fé en flest venjuleg ríki og hafa meiri völd en meðalríki. Facebook, Amazon og Google eru góð dæmi um slík fyrirtæki.
Þeim er vissulega stjórnað af tilteknum einstaklingum, athafnamönnum, en mörg risafyrirtæki minna helst á risavaxinn, andlitslaus skrifstofubákn. Hver á og hver stjórnar Exxon Mobile? Exxon Mobile sjálfur?
Af þessu má sjá að einkafyrirtæki eru ekki hin sjálfsagða andstæða ríkisins og ekki endilega holdgervingar einstaklingseðlisins.
Einstaklingur og samfélag
Þá má spyrja hvort samfélagið sé ekki andstæða einstaklingsins. Vandinn er sá að ekki er sjálfgefið hvað einstaklingur sé. Er kornabarn, sem hefur enga sjálfsvitund, einstaklingur? Tæpast, skólabókardæmi um einstakling er vera sem veit af sér, lítur á sig sem sérstakt sjálf.
Spurningin er hvort slík vera geti verið til án samfélags. Bandaríski fræðimaðurinn George Herbert Mead leiddi sannfærandi rök að því að menn öðluðust sjálfsvitund við að innhverfa sýn annarra (samfélagsins) á sig. Hann sagði réttilega að einstaklingsmótun væri félagsmótun.
Bæta má við að svo kölluð úlfabörn, sem ekki hafa verið félagsmótuð, geta ekki talað og sýna engin merki um sjálfvitund og einstaklingseðli.
Hugtökin um einstakling og samfélag eru samslungin. Grunneining samfélagsins er ekki einstaklingur, heldur félagsmótuð mannvera í samfélagi. Samfélagið er því ekki endilega andstæða einstaklingsins.
Ofureinstaklingshyggja
Nú kann einhver að malda í móinn og segja að þótt þetta kunni að vera rétt þá sé engu að síður ekkert gegn því að hvetja menn til að rækta einstaklingseðlið. Vissulega eru tilvik þar sem mæla má með slíkri ræktun. En öllu má ofgera, einstaklingshyggja getur gengið út í öfgar eins og annað, orðið ofureinstaklingshyggja.
Ofureinstaklingshyggjumaður er eigingjarn og/eða haldinn sannfæringu um að hann geti spjarað sig sjálfur án aðstoðar annarra og/eða ríkisins. Hann er einatt á móti ríkisrekstri.
Hefði ofureinstaklingshyggja verið ríkjandi í Noregi þá hefði olíusjóðurinn aldrei komist á koppinn. Olíulindir hefðu verið einkavæddar fyrir slikk og stórfyrirtæki sent gróðann til Tortóla.
Norðmenn hafa eflt samstöðu, ekki bara einstaklingseðli, eins og sést í ýmsum hefðum þeirra. Norðmenn tala um „dugnad“ sem er sjálfssprottin samvinna fólks, t.d. samvinna blokkaríbúa um að hreinsa kjallara og lóðir. Eða framlag foreldra barna sem stunda íþróttir, oft eru þjálfarar sjálfboðaliðar úr fjölskyldu barnanna.
Slík samvinna er sjaldgæfari á Íslandi ofureinstaklingshyggju þar sem menn taka ekki tillit til annarra í umferðinni heldur aka eins og þeir eigi heiminn. Reyndar er ofureinstaklingshyggjan ein meginástæðan fyrir bílafarganinu, Sjallar bera ekki einir ábyrgð á henni.
Ofureinstaklingshyggja er líklega ein af ástæðum fyrir kjararýrnun vestanhafs. Hana má m.a. rekja til versnandi stöðu verkalýðsfélaga sem sum part má rekja til þess að alltof margir Kanar vilja ekki bindast samtökum heldur redda sér sjálfir.
Vopnin snúast í höndum ofureinstaklingshyggjumanna þar vestra, hugsunarháttur þeirra á þátt í stóreflingu hins ameríska auðvalds sem þýðir að það dregur úr frelsi almennings og þar með ofureinstaklingshyggjenda.
Hinir samvinnuþýðu Norðmenn eru mun tillitsamari í umferðinni en Frónbúar. En ekkert er fullkomið í þessum heimum, stundum vill samstaða Norðmanna hverfast í þrúgandi sáttamennsku.
Hvað um það, niðurstaðan af því sem hér segir er að ekki sé alltaf sé gott að efla einstaklingseðlið. Slík efling getur leitt til ofureinstaklingshyggju sem er af hinu illa.
Lokaorð
Best er að reyna að feta öngstígið þrönga milli einstaklings og samfélags, einkarekstrar og ríkis. Og veðja á sem fæst.
Athugasemdir