Orð Hannesar
Hannes Gissurarson geysist fram á ritvöllinn og svarar pistli Einars Más, Orð Hayeks. Hann segir að orð Hayeks standist, gagnstætt því sem Einar Már segir. Því til sannindamerkis nefnir Hannes að Hayek hafi tekið undir þá kenningu kennara síns, Ludwig von Mises, að altækt áætlunarkerfi muni ekki geta virkað þegar til lengdar lætur Með því að taka markaðinn úr sambandi verði ekki lengur hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir um efnahagslífið.
Blandað hagkerfi og stefna Keynes lávarðar séu ekki til bóta. Komið hafi í ljós að Keynesstefnan leiddi til jafnt verðbólgu sem atvinnuleysis og velferðarríkið leitt til ófarnaðar. Nýjar rannsóknir sýni að fylgni sé milli frjálsra atvinnuhátta og mikillar vergrar landsframleiðslu á hvern einstakling.
Skulu þessar staðhæfingar ræddar og gagnrýndar hér.
Hagfræði og sálfræði.
1. Hannes tekur hagfræði of alvarlega, hún er vissulega merk fræðigrein og skást félagsvísinda en á við prófanleikavanda að stríða. Hagfræðingar hanna glæsileg haglíkön en reynst hefur erfitt að jarðtengja þau. Á þetta benda ýmsir fræðimenn með nóbelshagfræðinginn Paul Krugman í broddi fylkingar (Krugman 2009). Sá fékk nóbelinn vegna sinna velhönnuðu haglíkana en hann sá takmarkanir þeirra.
Í ljósi þessa má spyrja hversu vel prófanlegar þær kenningar eru sem Hannes vitnar í, kenningar Hayeks og von Mises annars vegar, kenningar Friedmans hins vegar. Hinn síðarnefndi og Chicagoskóli hans ber ábyrgð á kenningunni um að atvinnuleysi geti aukist um leið og verðbólgan aukist. Keynes hélt því gagnstæða fram.
Hvað sem því líður þá talar Hannes eins og Chicagoskólinn sé það nýjasta nýja í hagfræðinni en láist að geta endurkomu Keyneshyggju hjá meginhagfræðingum eins og Krugman og Joseph Stiglitz. Hann nefnir heldur ekki hina nýju svokölluðu atferlishagfræði en talar eins og nú sé 1980.
2. Atferlishagfræðin er hagfræðileg sálfræði. Hún kann að bera í einhverja af þessum meintu brestum hagfræðinnar. Margir lesenda þekkja hina athyglisverðu bók sálfræðingsins Daniel Kahnemann, Thinking Fast and Slow en hann er einn af frumkvöðlum atferlishagfræði. Hann leiðir að því getum að menn þjáist af nánast kerfisbundnum skynsemisskorti á vissum sviðum (Kahnemann 2011).
Sé þetta rétt þá er ekki ýkja frjótt að gera ráð fyrir því að efnahagsgerendur séu almennt skynsamir. En þær kenningar sem Hannes hefur mesta trú á gera einmitt ráð fyrir slíku.
Vandinn er sá að sálfræðin á ekki síður við prófanleikavanda að stríða en hagfræðin. Bornar hafa verið brigður á niðurstöður frægra tilrauna í sálfræði (t.d. Nosek o.fl. 2015).
En það eru einmitt þannig tilraunir sem atferlishagfræðingar fremja. Heimspekingurinn Colin McGinn heldur því fram að mannskepnan sé ekki fær um að leysa vandamál heimspekinnar (McGinn 1993: 1-26).
Ég bæti við að ef til vill er okkur ekki kleift að skilja samfélagið þótt við getum öðlast staðgóða þekkingu á náttúrinni. Sé það rétt þá má efast um ágæti þeirra hugmyndafræðikerfa sem hafa að forsendu að við getum skilið samfélagið. Það gildir jafnt um sósíalisma sem frjálshyggju.
Sósíalisminn.
3. Staðhæfingar von Mises eru ekki arfavitlausar en hinn snjalli pólski hagfræðingur Oskar Lange svaraði þeim fullum hálsi. Mises og félagar héldu því fram að altæk áætlunargerð hefði að forsendu að leysa mætti milljónir stærðfræðijafna en slíkt væri ekki mögulegt (nú geta öflugar tölvur leyst þann vanda auðveldlega!). Í ofan á lag yrði áætlunarkerfið að vera altækt.
Lange andæfði þessu og staðhæfði að áætlunarráð í áætlunarkerfi gæti notað verðmekanisma til að afla upplýsinga um hagkerfið. Áætlunarráðið lætur hækka verð ef skortur er á vöru, lækka það ef um offramboð er að ræða. Verðmekanismanum er þannig beitt með happa-og-glappa-aðferð, áætlunarráðið býr til líkan af markaði og lætur fara fram sýndarsamkeppni. Þessi aðferð sé skilvirkara tæki til öflunar upplýsinga í markaðssósíalísku kerfi en í kerfi einkarekstrar.
Ein af ástæðum þess sé sú að einkakapítalistar borgi oft ekki fullt verð fyrir efnahagsvirkni sína en láti ríkið og annað fólk um að borga reikninginn. Þetta gildi fyrst og fremst um kostnaðinn af úthrifum (e. externalities), t.d. kostnað af umhverfisspjöllum. Þess vegna geti verðmyndun í kapítalísku samfélagi gefið skakkar upplýsingar.
Í markaðssósíalismanum borgi fyrirtækin fullt verð fyrir sína efnahagsvirkni og því virkar verðmyndunin betur, gefur réttari upplýsingar.
Önnur ástæðan sé sú að í markaðssósíalísku kerfi geta fyrirtæki ekki lengur leynt þekkingu sinni fyrir keppinautum, því yrði upplýsingastreymið hraðara og betra í markaðssósíalismanum en í einkarekstrarkerfinu Í ofan á lag hafi áætlunarráðið góða yfirsýn yfir hagkerfið, m.a. þess að enginn hefur hag af að leyna upplýsingum, t.d. um tækninýjungar.
Þessi góða yfirsýn gerir að verkum að hægt er að koma í veg fyrir efnahagskreppur, segir Lange. Í markaðssósíalísku kerfi yrði flestum fyrirtækjum stjórnað af verkamannaráðum. Og ekki skal vera markaður fyrir auðmagn, aðeins neysluvörur.
Markaðsöflin eigi að ráða launamyndun að miklu leyti og rúm á að vera fyrir smáfyrirtæki í einkaeign á sviðum þar sem góður möguleiki er á raunverulegri samkeppni, t.d. í landbúnaði og smáiðnaði. Stórfyrirtæki aftur á móti beri að þjóðnýta enda séu þau í reynd einokunarfyrirtæki.
Lange segir að ekki megi útiloka þann möguleika að hið markaðssósíalíska kerfi muni hægt og bítandi hverfast í kommúnisma eins og Marx hugsaði sér hann: Kerfi án ríkisvalds þar sem menn stjórna efnahagslífinu í sameiningu, engin sérhæfing angrar menn. Þeir búi við allsnægtir, fá eftir þörfum, en framlag fer eftir getu.
Lange segir að það megi hugsa sér að í hinum skilvirka markaðssósíalisma verði æ fleiri gæðum úthlutað ókeypis rétt eins og í kommúnisma Marx. Nú þegar er ýmsum gæðum úthlutað þannig, t.d. götulýsingu og opinberum lystigörðum.
Úthluta má gæðum ókeypis svo fremi eftirspurnin eftir þeim sé ekki þjál (eftirspurn eftir jarðnæði er þjál, menn geta fundið hjá sér þörf til að eignast æ meira jarðnæði). En jafnvel þótt sápu yrði úthlutað ókeypis þýðir það vart að eftirspurnin muni aukast verulega mikið, það eru takmörk fyrir því hve mikið af sápu menn geta nota (Lange 1936: 53-71), (Lange 1937: 123-142).
En athugið að ef hagfræðin er ekki eins þrælvísindaleg og sumir halda þá er engin sérstök ástæða til að taka rök Langes fram yfir rök von Mises. Athugið samt að aldrei hefur verið gerð tilraun til að raungera kenningar Langes, kannski þær séu framkvæmanlegar.
Til varnar blönduðu hagkerfi
4. Hannes staðhæfir að einkaeign á auðlindum stuðli að góðum kjörum, ríkiseign ekki. Honum láist að nefna að olíulindirnar norsku eru í ríkiseign og að ríkisfyrirtækið Statoil hafði lengi vel einkarétt til olíuvinnslu þar. Og sjá! Lífskjör Norðmanna snarbötnuðu! Olíubransinn norski er gott dæmi um velheppnað, blandað hagkerfi.
Olíusjóðurinn norski er í ríkiseign en fjárfestir á markaði (um leið hefur siðanefnd hins opinbera vissan rétt til að hafa áhrif á fjárfestingar) (sjá hér). Ágóðinn fellur ríkinu í skaut og venjulegir Norðmenn búa fyrir vikið við einhver bestu lífskjör í heimi.
Bæta má við að frjálshyggju-frömuðurinn Carl I. Hagen mælti fyrir 35 árum með því að ákveðið olíusvæði yrði selt einkaaðilum fyrir tíu milljarða norskra króna. Það var ekki gert, síðast þegar fréttist hafði norska ríkið þénað 1050 (!!) milljarða norskra króna á svæðinu.
Væri gjafakvótakerfið afnumið og komið á uppboðskerfi fiskikvóta mætti ætla að lífskjör Íslendinga bötnuðu hressilega. En aftur ber að minnast þess að þekkingu okkar á samfélaginu eru takmörk sett.
5. Fæstum dylst hugur um að grundvallarrannsóknir séu forsendur tæknilegra framfara. En gróðinn af slíkum rannsóknum er ágóði til langs tíma og ábatinn gjarnan óviss. Engan gat órað fyrir því að rannsóknir í táknrökfræði yrðu ábatasamar en slík rökfræði varð seinna grundvöllur þess "máls" sem tölvuforrit tala.
Þessi óvissa gerir að verkum að það er auðvelt fyrir einkafyrirtæki að gerast laumufarþegar, uppskera af því sem aðrir hafa sáð (sáðkornin eru grundvallarrannsóknirnar).
Þess vegna er ekki líklegt að einkafyrirtæki í tæknibransanum dæli peningum í grundvallarrannsóknir þótt þær séu nauðsynleg forsenda tækninnar. Vart verður annað séð en að ríkið verði að standa undir mestum parti kostnaðarins við slíkar rannsóknir þótt líka sé mikilvægt að sjóðir í einkaeign hlaupi undir baggann.
Af lið 4 og 5 má sjá að blandað hagkerfi virkar allvel á mörgum sviðum. Þar eð tækni er forsenda efnahagslegra framfara og ríkisstyrkur forsenda tækniframfara þá verður ríkið að leika allmikilvægt hlutverk í efnahagslífinu. Að því gefnu að við viljum meintar efnahags- og tækniframfarir!!
Blandað hagkerfi blífur!
Frelsið og Fraserstofnunin
6. Hannes kokgleypir lífskjaraathugunum Fraser stofnunarinnar en hún er áróðursstofnun frjálshyggjunnar. En meira að segja áróðurstofnanir geta rambað á sannleikann. Hvað um það, frjálshyggjan skín í gegn, t.d. er frelsishugtakið skilgreint að hætti frjálshyggjumanna sem markaðsfrelsi. En frelsishugtakið er margþætt og margrætt og engan veginn ljóst að frjálshyggjan eigi einkarétt á því (ég ræði þessi mál í bók minni Kredda í kreppu og í fyrri færslum).
Í öðru lagi flokkar stofnunin lönd eftir meintu markaðsfrelsi en hefði ekki alveg eins mátt flokka þau á ásnum velferðarkerfi/ekki velferðarkerfi? Norðurlönd hafa bæði víðfeðmt velferðarkerfi og tiltölulega frjálsan markað. Það er því ekki gefið að frjótt sé að spyrða þau með Bandaríkjunum og Singapúr sem hafa frjálsan markað en lítið velferðarkerfi.
Í þriðja lagi gefa stofnanirnar sér að verg landsframleiðsla (VLF) á mann sé góður mælikvarði á lífskjör. En það er hreint ekki gefið, í Bandaríkjunum hefur hagvöxtur síðustu áratuga aðallega fallið hinum ríkustu í skaut. Raunlaun meðaljónsins ameríska hafa staðið í stað eða jafnvel minnkað. Venjulegt fólk verður að vinna mun meir en áður til að framfleyta sér og/eða hlaða á sig skuldum (sjá t.d. Blanden, Gregg og Machin 2005).
Hannes segir að Fraserstofnunin telji að markaðsfrelsi hafi aukist á heimsvísu á síðustu árum og þá væntanlega líka í Bandaríkjunum. Sé svo má ætla að versnandi lífskjör amerísks almennings sé ábending um að frjálsari markaðshættir séu ekki endilega ávísun á bætt lífskjör.
Athugið að þetta gerist á tímaskeiði þar sem dregur mjög úr styrk bandarísku verkalýðshreyfingarinnar. Gagnstætt því hefur svona öfugþróun ekki átt sér stað í löndum þar sem verkalýðshreyfingin er öflug og ábyrg. Hannes talaði eins og verkalýðshreyfingin væri efnahagslegur bölvaldur en það sem hér segir bendir til annars.
Hvað um það, hagfræðingar á borð við nóbelshafana Amyarta Sen og Joseph Stiglitz telja betra að mæla félagslega framþróun(e. social progress) sem segir meira um lífskjör en VLF. Mælingar á henni sýna að Norðurlöndin og vesturevrópsku velferðaríkin gera það mun betur en Bandaríkin, Bretland og Singapúr. Svipað gildir um lífsgæðastuðulinn, sem Sameinuðu þjóðirnar láta mæla, en sá stuðull er náskyldur stuðli félagslegrar framþróunar.
Þorvaldur Gylfason er meðal þeirra hagfræðinga sem telur að hæðarþróun manna sé góður mælikvarði á lífskjaraþróun. Hann segir að tognað hafi hressilega úr Evrópubúum á undanförnum áratugum, hið gagnstæða hafi gerst í Bandaríkjunum. Það sé merki um að lífskjör hafi batnað meira í Evrópu en í Bandaríkjunum þótt VLF sé hærri þar vestra. Auk vinni Evrópubúar minna en njóti þá mun meiri frítíma en Bandaríkjamenn. Frítími er líka lífsgæði. (Þorvaldur Gylfason 2007).
Ekki kæmi mér hið minnsta á óvart þótt Þorvaldur færi nærri brautum sannleikans en þeir aðilar sem Hannes vitnar í. Alla vega er fásinna að tala um hina einu sönnu staðtölu, slíkar tölur verður að túlka.
Lokaorð.
Hannesi yfirsjást veilur og takmarkanir hagfræðinnar, hann hefur þess utan tröllatrú á vafasömum kenningum frjálshyggjuhagfræðinnar.
Hann heldur ranglega að von Mises hljóti að hafa á réttu að standa um sósíalismann en Lange hefur gagnrýnt kenningar hans af allnokkurri hind.
Það er líka rangt að einkaeign á auðlindum hljóti að stuðla að betri lífskjörum en ríkiseign. Dæmi Norðmanna bendir í aðra átt.
Auk þess verður ríkið að styrkja grundvallarrannsóknir til að stuðla að tækniþróun (sé hún æskileg). Þetta þýðir að ríkis-"afskipti" af efnahagslífinu er nauðsyn, vilji menn aukinn hagvöxt.
Hannes virðist telja að staðhæfingar Fraserstofnunarinnar séu heilagur sannleikur en svo er ekki.
Versnandi kjör bandarísks almennings á síðustu árum markaðsvæðingar benda gegn því að frjálsari markaðshættir leiði betri lífskjara.
Það bendir einnig gegn því að verkalýðshreyfingin sé af hinu illa því þessi kjararýrnun hefur átt sér stað á sama tíma og sú hreyfing hefur veikst mjög vestanhafs.
Auk þess er alls ekki víst að VLF sé besti mælikvarði á lífskjör, hæðarmælingar, félagsleg framþróun og lífsgæðastuðull kunna að vera betri mælikvarðar.
Hannes skilur ekki nauðsyn þess að túlka staðtölur, flokksbróðir hans Jón Steinar Gunnlaugsson skilur ekki nauðsyn þess að túlka lög.
Þeir fremja hlutlægnisvilluna, þá villu að halda að til hljóti að vera hinn eini sanni skilningur á staðtölum og laganna bókstaf.
Kommúnistar gerðu hliðstæða villu.
Heimildir:
Blanden, Jo; Gregg, Paul; og Machin, Stephen (2005): Intergenerational Mobility in Europe and North America. London: Centre for Economic Performance. http://cep.lse.ac.uk/about/news/IntergenerationalMobility.pdf. Sótt 15/7 2007.
Human Development Indexhttps://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_Human_Development_Index
Kahnemann, Daniel (2011): Thinking, Fast og Slow. London: Penguin Books.
Krugman, Paul (2009):“How did economists get it so wrong?”, New York Times Magazine, 6 september. http://www.nytimes.com/2009/09/06/magazine/06Economic-t.html. Sótt 12/8 2010.
Lange, Oskar (1936) “On the Economic Theory of Socialism. Part One”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (1), október, bls. 53-71 (finnanleg á Neti).
Lange, Oskar (1937) “On the Economic Theory of Socialism. Part Two”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (2), febrúar, s. 123-142( finnanleg á Neti).
McGinn, Colin (1993): Problems in Philosophy. The Limits of Inquiry. Oxford, UK and Cambridge, USA: Blackwell.
Norges Bank: „Hva er oljefondet?“ https://www.nbim.no/no/
Nosek, Brian og fleiri (2015): “Estimating the reproducibility of psychological science”, Science, Vol. 349. Issue 6251. Sótt 19/3 2018 á http://science.sciencemag.org/content/349/6251/aac4716.full
Social progress. https://en.wikipedia.org/wiki/Social_Progress_Index
Þorvaldur Gylfason (2007): “Evrópa: Minni vinna, meiri vöxtur”, Skírnir, vorhefti, bls 61-81 https://notendur.hi.is/~gylfason/Hours%20fyrir%20Skirni.pdf
Athugasemdir