Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Oops, I did it again...Kommar gera sömu mistökin aftur og aftur (síðari hluti)

Í þessum síðari hluta beini ég sjónum mínum að marxískum kenningum um heimsvaldastefnu og mannkynssögu.

Þær verða gagnrýndar nokkuð harkalega, ekki síst í þeirri mynd sem Þórarinn Hjartarson dregur upp af þeim.

Hin illa Ameríka og „heimsvaldastefnan“.

Þórarinn heldur því fram að meint áróðursmaskína Bandaríkjanna villi mönnum sýn í Úkraínumálinu. En honum dettur ekki í hug að sanna mál sitt, hann vísar vart  í heimildir fyrir tilvist þessarar meintu maskínu.

Gagnstætt honum vitnar Jón Karl í margvíslegar heimildir fyrir þeirri kenningu að CIA hafi reynt að hafa áhrif á fjölmiðla. Sennilega rétt en varla hefur leyniþjónustan náð þeim miklu tökum á fjölmiðlum sem Jón Karl heldur.

Enda viðurkennir hann að amerísk þingnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að CIA réri á gruggug fjölmiðla-mið.

Hvers vegna tókst CIA ekki að þagga niður í nefndinni? Og hver stjórnar amerísku áróðursvélinni og hvernig?

Af hverju tókst henni ekki að koma í veg fyrir að bandarískir blaðamenn afhjúpuðu Watergate-innbrotið og stuðluðu með því að Nixon varð að segja af sér?

Af hverju kom hún ekki í veg fyrir að blaðamenn frá BNA afhjúpuðu fjöldamorðin í My Lai og svipaðan sóðaskap í Víetnamstríðinu?

Kannski af því að þessi meinta áróðursvél er ekki til þrátt fyrir tilraunir CIA til að skapa hana. 

Fræðimaður að nafni Robert J. Barro vitnar í alls konar rannsóknir sem eiga að sýna að bandarískir fjölmiðlar hafi vinstrislagsíðu.

Er víst að hann sé fjarri sannleikanum en vinstrisósíalistar? Hvorum á að trúa? Kannski hvorugum!

Er líklegt að fjölmiðlafyrirtæki sem eiga í harðri samkeppni hvert við annað myndi eina áróðursheild?

Fjölmiðlar Vesturlanda eiga yfirleitt í slíkri samkeppni og því ólíklegt að þau marséri í takt (ég hef áður gagnrýnt kenninguna um ofurvald auðmagns og auðstéttar).

CNN og Fox keppa við hvort annað og eru ósammála um  flest.  Talandi um Fox, hvers vegna  étur Foxstjarnan Tucker Carlsson frasana upp úr áróðursgeipi  Rússana og ver Pútín?

Getur skýringin  verið sú að Rússar hafi áhrif þar?  Fyrrum Foxmaður kom fyrir rétti, borinn þeim sökum að hann hafi látið  rússneskan ólígark  borga sér fyrir  að koma Pútinvinsamlegum boðskap á framfæri.

Aum (bandarísk) áróðursvél atarna sem ekki getur komið í veg fyrir slíkt og þvílíkt! Og mikill er vanmáttur CIA sem ekki einu sinni getur þaggað niður í Tucker Carlson!

Að gamni slepptu má spyrja hvort   Pútín harðráði  láti handlangara sinna meðal olígarka múta blaðamönnum og kaupa sig inn í fjölmiðla svo lítið beri á.

Samkvæmt  heimildarþættinum  um Wagnerherinn eiga Rússar mikið alþjóðlegt fjölmiðlaapparat sem kemur skoðunum Pútíns á framfæri, auk Net-hers sem læðir rússneskum áróðri í samfélagsmiðla.

Með góðum árangri, ekki síst í kosningunum bandarísku 2016 (sjá t.d. Snyder 2018: 133-141 og víðar).

Rússneskir fjölmiðlar eru beint eða óbeint undir stjórn alvaldsins í Kreml, samkeppni þeirra í millum er óveruleg.

Það er ansi miklu auðveldara að gera eina áróðursvél úr slíkum fjölmiðlum heldur en í fjölmiðjusamfélagi eins og því bandaríska þar sem ýmsir, oft andstæðir, aðilar eiga fjölmiðla.

Rússneska  áróðursvélin  uppástendur að Maidanuppreisnin hafi verið stjórnað af Könum og Neistabræður  lepja  það upp úr henni. Vélin segir nasisma grasserandi í Úkraínu og þeir  eru  sama sinnis.

Þessi áróðursvél étur frasana ómelta upp úr lygalaupnum Pútin enda leikurinn til þess gerður.

Hann laug purrkunarlaust að heimsbyggðinni er hann sagði rétt fyrir innrásina að herinn væri á leiðinni heim eftir heræfingar en hann myndi senda friðargæslusveitir til Donbass.

Þetta og fleira bendir til þess að fyrrum samstarfsmaður hans, Púgasjov, hafi á réttu að standa þegar hann sagði hann raðlygara. 

Í ljósi þessa er engin ástæðu til að trúa því sem rússneskir (og Rússa-sponsaðir) fjölmiðlar segja nema þeir leggi fram verulega góðar sannanir fyrir máli sínu.

Heimsvaldastefna og meint söguleg þróun.  

Þórarinn  segir ábúðarmikill að meint tilraun Kana til að ná tangarhaldi á Evrasíu stafi af því að kapítalisminn sé kominn á nýtt stig.

En hann segir ekki hvaða stig og rökstyður að sjálfsögðu ekki mál sitt.

Hann hlýtur að hafa í huga kenningu Leníns um heimsvaldstefnuna sem hinsta stig kapítalismans. Rússneski byltingarmaður staðhæfði að vegna fátækunar öreiga verði æ erfiðara fyrir kapítalista að græða á heimamarkaði.

Gróðahlutfallið hafi því sterka hneigð til að lækka, þótt það gangi í bylgjum. En það muni lækka þegar til langs tíma sé litið.

Heimsvaldastefnuna væri æðsta stig kapítalismans. Það væri um leið stig einokunarkapítalismans sem hefði sprottið alskapaður úr höfði hins frjálsa markaðar.

Þetta skeið sé skeið fjármagnskapítalsins,  það  renni saman við iðnaðarauðmagnið og nái tangarhaldi á iðnaðnum.

Alþjóðabankar verði  lífæð kapítalismans, útflutningur fjármagns skiptir nú meira máli en útflutningur á varningi.

Vegna lækkandi gróðahlutfalls yrðu kapítalistarnir að fjárfesta í æ ríkari mæli í nýlendum sem yrðu arðrændar fyrir vikið. 

En þetta arðrán sé aðeins gálgafrestur því gróðahlutfallið héldi áfram að lækka. Heimsvaldasinnuðu ríkin hafi  lagt undir sig allan heiminn svo erfitt sé um vik að finna nýjar nýlendur. 

Þrautalendingin væri uppskiptastríð milli nýlenduveldanna, fyrri heimsstyrjöldin hafi verið slík styrjöld um nýlendur og markaði.

Alltént hafi arðrán á nýlendum stuðlað  að bættum kjörum hluta verkalýðsstéttarinnar á Vesturlöndum, þó aðeins til bráðabirgða.

Ekki bara lækkandi gróðahlutfall heldur stöðnun vegna einokunar veiki innviði kapítalismans.

Einokunin muni valda því að það hægist á tæknilegri nýsköpun. Fyrr eða síðar hryndi kerfið vegna stórkreppu og byltinga (Lenín (1961).

En þessi kenning Leníns skýrir ekki hvers vegna sigurvegarar fyrir heimsstyrjaldarinnar, Bandaríkjamenn, létu eiga sig að hirða nýlendur annarra stórvelda.

Ekki bara Þjóðverja heldur líka Frakka og Breta sem skulduðu Könum stórfé eftir stríðið. Hefði ekki verið gráupplagt að taka nýlendurnar uppi í skuld?

Í stað þess drógu Bandaríkjamenn sig inn í skel sína, mörkuðu einangrunarstefnu.

Skömmu síðar hófst mikið efnahagsblómaskeið þar vestra, samkvæmt kokkabókum Leníns hefði slíkt ekki átt að geta gerst án þess að Kanar sölsuðu undir sig ný áhrifasvæði.

Og ekki virtist það skaða efnahag Vesturlandabúa að þriðjungur heimsins var á tímabili  undir stjórn kommúnista og því lokað svæði fyrir hið forgráðuga auðvald.

Í ofan á lag láðist Könum að arðræna sín meintu leppríki Suður-Kóreu, olíuríkin á Arabaskaganum og Tævan.

Fyrst nefnda ríkið var fyrir tæpum sjö áratugum jafn fátækt og Bangla Desh en er í dag meðal ríkustu landa heims.

Þess utan hef ég áður bent á að ólíklegt sé að olíugræðgi hafi verið meginorsakavaldur hinnar svívirðulegu amerísku innrásar í Írak.

Þótt margt megi ljótt um þá innrás segja þá var olían var aldrei tekin úr höndum Íraka þótt vestræn olíufyrirtæki fengju leyfi til að vinna olíu þar.

Fram kom í færslu minni  að þau hafi verið að draga sig út úr Írak vegna skriffinnsku og róstra  þar í landi. Skriffinnskuvandinn sýnir að hið írakska skrifræði réði mestu um olíuna, ekki vondu amerísku heimsvaldasinnarnir. Í stað vestrænu fyrirtækjanna koma kínversk og rússnesk fyrirtæki.  

 Það er auma auðvaldið sem ekki getur klófest hráefnin!

Þegar Mexíkóar, Líbíu- og Venesúelamenn þjóðnýttu olíu sína þá hreyfðu Kanar hvorki legg né lið.  Svei mér ef amerísku heimsvaldasinnarnir eru ekki hreinræktaðir aumingjar!  

Í fullri alvöru:  Þessi dæmi  sýna þessi  að eitthvað mikið er bogið við kenninguna um hið heimsvaldasinnaða skeið kapítalismans.

Athugið að  sé ekki líklegt að olíugræðgi hafi verið meginorsakavaldur innrásarinnar má ætla að Bandaríkin girnist ekki auðlindir Rússlands. Gagnstætt því sem áróðursvél Rússa og Þórarinn Hjartarson segja (hvað í málflutningi hans er ekki ættað úr þeirri vél?).

Snyder ræðir þennan rússneska áróður og segir litlar líkur á því að Kanar girnist náttúrugas Rússa þar eð BNA sé sjálfum sér nægt um slíkt gas (Snyder 2018: 197).

Bæta má við að kostnaðurinn við að krækja í auðlindir Rússlands  yrði svo mikill að það borgaði sig ekki að bera sig eftir þeim.

Nefna má að í þættinum um Wagnerherinn er staðhæft að hann noti klæki og ofbeldi til að sölsa undir sig hráefni í Afríku og gera ríkin þar að rússneskum leppríkjum.

Þar eð her þessi er í eigu rússnesks olígarka má ætla að rússneska ríkið komi mjög við sögu, Hill og Gaddy segja að ólígarkarnir séu bara handbendi Pútíns (Hill og Gaddy 2015).

Sé þetta rétt þá er rússneska ríkið heimsvaldasinnað, samanber heimsveldisdraumar Pútíns um Evrasíu undir rússneskri stjórn.

Ennfremur bendir  skipulegur  þjófnaður  í Úkraínu til þess sama.  Nýlega sigldi rússneskt skip með stolið korn þaðan og reyndu Rússar að selja þýfið án árangurs.

Og í síðustu færslu vitnaði ég í hið virta vikurit der Spiegel sem segir að einn skósveina Pútíns, ráðherranefna, hafi sagt að Úkraínumenn yrðu að borga fyrir rafmagn frá úkraínsku kjarnorkuveri sem Rússar hafa lagt undir sig, þ.e. stolið. 

Bæta má við að sami ráðherra mun  hafa sagt að fylki í Suður-Úkraínu sem Rússar haf lagt undir sig, ætti að verða hluti af Rússlandi enda gæti það séð landinu fyrir byggingarefni. Svona tala þjófar og yfirgangsseggir.

Getur verið að innrásin hafi efnahagsleg markmið, að Pútín vilji sölsa undir sig hina frjóu akra landsins og stela líka neongasinu sem Úkraínumenn framleiða? 

Það gas er mikilvægt fyrir kísilflögur og því fyrir hinn alþjóðlega tölvuiðnað, Úkraínumenn framleiða 50% af öllu slíku gasi. Ef Pútín nær tökum á því gæti hann náð hreðjartökum á vestrænum iðnaði.

En þetta eru bara vangaveltur, ég hef engar sannanir fyrir því að innrásin hafi átt sér efnahagslegan hvata. 

Kannski Þórarinn ætti að rannsaka þessa heimsvaldastefnu Moskvuvaldsins.

Þýðir þetta að ég telji Vesturveldin saklaus af yfirgangi? Nei og aftur nei, þau hafa gert sig seka um ójöfnuð,  jafnvel pólitíska glæpi, ég kom með ýmis dæmi í fyrri færslum.

Einnig um  hroka og tillitsleysi við Rússa sem gert hefur illt verra í Evrópu austanverðri (að ógleymdri blindu þeirra á hættuna sem stafar af Pútín grimma)(sjá t.d. Sarotte 2021).

Það er út af fyrir sig rétt hjá Þórarni að lýðræðisríki eru ekki endilega friðsöm eða saklaus af yfirgangi. En skýringanna er tæpast að leita í marx-lenínískum  kenningum um heimsvaldastefnu.

Þrepa-kenning marxismans gagnrýnd.

Í ofan á lag hvílir þrepa-kenningin um þróun kapítalismans og mannkynsins almennt á veikum fræðilegum stoðum eins og fleira í fræðum marxismans.

Marx talaði einatt um að mannkynssagan lyti sérstökum lögmálum og samfélagsgerðir tækju við hvert af öðru með meira eða minna lögbundnum hætti  (einfalda útgáfu af kenningunni má finna í  Marx og Engels 2008).

En heimspekingurinn Karl Popper andæfði þeirri skoðun að til væru sérstök söguleg lögmál sem vísa mætti í til að spá svo fyrir um framtíðina.

“Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina”, segir danskt orðatiltæki, Popper væntanlega til mikillar ánægju.   

Hann leiddi máttug rök að því að óskilyrtar framtíðarspár væru ekki mögulegar, framtíðin sé og verði hulin sjónum dauðlegra manna.

Í fyrsta lagi séu  vísindalegar lögmálsyrðingar skilyrtar alhæfingar um atburði sem geta endurtekið sig, t.d. ”ef kvikasilfur er kælt niður í a.m.k.  38.83 stig undir frostmarki þá mun það frjósa og bráðna”. 

Vissulega sé hægt að spá fyrir um gang himintungla og flóð og fjöru en það séu undantekningar sem sanni regluna.

Ástæðan fyrir því að slíkar forspár geti ræst  sé  sú að sólkerfið er hartnær lokað kerfi. Fæst kerfi séu lokuð og  mannheimakerfið  opið upp á gátt.

Til dæmis getur samfélagið orðið fyrir miklum áhrifum frá atburðum í himingeimnum, stór loftsteinn gæti hitt jörðina og valdið því að siðmenningin líði undir lok.

Þess utan eru spásagnir stjörnufræðinnar skilyrtar. Þær rætast með því skilyrði að ekkert óvænt gerist, t.d. að  ekki myndist svarthol skyndilega nálægt sólinni en slíkt svarthol myndi eyðileggja sólkerfið.

Athyglisvert er að þróunarlíffræðingar eyða ekki tíma sínum í að spá fyrir um þróun lífvera í framtíðinni en hefur ekki orðið meint af. Þeir gera heldur ekki ráð fyrir sérstökum sögulegum lögmálum sem skýri þróun lífsins.

Enda er þróunarkenning Darwins sem slík  alls ekki lögmálsskýring að mati Poppers.

Það sé út í hött að gera ráð fyrir einhverju allsherjar þróunarlögmáli lífsins. Tilgátan um þróun lífsins sé  staðhæfing um einstaka viðburði en það eru lögmálsskýringar ekki.

Að breyttu breytanda gildir hið sama um mannkynssöguna.  (Popper 1957: 106-107).

En auðvitað komi  lögmálsskýringar mjög við sögu þróunarlíffræðinnar.  Til dæmis geti lögmál eðlisfræðinnar hjálpað okkur til að skýra göngulag risaeðla sem aftur getur verið þáttur í skýringunni á því hversu lengi þær ríktu á jörðinni (Popper notar ekki þetta dæmi).

Að breyttu breytanda gildir slíkt hið sama um mannheima, þeir lúta sjálfsagt ýmsum lögmálum þótt sérstök söguleg lögmál séu ekki meðal þeirra.  Hvað um það, ef lífheimurinn lýtur ekki almennum þróunarlögmálum má telja ólíklegt að mannkynssagan lúti slíkum lögmálum.

Í öðru  lagi, segir Popper,  hafi þekking áhrif á atburði, ekki síst í hagkerfinu. En við getum ekki spáð fyrir um nýja þekkingu í framtíðinni. Ef við gætum það þá hefðum við þegar öðlast þessa þekkingu en þá verður hún ekki ný þekking í framtíðinni.

Í þriðja lagi geta spásagnir annað hvort ræst eða afræst af sjálfum sér. Segjum að ég sé gæddur ófreskigáfu og geti spáð fyrir um kauphallarhrun innan þriggja daga.

Ef fréttist af þessari spásögn þá flýti allir sér að selja verðbréfin og þá hrynji markaðurinn innan tveggja daga, ekki þriggja.

Spásögnin afrætist af sjálfri sér. Nú spyr einhver hvort ekki sé hægt að leyna henni.

En Popper bendir réttilega á að ef þetta væri  í raun og sann hlutlæg spásögn þá væri annað ósennilegt en að aðrir spámenn hefðu séð atburðina fyrir og þá er ólíklegt að henni  yrði haldið leyndri (Popper (1957): v-vi og víðar).

Óskilyrtar spásagnir séu sem sagt útilokaðar og engin ástæða til að trúa því að sagan lúti sérstökum, járnhörðum lögmálum, leiðarhnoðað fylgir engri átt.

Vel megi tala um sögulegar tilhneigingar (e. trends) en staðhæfingar um slíkar hneigðir eru staðhæfingar um einstaka viðburði og geta því ekki talist lögmálsskýringar. Auk þess geti tilhneigingar snúist við. (Popper 1957: 105-147 og víðar).

Til dæmis hefur lengi verið tilhneiging til nútímavæðingar víðast á jarðarkringlunni en framsókn hreintrúarmanna, einræðisherra  og pópulista  kann að eyða þeirri hneigð

(Popper notaði náttúrulega ekki þetta dæmi, það rit hans sem ég ræði um var sett saman  löngu fyrir daga nútíma íslamisma, pútínisma  og popúlisma).

 Alla vega sé ég ekki hvernig sanna megi að mannkynssagan þróist frá þrepi til þreps og að hið sama gildi um kapítalismann.

Verði kjarnorkustríð og einhver hluti mannkynsins lifi af muni hann væntanlega verða að lifa með hætti steinaldarmanna. Falla af núverandi þrepi niður á frumþrepið (sé vit í að tala um söguþrep).

Nú kunna marxistar að eiga krók á móti bragði. Þeir gætu sagt að marxisar (alla vega Rosa Luxemburg)  hafi staðhæft að kostir framtíðarinnar yrðu tveir, annars vegar sósíalismi, hins vegar barbarí. Eftirleikur kjarnorkustríðs væri barbarí, stríð sjálft enn fremur.

En Popper átti gott svar: Marxistar hafi ranglega trúað að þeir  gætu spáð því fyrir að aðeins yrði um þessa kosti að velja en slíkar spásagnir séu út í hött.

Bæta má við að kannski býður framtíðin upp á kosti sem við vitum ekki hverjir munu verða, t.d. á samfélagsskipun sem við getum vart gert okkur í hugarlund.

Ekki má skilja orð mín svo að allt sem Popper segir um sögulega nauðsyn sé í himnalagi.

Ég hef í fyrri færslu bent á að hann hafi ranglega haldið að nasistar hafi trúað á slíka nauðsyn og að þessi trú væri upphaf alræðis.

En ýmsir frjálslyndir hugsuðir frá Condorcet til Herberts Spencers trúðu á þessa nauðsyn án þess að verða alræðissinnar fyrir vikið.

Er svo að skilja að ég telji marxísk fræði einskis virði? Alls ekki, sjálfsagt má læra ýmislegt af þeim um sægreifaveldi á Fróni, fákeppni í Kísildal og aukna misskiptingu lífsgæða víða um lönd

(neistamönnum er ekki alls varnað, þeir skrifa  læsilega grein um vald stafrænu stórfyrirtækjanna).  

Snyder heldur því fram að aukin misskipting vestanhafs gæti leitt til þess að Bandaríkin lentu á svipaðri braut og Rússland Pútíns (Snyder 2018: 217-278).

Alla vega  gæti verið frjótt að skoða  rússneska þjófakapítalismann í ljósi kenninga Marx.

Hvað hefði hann  sagt  hefði hann vitað að sumir fylgismenn sínir bæru blak af samfélagi (Rússlandi)  með ójöfnustu eignaskiptinguna  í heimi?

Þar sem fámennur hópur auðmanna lifir í vellystingum pragtuglega á meðan fimmtung íbúanna vantar vatnsklósett

Hópurinn er sagður  fela allt að  800 milljörðum dollara í  útlöndum með blessun, jafnvel þátttöku,  harðstjórans í Kreml.  

Fé sem nota mætti til að bæta hag almennings í land, útvega öllum almennilegt klósett.

Lokaorð.

Sá á Gljúfrasteini sagði um kommúnista að þeir væru með steinbarn í maganum. Annað nóbelsskáld, W.B. Yeats orti svo um öfgamenn:

                                   „Hearts with one purpose alone

                                     Through summer and winter seem

                                     Like enchanted to a stone

                                     To trouble the living stream“

 

Ungfrú Spjóts er líklega lítt verseruð í þessum skáldskap. En hún syngur í orðastað  stelpu sem  játar að hún sé ekki svo mjög saklaus.

Kannski er endurtekningarárátta margra vinstrisósíalista ekki tilviljun, ef til vill  ekki bara mistök.

Kannski þeir séu ekki svo mjög saklausir, kannski voru mistökin engin mistök.

Kannski að hinn söngvni Þórarinn ætti að stilla sína strengi,  spila svo og syngja „Oops, I did it again“.

Heimildir

Hill, Fiona og Gaddy, Clifford 2015: Mr. Putin: The Operative in the Kremlin. Brookings Institution Press.

Lenín, Vladimír Iljits 1961: Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins (þýðandi Eyjólfur R. Árnason). Reykjavík: Mál og menning/Heimskringla.

Marx, Karl  og Engels, Friedrich 2008: Kommúnistaávarpið (þýðandi Sverrir Kristjánsson) Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Popper, Karl 1957: The Poverty of Historicism. London: Routledge & Kegan Paul.

Sarotte, Mary Elise 2021: Not an Inch: The Making of the America Russia Post-Cold War Stalemate. Yale University Press.

Snyder, Timothy 2018: The Road to Unfreedom. Russia. Europe. America. New York: Duggan Books.  

Yeats, William Butler: „Easter, 1916“, https://www.poetryfoundation.org/poems/43289/easter-1916.

Auk þess ógrynni af netheimildum.

 

Athugasemdir (8)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Mikið mun það gleðja fórnarlömb heimsvaldastefnu Bandaríkjanna í Suður Ameríku að heyra að.glæpir gegn þeim gerðust aldrei: að valdarán, kúgun og glæpir gegn mannkyni sem þeir voru beinn valdur af væri bara Marxiskur áróður.

    Það er Stundinni til skammar að hafa svona ótrúlega þvælu inná sinni síðu.
    0
  • Mikið mun það gleðja fórnarlömb heimsvaldastefnu Bandaríkjanna í Suður Ameríku að heyra að.glæpir gegn þeim gerðust aldrei: að valdarán, kúgun og glæpir gegn mannkyni sem þeir voru beinn valdur af væri bara Marxiskur áróður.

    Það er Stundinni til skammar að hafa svona ótrúlega þvælu inná sinni síðu.
    0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Þú hefur greinilega ekki lesið fyrri færslur mínar þar sem ég gagnrýni stefnu Bandaríkjamanna í latnesku Ameríku, Írak og víðar. Í færslunni "Nató II, kalt stríð, heit hjörtu" skrifa ég:

      "Hvað um Íran? Lítill vafi er á að CIA átti mikinn þátt í að fella hinn lýðræðislega kjörna Mohammed Mossadeq og koma á einræði undir stjórn keisarans. Hið sama gildir um stjórn Allendes í Chíle, CIA studdi valdarán Pinochets og einræði hans.

      Bæta má við stjórn Arevalos í Guatemala, lýðræðislega kjörinni stjórn sem Kanar áttu þátt í að fella.

      Ekki skal innrásin í Írak varin hér, hvað þá refsiaðgerðirnar gegn stjórn Saddams sem bitnuðu all hrikalega á óbreyttum borgurum. En athugið að Kanar sölsuðu ekki olíulindir landsins undir sig, íraskt ríkisfyrirtæki sér enn um olíustarfsemi þar í landi."
      0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Hér er sú færsla: https://stundin.is/blogg/stefan-snaevarr/nato-ii-kalt-strid-heit-hjortu/
      0
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Bætti þessu inn:
    Þessi áróðursvél étur frasana ómelta upp úr lygalaupnum Pútin enda leikurinn til þess gerður.

    Hann laug purrkunarlaust að heimsbyggðinni er hann sagði rétt fyrir innrásina að herinn væri á leiðinni heim eftir heræfingar en hann myndi senda friðargæslusveitir til Donbass.

    Þetta og fleira bendir til þess að fyrrum samstarfsmaður hans, Púgasjov, hafi á réttu að standa þegar hann sagði hann raðlygara.

    Í ljósi þessa er engin ástæðu til að trúa því sem rússneskir (og Rússa-sponsaðir) fjölmiðlar segja nema þeir leggi fram verulega góðar sannanir fyrir máli sínu.
    0
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Svo má einnig geta þess, eins og Jóhannes Björn heitinn sagði í bók sinni Falið Vald.
    Lengst til hægri og lengst vinstri, er eitt og það sama.
    Alræði á höndum fárra (mannleysingja), manna.
    0
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Bætti þessu inn:
    Hvers vegna tókst CIA ekki að þagga niður í nefndinni? Og hver stjórnar amerísku áróðursvélinni og hvernig?

    Af hverju tókst henni ekki að koma í veg fyrir að bandarískir blaðamenn afhjúpuðu Watergate-innbrotið og stuðluðu með því að Nixon varð að segja af sér?

    Af hverju kom hún ekki í veg fyrir að blaðamenn frá BNA afhjúpuðu fjöldamorðin í My Lai og svipaðan sóðaskap í Víetnamstríðinu?

    Kannski af því að þessi meinta áróðursvél er ekki til þrátt fyrir tilraunir CIA til að skapa hana.
    1
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Bætti þessu inn:
    Og í síðustu færslu vitnaði ég í hið virta vikurit der Spiegel sem segir að einn skósveina Pútíns, ráðherranefna, hafi sagt að Úkraínumenn yrðu að borga fyrir rafmagn frá úkraínsku kjarnorkuveri sem Rússar hafa lagt undir sig, þ.e. stolið.

    Bæta má við að sama ráðherra er sagður hafa sagt að fylki í Suður-Úkraínu sem Rússar haf lagt undir sig, ætti að verða hluti af Rússlandi enda gæti það séð landinu fyrir byggingarefni.

    Getur verið að innrásin hafi efnahagsleg markmið, að Pútín vilji sölsa undir sig hina frjóu akra landsins og stela líka neongasinu sem Úkraínumenn framleiða?

    Það gas er mikilvægt fyrir kísilflögur og því fyrir hinn alþjóðlega tölvuiðnað, Úkraínumenn framleiða 50% af öllu slíku gasi. Ef Pútín nær tökum á því gæti hann náð hreðjartökum á vestrænum iðnaði.

    En þetta eru bara vangaveltur, ég hef engar sannanir fyrir því að innrásin hafi átt sér efnahagslegan hvata.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu