Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

NATÓ (I): Rússland

Viðbrögð manna við innrás Rússa leiðir margt skrítið í ljós. Ekki síst að hægri og vinstri öfgamenn verja margir hverjir Rússa og skella skuldinni á Úkrainu og Vesturveldin. Hægripútínistar dá alvaldinn i Kreml, vinstrimennirnir hata NATÓ svo mjög að þeir verja nánast hvaða fjanda þess sem vera skal.

Báðir trúa því að innrásin sé skiljanleg viðbrögð við stækkun Norður-Atlantshafs bandalagsins, það hafi verið liður í tilraun til að þjarma að Rússum.

Þórarins þáttur Hjartarsonar

Einn þessara vinstrimanna er sagnfræðingurinn Þórarinn Hjartarson. Hann lofsyngur einræðisherrann Pútín með sama ákafa og hægrimenn á borð við Kristjón Benediktsson.

Einnig setur hann fram þá furðukenningu að stríð Rússa á síðustu tveimur öldum hafa einungis verið varnarstríð.

Voru innrásirnar í Afghanistan, Ungverjaland og Tékkóslóvakíu varnarstrið? Var hernám Eystrasaltsríkjanna varnarstríð?

Var hin mikla útþensla keisaraveldisins á síðari helmingi nítjándu aldar af varnartoga spunnin? Til dæmis lagði keisarastjórninn Úsbekistan undir sig 1866, Kirgistan og hluta Tadsikistan 1876, restin var hertekin nokkrum árum síðar. 

Var þátttaka Rússa í fyrri heimsstyrjöldinni bara  af varnartagi? Solsénitsin segir svo frá í skáldsögunni Ágúst 1914 að stríðið hafi verið keisaranum kærkomið því það leiddi athygli almennings frá ömurlegu ástandi heima fyrir (kannski svo lítið eins og innrás hins pútínska morðhers í Úkraínu).

Einnig má ætla að keisarinn hafi haft landvinninga í huga af gömlum, rússneskum vana. 

Með því að verja Pútín ver vinstrisósíalistinn Þórarinn einokunarkapítalískt kerfi  þar sem misskipting auðs er meiri en í Bandaríkjunum. Er Þórarinn stoltur af að vera skoðanabróðir hægriöfgamanna á borð við  Tucker Carlson og  hins þýska  AfD?

Stækkun NATÓ.

Spyrja má hvers vegna bandarískum  hermönnum og herstöðvum hefur fækkað svo mjög í Evrópu á stækkunarskeiðinu (verð ég nefna að Keflavíkurstöðin var lögð niður 2006?). Og hvers vegna eru útgjöld Evrópuríkjanna til varnarmála svona lítil?

Hafi NATÓ ætlað sér að gera Rússum mein þá hefði hið gagnstæða verið uppi á teningnum. Einnig vita NATÓ leiðtogar að Rússar hafa gjöreyðingavopn, að þrýsta hressilega á þá  getur þýtt kjarnorkustríð.

Í ljósi þessa og í ljósi sögunnar  er líklegast að fyrrum kommúnistaríki,  sem sóttu um inngöngu í NATÓ, hafi gert það vegna ótta við Rússana. Reynsla þessara landa flestra af þeim er ekki góð, hvorki af Sovétríkjunum né keisaradæminu.

Enn fremur sýnir yfirgangur Pútíns að ótti þeirra var ekki ástæðulaus.

NATÓ bara varnarbandalag?

Flest bendir til þess  að NATÓ standi undir nafni, sé varnarbandalag, ekki árásarfélag. Vissulega má velta fyrir sér hvort Serbía,   Afghanistan og Líbía segi aðra sögu. NATÓ hóf loftárásir á Serbíu án umboðs S.Þ. og tók þátt í Afghanistan-stríðinu.

En loftárásirnar komu alltént í veg fyrir þjóðarbrotshreinsun og áttu þátt í að fella einræðisherra. Þáttakan í Afghanistanstríðinu var réttlætt með því að þaðan hefði verið ráðist á eina aðildarþjóðina.

Alla vega hafði þessi þátttaka þær jákvæðu afleiðingar að staða kvenna batnaði mjög. Um loftárásirnar á Líbíu er það að segja að þótt markmiðið kunni að hafa verið göfugt þá voru afleiðingarnar skelfilegar.

Sagt er að Pútín hafi hvað eftir annað horft á myndbandið sem sýnir aftöku Gaddafís, kannski af því að hann óttaðist sömu örlög.

Alla vega hljóta þessar aðgerðir NATÓ að draga úr trú manna á að það sé varnarbandalag.  Samt tel ég   að aðgerðirnar séu undantekningar sem sanni regluna, alla vega bendir ekkert til þess að stækkun NATÓ ógni Rússlandi.

Menn gætu minnst þess að Anna Politkovskaja varaði Vesturlönd við árið 2006 og sagði að stríðið í Tséténu væri bara byrjunin.

Pútín myndi fyrr eða síðar færi styrjaldarreksturinn í vesturátt og herja með sama ofstopa og í Tséténu.

Hún hafði skrifað magnaða bók um þetta stríð sem hún var sjónarvottur að. Hún  lýsti því hvernig rússneski herinn óð rænandi, nauðgandi, stelandi og myrðandi yfir Tséténu (skrítið varnarstíð atarna!).

Mánuði eftir að hún varaði  okkur við var hún myrt. Af þeim sama sem   myrti Litvinenko og Nemtsov? Þeim sama sem  eitraði fyrir Navalní og Skrípal?

Margt bendir til að stækkunarsnakk Pútíns sé yfirvarp, hann óttist að lýðræðið í Úkraínu, þótt veikburða sé,  smiti Rússa.

Tillitsleysi við Rússa.

Það er lítill vafi á að Bandaríkin og Vesturlönd hafa sýnt Rússum hroka og tillitsleysi. Þau skilja ekki ótta Rússa við innilokun og innrás úr vestri (sú staðreynd að þeir halda ranglega að NATÓ hafi slíkt í hyggju breytir engu um að noja þeirra er skiljanleg í ljósi sögunnar).

Lítum á fleiri dæmi um hroka og tillitsleysi:  Bandaríkjamenn hótuðu  refsiaðgerðum 1994 ef rússneski herinn hundskaðist ekki út úr Eystrasaltsríkjunum.

Rússar urðu að hlýða sem var gott að því leyti að þetta tryggði sjálfstæði ríkjanna. En slæmt að því leyti að Rússarnir töldu sig hafa verið niðurlægða.

Þeir voru alla vega niðurlægðir þegar Bandaríkin höfðu vart fyrir því að segja þeim að bandarískar herþotur réðust á her Bosníuserba.

Svo óskylt mál sé nefnt töldu margir Rússar að bandarískir hagfræðingar bæru vissa ábyrgð á hinni misheppnuðu einkavæðingu upp úr 1990 sem leiddi hörmungar yfir þjóðina.

Alvarlegri ásakanir hafa verið settar fram af þýska vikuritinu Der Spiegel sem segir að CIA hafi aðstoðað Jeltsín við kosningafölsun árið 1996. Kommúnistinn Sjúganov hafi unnið en Jeltsín hafi orðið ofan á með svindli. Þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti það.

Hvað um það, Rússar klifa einatt á því að þeim hafi verið lofað að NATÓ yrði ekki stækkað. En í því sambandi kemur í ljós að þeir skilja ekki Vesturlönd.

Þeir héldu  að það James Baker hafi sagt í einkasamtölum að ekki yrði nein NATÓ stækkun þýddi að BNA hefði lofað þessu. En Baker hafði ekkert umboð til að segja þetta, ekki er hægt gera ný ríki að meðlimum í NATÓ nema með samþykki allra þjóðanna.

Rússarnir héldu að NATÓ væri klúbbur þar sem Bandaríkjamenn réðu öllu enda vanir slíkri stórveldadrottnun.  En þeim brá skiljanlega þegar NATÓ samþykkti árið 2008 að Úkraína og Georgía skyldu verða meðlimir NATÓ, George Bush hafði lofað Georgíumönnum þessu á fjöldafundi í Tblisi nokkrum árum áður.

En Rússarnir skildu ekki að þessi „loforð“ voru innantómt orðagjálfur. Þjóðverjar og Frakkar voru og eru enn algerlega á móti aðild þessara ríkja að NATÓ en létu dekstra sig til að samþykja tillöguna 2008.

Eða hvers vegna eru hvorugt ríkjanna NATÓ-meðlimir í dag, fjórtán árum síðar? Besta skýringin er sú að ýmsar NATÓ-þjóðir voru alfarið á móti aðild þeirra.

Rússarnir héldu að Kanar gætu ákveðið upp á sitt eindæmi að hleypa ríkjunum inn enda vanir stigveldi og kúgun eigin stórveldis.

Nefna má að í bókinni Mr Putin: The Operative in the Kremlin segja þau Fiona Hill og Clifford Gaddy að Pútín skilji ekki Vesturlönd og trúi því einlæglega að þau ógni Rússland. En Hill og Gaddy efast ekki um að Vesturlönd hafi ögrað Rússum með heimskulegri framkomu.

BNA og Vesturlönd.

Margt má ljótt um utanríkisstefnu Bandaríkjanna segja en þeir hafa yfirleitt verið siðmenntaðir og tillitsamir í skiptum sínum við Vesturlönd (ekki við þriðja heiminn!).  Árið 1946  báðu Bandaríkjamenn Íslendinga um herstöð í Keflavík en boðinu var hafnað.

Hvað hefði gerst ef Búlgaría hefði neitað slíku boði frá Sovétríkjunum? Eða Hvítarússlandi boði frá einræðisherranum, þjófnum og stríðsglæpamanninum Pútín?

Vissulega urðu Íslendingar síðar (1951)  við beiðni Kana. En fáum árum gerðu þeir merkilegan samningi við Sovétríkin, örugglega  í óþökk Bandaríkjamanna.

Þannig var mál með vexti að Bretar höfðu sett hafnbann á íslenskan fisk vegna fiksveiðideilu. Sovétmenn buðust til að kaupa fiskinn gegn því að Íslendingar keyptu sovéskar og austurevrópskar vörur á móti. Landið fylltis af Traböntum, Moskvitsjum og prins póló!

Ekki má gleyma olíunni, Íslendingar keyptu alla sína olíu af Sovétríkjunum áratugum saman án þess að Bandaríkin lyftu litlaputta til að hindra það. 

Hefðu Sovétríkin sætt sig við að leppríki þeirra gerðu slíka samninga við Bandaríkin? Örugglega ekki. Og Kanar sættu sig við að Moskvukommar væru í ríkisstjórn 1956-8, nær má geta hvort ófétis Sovétið hefði þolað stjórnarsetu Kanavini í leppríkjum sínum.

Lokorð.

NATÓ er hreint ekki fullkomið en í heimi þar sem einræðisherra ræðst á nágrannaríki og annar einræðisherra hefur hreðjartök á efnahagslífi heimsins eru samtökin illskásti kosturinn.

Í næstu færslu mun ég ræða kalda stríðið og draga upp öllu neikvæðari mynd af utanríkisstefnu BNA en um leið segja að hún hafi verið skömminni skárri en stefna Sovétríkjanna.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Flott grein. En hunskast? Hundskast!
    0
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Ég bætti inn þætti um furðuskrif Þórarins Hjartarsonar, vinstrimanns sem ver Pútín.
    1
  • VM
    Viðar Magnússon skrifaði
    " (verð ég nefna að Keflavíkurstöðin var lögð niður 2006?)" . Er ekki verið að framkvæma fyrir tugi miljóna í hernaðarmannvirkjum á Keflavíkurvelli þrátt fyrir að stöðinn var lögð niður 2006
    0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Nú eftir að Pútín hefur sýnt sitt rétta andlit. 2006 var ekkert slíkt í bígerð.
      1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu