Napóleon, tvö hundruð ára ártíð-Um tvíeðli hans
Halldór Laxness kallaði hann „Naflajón“, hersnillinginn og keisarann Napóleon Bonaparte.
Um þessar mundir eru tvö hundruð ár síðan hann dó í útlegð á eynni Sankti Helenu. Hann missti völdin endanlega eftir frægan ósigur við Waterloo, þá orrustu gerði Abba fræga í samnefndum brag.
„Napóleon keisari með mörg þúsund menn“.
Um fáa stjórnmálamenn hefur verið eins hart deilt og Napóleon. Sumir kalla hann forvera Mussolinis og Hitlers, aðrir leggja áherslu á að hann hafi verið eindreginn fylgismaður upplýsingastefnunnar og stuðlað, þrátt fyrir allt, að framförum.
Til að mynda var hann lagabætir mikill, hann setti sínu mikla veldi lög sem við hann eru kennd. Með því gerði hann Frakkland og allt sitt heimsveldi að réttaríki og þó.
Rétt eins og forverar hans í frönsku byltingunni var hann lítill unnandi kvenréttinda, ef eitthvað var dró úr réttindum kvenna í lögum hans.
Í þessu sjáum við tvíeðli Napóleons, með einni hendinni jók hann mannréttindi, með hinni dró hann úr slíkum réttindum.
Tvíeðlið sést líka í herför hans um Ítalíu í lok átjándu aldar, annars vegar opnaði hann gettó Gyðinga og gaf þeim full mannréttindi, hins vegar rændi hann listaverkum í stórum stíl.
Þegar hann hernam Möltu frelsaði hann innfædda undan oki musterisriddaranna, afnam lénsveldið og veitti Gyðingum og múslimum trúfrelsi. En hermenn hans svívirtu dómkirkjuna í La Valetta og gerðu hana að hesthúsi. Svo mjög mislíkaði hinum rammkaþólsku Möltubúum framferði þeirra að þeir risu gegn Frökkum og tóku Bretum fagnandi.
Napóleon ætlaði að losa Spánverja úr viðjum rannsóknarréttar og erkikaþólsku, láta sól upplýsingarinnar skína yfir landið. En fór fram með slíkum ofstopa að Spánverjar fengu nóg og gerðu uppreisn gegn Frökkum. Ekki síst gegn Joseph Bonaparte, bróður Napóleons sem keisarinn hafði gert að konungi Spánverja. Sá játaði í bréfi til bróður síns að hann nyti einskis stuðnings á Spáni.
Joseph var ekki eini bróðurinn sem Napóleon gerði að konungi og þóttu fæstir þeirrar miklir skörungar. Hermann Lindkvist segir í ævisögu Napoléons að hann hafi öðrum þræði verið korsískur ættbálkahöfðingi sem taldi sjálfsagt að hygla ættingjum sínum.
Samt talar Lindkvist yfirleitt vel um hann, bendir til dæmis á að Bretar hefði sagt stríð á hendur honum árið 1803 þegar Evrópa hafði notið friðar um nokkurt skeið. Það er því rangt að Napóleon hafi einn borið ábyrgð á hildarleiknum sem ekki lauk fyrr en við Waterloo tólf árum síðar.
En hann lét leyfa þrælahald á ný í nýlendum Frakka, frönsku byltingarmennirnir höfðu afnumið það.
Annað mikið fólskuverk var framkoman við Haítimenn. Hinn stórmerki leiðtogi blökkumanna þar í landi, hernaðarsnillingurinn og umbótamaðurinn Toussaint L‘Ouverture, hafði losað landið við franska nýlendukúgun, afnumið þrælahald og komið á upplýstu stjórnarfari. En Napóleon sendi her til landsins og lét handataka L‘Ouverture sem veslaðist upp og dó í frönsku fangelsi. Saga Haití hefði kannski orðið önnur ef Napóleon hefði látið landið í friði.
Þá kann einhver að spyrja hvort enn eitt fólskuverkið hafi verið það að hann stofnsetti leynilögreglu í félagi við hinn skuggalega lögreglustjóra Fouché. Svarið er að lögregluveldi Napóleons var í mildara lagi, fáir pólitískir fangar. Napóleon fór jafnan mildum höndum um andstæðinga og keppinauta.
Hin miklu mistök hans var innrásin í Rússlandi, þar missteig hinn snjalli herforingi sig. En hvarvetna þar sem stórher (la grande armée) keisarans fór um á rússneskri grund var ánauðugum bændum gefið frelsi.
Að meta ferilinn.
Til að meta feril Napóleons verða menn að hafa í huga hvernig veröldin var á hans dögum. Vart voru til eiginleg lýðræðisríki, vísir var að lýðræði í löndum eins og Sviss og Bretlandi, en þó var hann stærstur í Bandaríkjunum.
En þar nutu blökkumenn, indjánar og konur engra lýðræðisréttinda, flestir blökkumenn voru þrælar. Í Bretlandi nutu auð- og aðalsmenn einir lýðræðislegra réttinda. Þeir áttu líka einkarétt á frama í embættiskerfi og her, gagnstætt Frakkaveldi þar sem allir karlmenn nutu þessa réttar, þökk sé frönsku byltingunni og lagasetningu Napóleons.
Hinu verður ekki neitað að Bretar og Bandaríkjamenn nutu tiltölulega mikils mál- og prentfrelsis, slíku var ekki til að dreifa í veldi Napóleons.
Lokaorð.
Hvað sem því líður þá er gjörsamlega fáránlegt að líkja Napóleoni við Hitler, Mussolini og Stalín. Þeir káluðu frelsinu, Napóleon jók það sum part, dró sum part úr því. Hann var undarlegt sambland af frosti og funa.
Athugasemdir