Lémagna Lehman bræður, fjármálakreppan og undirmálslánin
Um þessar mundir er áratugur liðin síðan Lehman bræður urðu lémagna og tóku heimshagkerfið með sér í fallinu. En auðvitað verður þessum leiðu bræðrum vart einum kennt um fjármálakreppuna, orsakir hennar voru sjálfsagt margar og margþættar. Vinsælt er að kenna undirmálslánunum amerísku um kreppuna og er þá undirskilið að ríkisafskipti ein eigi sök á henni. Þessi lán hafi verið sköpunarverk ríkisins og orðið eins og tímasprengjur í fjármálakerfinu. Þau hafi skekkt markaðinn og sent röng skilaboð gegnum verðkerfið (t.d. Hannes 2008).
Krugman um kreppuna og undirmálslánin
Vandinn er sá að ýmsir málsmetandi menn hafa gagnrýnt undirmálslánakenninguna með athyglisverðum hætti. Til dæmis segir nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman að fylgjendur kenningarnir segi ranglega að rætur meinsins megi finna í löggjöf sem nánast hafi neytt banka til að veita fátæklingum húsnæðislán, lán sem þeir reyndust ekki borgunarmenn fyrir. Hann segir að þessi löggjöf um undirmálslán hafi verið sett þegar árið 1977, í ljósi þess sé vandséð hvernig hægt sé að kenna henni um kreppu þremur áratugum síðar. Ég vil spyrja hvers vegna ekki hafi skollið á kreppa fyrir 1990 sé löggjöfin sökudólgurinn. Krugman bætir við að löggjöfin hafi bara náð til viðskiptabanka en þeir báru aðeins ábyrgð á broti þeirra undirmálslána sem tengdust húsnæðisblöðrunni. Þess utan sé engin ástæða til að kenna Fannie Mae og Freddie Mac um fjármálakreppuna, þótt þessir ríkisstyrktu bankar séu ekki án ábyrgðar á henni. Staðreyndin sé hins vegar sú að vegna margháttaðra hneykslismála hafi verið þjarmað svo að þessum bönkum að þeir léku bara aukahlutverk í húsnæðislánaleiknum ljóta sem leikinn var af hvað mestri ákefð frá 2004 til 2006. Meginástæðan fyrir bankahruninu sé að ekkert opinbert eftirlit var með nýjum bankaígildum, þ.e. fjármálastofnunum sem í reynd voru bankar (Krugman 2009: 162-163).
Gagnrýni Willochs
Í ofan á lag má finna sannfærandi gagnrýni á undirmálslánakenninguna hjá þeim ágæta hægrimanni og fyrrum forsætisráðherra Noregs, Kåre Willoch (hann er hagfræðingur að mennt). Forsætisráðherrann fyrrverandi viðurkennir reyndar að ameríska ríkið eigi talsverða sök á undirmálslánunum en bætir við að það sé aðeins lítill hluti vandans. Aðalorsökin sé stjórnleysi hins alþjóðlega fjármagnsmarkaðar en frelsi þessa markaðar jókst verulega mikið á árunum fyrir fjármálakreppuna. Stjórnleysið olli því að sum fjármagnsfyrirtækin juku útlán sín sem nam þrítugföldu eigin fjármagni. Það þýddi að þau gátu ekki þolað nema fárra prósenta tap á útlánum sínum án þess að allt eiginfjármagn þeirra tapaðist. Auk þess gátu fyrirtækin flutt stóran hluta af starfsemi sinni til stjórnlausra geira viðskiptalífsins, það er hins alþjóðlega geira, sem var handan alls ríkisvalds. Þess vegna varð kreppan fljótlega hnattræn (Willoch 2008). Það fylgir sögunni að Willoch skrifaði prýðilega grein um aldamótin síðustu þar sem hann varaði við stjórnleysi fjármagnsins og benti á kreppuhættur af þess völdum. Þar vitnar hann grimmt í spá George Soros um að slík kreppa væri yfirvofandi (Willoch 2000: 385-394).
Lokaorð
Erfitt er að trúa öðru en að stóraukið frelsi fjármálamarkaðarins eigi mikla sök á kreppunni. En sjálfsagt hafa heimskuleg ríkisafskipti gert illt verra.
Heimildir:
Hannes H. Gissurarson 2008: “Hvað gerðist?”, Fréttablaðið, 17.október.
Paul Krugman 2009: The Return of Depression Economics and the Crisis of 2008. New York og London: W.W. Norton & Co.
Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.
Kåre Willoch 2000: “Liberale dilemmaer i en globalisert økonomi”, Nytt norsk tidskrift, nr. 4, bls. 385-394.
Kåre Willoch 2008: “Carl I. Hagens myte”, Aftenposten, 23. nóvember.
Athugasemdir