Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Eiríkur Bergmann um þjóðernispopúlisma

Ég tók mig til og keypti bók Eiríks Bergmanns Neo-Nationalism á amazon og las á kindlelestrarspjaldi. Er skemmst frá því að segja að bókin olli mér nokkrum vonbrigðum, hún er meira eins og teygð blaðagrein fremur en fræðirit.

Í þessari færslu mun ég vísa í staðsetningu í rafbók, mitt „eintak“ hefur ekki blaðsíðutal.

Meginefnið og helstu kostir.

Meginviðfangsefnið er það sem hann kallar á íslensku „þjóðernispópúlisma“, á ensku „neo-nationalism“ eða „nativist populism“. Þessi populismi hafi risið í þremur bylgjum á undanförnum áratugum, aðallega í kjölfar kreppna.

Fyrsta bylgjan hafi risið í kjölfar olíukreppunnar á áttunda tugnum, önnur bylgjan eftir fall kommúnismans og sem viðbrögð við innstreymi austurevrópskra verkamanna til Vestur-Evrópa.

Þriðja bylgjan sé sú hæsta, hún hafi risið eftir kreppuna 2008 og rísi enn. Megineinkenni þjóðernispopúlismans sé menningarlegur  fremur en líffræðilegur rasismi, andúð á alþjóðastofnunum, trú á náðarforingja, andúð á meintri elítu sem svikið hafi þjóðina, and-intellektúalismi o.s.frv.

En gagnstætt fasistum fyrri tíma séu þjóðernispopúlistar ekki beinlínis andsnúnir lýðræði og eins og áður segir eru þeir ekki fylgjandi líffræðilegum rasisma nasistanna (þykjast a.m.k. ekki vera það) (Loc 1067 og áfram).

Þessi greining Eiríks í bylgjurnar þrjár er nytsamleg.

Hann er líka í essinu sínu þegar hann sýnir fram á hvernig popúlistar í sínum ómálefnalega áróðri fremja hverja rökvilluna á fætur annarri (Loc 977 og áfram).

Levitsky og Ziblatt.

Einnig nýtir hann sér margt gott úr hinni frábæru bók Steven Levitskys og Daniel Ziblatts How Democracies Die. Þeir halda því fram að lýðræðið sé ekki eins traust og margir haldi.

Forsenda þess að það varðveitist sé að stjórnmálaelitan sættist á ákveðnar leikreglur og líti ekki á keppinautana sem óvini sem allt verði að gera til að stöðva.

Rannsóknir sýni að Bandaríkjamenn séu hvorki meira frjálshuga né lýðræðissinnaðir en aðrar þjóðir, þeir hafi verið svo heppnir að elítan hafi virt þessar leikreglur þar til Trump birtist.

Í dag sé hættan sú að eins fari fyrir lýðræðinu og frosknum sem soðnaði hægt í pottinum ogvarð þessi ekki var fyrr en um síðar (þeir nota aðra líkingu um „thousand cuts“ sem hægt og sígandi gangi að lýræðinu dauðu).

Eiríkur notar tilvitnun í skáldið T.S. Eliot og segir að „democracies die more with a whimper than a bang“ (loc 498).

Vel mælt en þetta er augljóslega innblásið af þeim Levitsky og Ziblatt en Eiríki láist að vitna í þá. Það endurtekur sig þegar hann segir að sagan sýni að þegar meginstraumselítan sameinist gegn frelsisóvinum hafi hún að jafnaði sigur  (loc 4872).

Levitsky og Ziblatt nefna hina þjóðernispópúlísku Lapuahreyfingu í Finnlandi sem stóð á hátindinum nokkru fyrir síðara stríð. Elítan sameinaðist gegn þessari öflugu hreyfingu og hafði betur. Eiríkur hefði sem sagt mátt vitna aðeins oftar í þá félaga.

Villur.

Lítum nú gagnrýnum augum á bókina og þá fyrst á augljósar villur. Eiríkur  staðhæfir að Theodore Roosevelt hafi stofnað Progressive Party árið 1912 og síðar orðið forseti (Loc 406).

En þetta er rangt, hann var forseti á árunum  1901-1909 og fór svo aftur í framboð 1912 en tapaði. Enn fremur kalla hann Jean Monnet „Monet“, sjálfsagt ásláttarvilla (loc 1295).

Sjálfsagt má deila um margt varðandi Marshallaðstoðina en ég held að það sé villandi að kalla hana „generous“ (loc 1270).

Mér skilst að Bandaríkjamenn hafi oft veitt aðstoðina með því skilyrði að þær þjóðir sem hana þáðu keyptu amerískar vörur fyrir Marshallpeninginn.

Með þessu hafi ráðamenn vestahafs viljað  bjarga BNA frá kreppu eins og sú sem varð eftir fyrra stríð þegar ekki var lengur hægt að framleiða vörur fyrir stríðsreksturinn.

Nefna má að svipuð kreppa varð í Noregi og á Íslandi eftir fyrra stríð. Báðar þjóðirnar höfðu grætt á því að framleiða ýmsan varning sem skortur á í Evrópu á stríðsárunum fyrri.

Svo hvarf eftirspurnin eftir þeim vörum um leið og stríðinu lauk og Evrópumenn gátu farið að framleiða eitthvað annað en vopn.

Íslendingar og Norðmenn voru því í vondum málum. 

Nefna má að Valur Gunnarsson gerði meira en að gefa í skyn að kreppan íslenska hafi orsakast af hinu illa fullveldi.

En skyldi kreppan bandaríska og sú norska  á  sama tíma og sú íslenska hafa stafað af fullveldisósóma þessara þjóða?

Megingallar.

Hvað sem því líður þá eru megingallar bókarinnar villandi umfjöllun um þjóðernisstefnu,  óþarflega mikil pólitísk rétthugsun, auk umfjöllunar um efnahagslegan  ójöfnuð sem segir bara hálfa söguna. 

Lítum fyrst á þjóðernisstefnuna. Eiríkur segir um ástandið á fyrstu áratugunum eftir stríð:  „Nationalism was in this era equated with racism,  and world leaders were adamant in insulating contemporary society from its toxic nature“ (loc 168).

Hverjir settu þetta samasemmerki og hvaða leiðt0ogar gerðu hvað til að kveða þjóðernisstefnu niður? Skorti þjóðernisstefnu á Íslandi, í Noregi, Frakklandi og Bandaríkjunum á fyrstu áratugunum eftir stríð? 

Leiðtogar þessara ríkja fluttu einatt þjóðræknar ræður á þjóðhátíðardögum yfir fánaveifandi lýðnum. Jafnframt voru þeir sennilega andsnúnir þjóðernis-öfgastefnum og árásargirni í nafni þjóðernis en vart allri þjóðernisstefnu.

Það er einna helst í Þýskalandi og Svíþjóð að öll þjóðernisstefna var fordæmd sem fasismi. Þessi staðhæfing Eiríks er þess furðulegri að hann viðurkennir að til séu ýmis konar afbrigði af þjóðernisstefnu.

Hann segir réttilega að á átjándu öldinni og langt fram á þá nítjándu hafi þjóðernistefnu verið mikilvægasti þátturinn í baráttunni fyrir lýðræði og gegn einvöldum konungum (Loc 688).

Hann viðurkennir líka að þjóðernisstefna hafi gegnt mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn nýlendukúgun (loc 692). En hann hefði mátt nefna að þjóðernissinnaðir ráðamenn í nýfrjálsum ríkjum fylgdu oft heimskulegri þjóðrembu-efnahagsstefnu.

Um leið hefði hann mátt nefna að hin lýðræðislega þjóðernisstefna hefur aldrei horfið, hún lifir t.d. góðu lífi í Noregi.

Í ljósi þessa má telja undarlegt að Eiríkur gefi öfgafullum popúlistum og rasistum einkarétt á þjóðernisstefnu.

Það er ekki einu sinni víst að rasismi sé afurð þjóðernisstefnu, Gobineau greifi, upphafsmaður nútíma rasisma, hataðist við þjóðernisstefnu og taldi hin samevrópska aðal vera æðri kynþátt.

Heimspekingurinn Hannah Arendt taldi að rasismi nasista hefði alls ekki verið af þjóðernistoga Ég er ekki sammála, nasisminn var öfgaþjóðrembustefna.

En eins og gefið var í skyn eru til miklu þekkilegri útgáfur af þjóðernisstefnu. Mig minnir að kanadíski hemspekingurinn Kai Nielsen segi eitthvað á þessa leið: Þjóðernissinni af betri gerðinni skammast sín fyrir misgjörðir landa sinna rétt eins og foreldrar skammast sín fyrir misgjörðir barna sinna.

Og rétt eins og foreldrarnir bera ábyrgð á börnum sínum án þess að fyrirlíta annarra manna börn ber góði þjóðernissinninn ábyrgð á löndum sínum án þess að líta niður á aðrar þjóðir.

Hvort sem Nielsen sagði þetta eður ei þá er þetta mjög vel mælt. Í ljósi þess er misráðið af Eiríki að tala um „neo-nationalism“. Hann hefði átt að láta sér nægja að kalla það bara „nativist populism“.

Hvað um það, Eiríkur nefnir tvo mjög ólíka sérfræðinga um þjóðernisstefnu í sömu setningu, þá Ernst Gellner og Anthony D. Smith og kallar báða „konstrúktívista“, það er menn sem telja að þjóðerni og þjóðernisvitund séu tilbúningur (loc 740).

Þetta gildir um Gellner en varla um Smith. Eiríkur talar eins og Smith noti orðin „ethnie“ og „nation“ í sömu merkingu en það er ekki rétt.

„Ethnie“ notar hann um „stórættbálka“ sem gátu hverfst í þjóðir m.a. vegna þess að meðlimir þeirra áttu sameiginlegar hugmyndir um föðurland og sameiginlegar goðsögur (oft um upphafsmenn ættbálksins).

Stórættbálkur sem áttu síður öflugar goðsögur og sameiginlega siði hurfu flestir þegar öld þjóðanna hófst. Smith er því ekki konstrúktivisti, hann hafnar þeirri kenningu Gellners að þjóðir hafi verið skapaðar úr engu.

Stórættbálkar eru að Smiths mati forverar þjóðanna og efnið sem þær voru skapaðar úr. Eða skyldi það vera tilviljun  að meginrit hans heitirThe Ethnic Origin of Nations? Hefði konstruktivisti skrifað bók með slíku heiti, "etnískan uppruna þjóða"?

Eiríkur segir að hnattvæðingin hafi haft í för með sér aukin ójöfnuð og það sé að einhverju leyti skýring á auknu fylgi popúlista (loc 545)

Hann hefði mátt bæta við að um leið hafa lífskjör almennings í BNA og víðar fremur versnað en hitt, hvort sem það er hnattvæðingunni að kenna eða einhverju öðru.

Auk þess segir hann að íbúum ryðbeltisins ameríska hafi fundist þeir missa reisn sína þegar stormar hnatvæðingarinnar feyktu verksmiðjunum burt (Loc 4765).

Þetta fólk glataði ekki bara reisn heldur fé, lífskjörin versnuðu þegar störfin hurfu en Eiríkur nefnir þessa kjararýrnun ekki.

Það er ekki síst hennar vegna sem ryðbeltisbúar urðu margir hverjir veikir fyrir áróðri Donalds Trump. Sá kenndi Kínverjum um ósómann  í þjóðernispópulískum stíl.

Sumir fræðimenn telja að vélmennavæðing iðnaðarins beri meginábyrgð á þessari þróun.

Hvað um það, Eiríkur segir beinum orðum að stuðningur við hægriöfgaflokkinn þýska, AfD, komi helst frá „backward looking losers of globalization (loc 3281).

Það eru einmitt svona niðrandi ummæli um fólk sem rekur marga í faðminn á þjóðernispopúlistum.

Hvað með rétthugsunina? Eiríkur talar eins og öll gagnrýni á innflytjendur og flóttamenn sé menningarrasismi. Hann býsnast yfir löggjöf í Danmörku um endurfundi fjölskyldna flóttamanna og innlfytjandi.

Lögin kveða á um að eiginmenn eða -konur verði að vera a.m.k. tuttuguogfjögurra ára til að mega flytjast til Danmerkur (loc 2728).

Þetta þykir Eiríki hneykslanlegt en hann nefnir ekki að lögum af þessu tagi er ætlað að koma í vegir barnabrúðkaup vegna fenginnar reynslu. Auðvitað kann þetta að vera átylla og raunverulega ástæðan verið menningarrasismi en sönnunarbyrðin er Eiríks. 

Meðan ég man: Er það menningarrasismi að gagnrýna kvennakúgun og hommafóbíu?

Enn spyr ég: Getur verið að hnattvæðingaráróðurinn í byrjun aldarinnar hafi gengið svo langt að ýmsir hafi brugðist öfugt við og orðið öfgafullir þjóðrembungar?

Lokaorð.

Eiríkur bendir réttilega á að þjóðernispopúlistar sjái heiminn í svart og hvítu en hefur kannski hneigð í sömu áttina, hneigð til að sjá heimamenn sem menningarrasista og innflytjendur sem saklaus fórnarlömb, þjóðernisstefnu sem afl hins illa og alþjóðastefnu sem alhelga stefnu.

Kannski er ég að gera honum upp skoðanir og legg áherslu á að ég ræði hér um hneigð, ég segi ekki að öll mynd hans af heiminum sé svart-hvít.

Alltént er að jafnaði ófrjótt að skoða heiminn í svörtu og hvítu, hann er hrikalega grár.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Magnús Einarsson Smith skrifaði
    Eiríkur hefur undanfarin ár verksmiðu framleitt bækur og greinar sem í raun eru allar eins Hann Afneitaði til að mynda Tölfræði frá greiningar deild sænsku Lögrelunar um aukna glæpatíðni í kjölfarþess að Svíar opnuðu landamæri sín uppá gátt - sagði eimitt að þær væru skýrt merki um Menningar rasisma. Eiríkur hafnar þeirri kenningu að það sem einkenni þjóðríki séu landamæri þess og þau ríki sem kjósa að verja eigin landamæri fá umsvifalaust Öfgaþjóðernis stimpilinn - Viðbrögð ríkja innan EU við Covid faraldrinum í raun kollvörpuðu hugmyndafræði Eiríkis og gerðu að engu megin þorra þess sem hann hefur haldið á lofti í skrifum sínum því það fyrsta sem ríkin gerðu var eimitt að verja það sem gerir þau að ríkjum -eigin landamæri. Eiríkur er því miður einn af þeim fræðimönnum sem eru svo trúaðir á eigin skoðanir að sjóndeildarhringur þeirra þrengist og þrengist þangað til að lokum þeir hætta að sjá neitt nema sína sýn á hlutina og um leið verður allt annað að menningarrasisma
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu