Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

DYLAN ÁTTRÆÐUR 24 MAÍ

DYLAN ÁTTRÆÐUR 24 MAÍ

Ég skrifaði um hann fimmtugan, sextugan, sjötugan, sjötiuogfimm ára, nú áttræðan.

Hver er hann? Hver veit?

Hann er Bob Dylan en líka Robert Allen Zimmerman, líka mr. Tambourine Man, líka Jokerman, líka Judas Priest. Hann er stórskáld en um leið  lélegur kántrímúsíkant, snillingur og dólgur í senn.

Söngvaskáld.

Hann  er fyrst og fremst söngvaskáld. Í verkum hans  haldast lög og textar í hendur,  sjaldnast er hægt að meta texta hans einangraða frá tónlistinni. Athuga ber hvort lag og texti hæfi hvort öðru.

Enginn neitar því að rímur séu bókmenntaverk, samt er illmögulegt að meta þær nema að heyra þær kveðnar. Orð og söngl eru eitt í rímum, rímnaskáldin voru söngvaskáld.

Dróttkvæðin hafa örugglega verið flutt með líkum hætti, gaman væri ef einhver reyndi að endurgera kveðandi þeirra  og kveða opinberlega.

Hómer hóf Ilionsrímur, ég meina Ilíonskviður,  með því að söngla „Syngdu sönggyðja…“, Sveinbjörn Egilsson þýddi svona: „Kveð, þú gyðja…“ Rétt eins og hún hafi lesið ljóðin upp á samkomu menningarvita.

Sveinbjörn þýðir þetta eftir að tengsl söngs og ljóða höfðu  rofnað. Hann athugaði ekki að forngrikkir greindu ekki skarplega milli ljóða og söngs, forngrísk ljóð virðast ávallt hafa verið flutt með undirleik, söngluð eða sungin.

Dylan reynir að endurvekja þessa hefð, kveða nútímarímur. Vissulega er hann ærið mistækur textahöfundur, sumir textar og lög alger hryllingur  (fáir neita því að Ezra Pound hafi verið meginskáld, samt eru sum kvæða hans hreint og beint léleg).

En oft virðist Dylan  vera meðvitað banal, eins og hann sé að rjúfa með því múrinn milli hálistar og láglistar, gefa hálistinni einn á hann (nægir að nefn hið þrælhæðna I‘ll be Your Baby Tonight á plötunni John Wesley Harding).

Ekki ósvipað því sem Marcel Duchamp gerði þegar hann stillti hlandskál út sem höggmynd og kallaði „Brunn“. Hlandskálin var skjannahvít rétt eins og höggmyndir manna á borð við Bertel Thorvaldsen.

Duchamp vildi gefa þessari tilgerðarlegu (?)  list vel útilátið vandarhögg.

Þeir sem telja uppákomu Duchamps af hinu góða ættu að skilja að sum af kántrípopp-lágkúrulögum Dylans gegna svipuðu hlutverki: Að fá okkur til að hugsa um hvað list  eiginlega sé.

Þegar Alexander Calder birtist fyrst á listasviðinu með „móbíla“ sína var deilt um hvort kalla skyldi þá „höggmyndir“ eða telja þá tilheyra nýrri myndlistargrein, „hreyfilist“, Hið síðarnefnda varð ofan á.

Með ekki ósvipuðum hætti má segja að Dylan hafi endur-uppfundið fornt bókmenntaform, söngl-ljóða-formið. Og þróað það með nýjum hætti.

Samt eru sumir af textum Dylans þess eðlis að vel má lesa þau eins og  ljóð. Verulega góðan kveðskap!  Nægir að nefna Mr. Tambourine Man, Desolation Row, Sad-Eyed Lady of the Lowlands Visions of Joanna, Changing of the Guards og Mother of Muses.

Í bestu textum sínum tekst Dylan að sameina módernísk áhrif og þjóðlaga/kántrí-stef. Súrrealismi á hestbaki með banjó í hönd!

Merkilegt dæmi um þetta er Lily, Rosemary and the Jack of Hearts á plötunni Blood on the Tracks. Við fyrstu hlustun  virðist textinn eins og handrit að vestra, það er sögð að því er virðist venjuleg saga um atburði í villta vestrinu.

En nánari hlustun/lesning sýnir að þetta er einhvers konar módernískur  vestri, The Jack of Hearts er bæði raunverulegur þorpari og óraunverulegt tákn fyrir….hvað?

Þessi texti er þess eðlis að ekki er vitlegt að lesa hann ótengdan tónlistin, hún og textinn mynda æðri einingu.

Svipað gildir um annan megintexta Dylans, It‘s Allright, Ma (I‘m Only Bleeding), svo ekki sé talað um Masters of War. Dylan lyftir textanum í æðri veldi með mögnuðum flutning á plötu sinni Freewheelin‘.

Ljótur texta-andarungi verðu fagur söngva-svanur!

Rough and  Rowdy Ways

Dylan gekk heldur betur í endurnýjun lífdaga í fyrra er hann gaf út plötuna Rough and Rowdy Ways. Röddin dásamlega rám, tónlistin allra handa, rokk, blús, og ballöður.  Textarnir flestir afargóðir.

Hann vitnar í Walt Whitman í heiti lagsisn I Contain Multitudes, setningin er ættuð úr Song for Myself eftir Whitman. Enda eiga þeir ýmislegt sameiginlegt, til dæmis er textinn við  Hard Rain‘s A-Gonna Fall í whitmönskum flæðistíl.

Í laginu I Contain Multitudes lýsir ljóðmælandinn (Dylan sjálfur?) sér sem íláti fyrir fjöldann allan af listamönnum, lífsháttum og persónuleikum.

Ekki bara íláti heldur manni sem orðið  hefur fyrir fjöldanum öllum  af áhrifum og hefur marga fjöruna sopið.

Er samsettur úr mörgum þáttum, mörgum sjálfum.

Dylan hefur löngum verið gefinn fyrir tilvísanir í jafnt há- sem lágmenningu, í textunum á Rough and Rowdy Ways úir og grúi af slíkum  tilvísunum.

Finna má tilvísanir í Shakespeare í setningunni „winter of my discontent“ í My Own Version of You. Ríkharður þriðji talar um þennan vetur í upphafi leikritsins sem Shakespeare reit um hann.

Og heiti lagsins Murder most Foul er ættað úr Hamlet, faðir Hamlets afturgenginn segir stráksa að hann hafi verið myrtur.

Ekki er örgrannt um að Dylan gefi í skyn í textanum að Kennedy hafi verið fórnarlamb samsæris, rétt eins faðir Hamlets.

En textinn fjallar samt að ekki óverulegu  leyti um sögu dægurtónlistar frá dögum morðsins, tímabil Dylans sjálfs. Besta lagið á plötuna er hið undurfagra Mother of Muses. Ballaða í sálmastíl og  textinn með því besta sem Dylan hefur ort. Hann vísar í Hómer:

„Mother of Muses sing for me

sing of the muntains and the deep dark sea…“

Ljóðmælandi segist vera ástfanginn af Kallíópu en sú var leiðtogi listgyðjanna (e. the muses) í grískri goðafræði.

„Mother of Muses, unleash your wrath

Things I can‘t see, they‘er blocking my path…“

 Enn og aftur vísar Dylan í Hómer í Crossing the Rubicon, „I got up early so I can greet the Goddess of dawn“, Hómer yrkir um hina rósfingruðu morgungyðju. Texti Dylans er einfaldur en margræður í senn, ljóðmælandinn virðist ætla að myrða persónu sem hann ávarpar.

Enn birtist tilvísun í Hómer í My Own Version of You, þar er talað um konurnar og börn Trójuborgar sem hneppt voru í þrælahald eftir sigur Akkea (Grikkja). Ekki er snefill af Hómer í I‘ve Made Up My Mind To Give Myself To You.

Kannski ástaróður en einhver spekingur bendir á þann möguleika að Dylan fjalli hér um samband sitt við aðdáendur sína. Hann hafi ákveðið að gefa þeim sjálfan sig, kannski þess vegna er hann stöðugt að túra, háaldraður maðurinn.

Hinn aldni þulur lítur yfir farinn veg á plötunni, segist vera fæddur vitlausu megin við járnbrautateinanna eins og Jack Kerouac, Allen Ginsberg og fleira stórmenni (í Key West (Philosopher Pirate).  

Með öðrum orðum: Dylan eða ljóðmælandi tilheyra flokki uppreisnarmanna.

Jafnt mannkyns- sem menningar- sem ævisagan eru honum hugleikin. Þessar sögur vefjast hver inn í aðra á plötunni.

Dylan sér sig sjálfan sem sporgengil Hómers og skyldmenni Whitmans og Shakespeares en líka Rolling Stones, Woody Guthries og allra handa kántrísöngvara. Að ógleymdum blúsgítarleikarnum Jimmy Reed sem fjallað er um í Goodbye Jimmy Reed.  

Dylan og Rorty

Árið 2014 birtist fræðileg grein eftir mig um Dylan í bandaríska tímaritinu Journal of Aesthetic Education ("Dylan as a Rortian").

Hygggst ég hér rekja megininntak hennar og bæta ögn við um nýju plötuna. Í greininni  bar ég Dylan saman við bandaríska heimspekinginn Richard Rorty  (1931-2007) sem kenna má við pragmatisma og póstmódernisma. Niðurstaða mín var sú að þeir ættu ýmislegt sameiginlegt.

Rorty hélt því fram að við gætum endurskapað sjálf okkar með því að finna upp nýjan orðaforða (í víðri merkingu: táknforða).

Engu líkara er en að Dylan hafi tekið hann á orðinu. Hann hefur stöðugt skipt um ham, frá mótmælasöngvara með meiningar yfir í dularfulla skáldrokkarann, umhyggjusama heimilisföðurinn, kántrísöngvarann, hákristilega halelújakarlinn, dygga Gyðinginn,  o.s.frv.

Eins og títt er um heimspekinga skapaði Rorty sinn eigin orðaforða:  Frjálslyndur er sá maður sem hefur andstyggð á grimmd, frjálslyndur háðfugl (e. liberal ironist) veit að ekki er hægt að sanna að rétt sé að draga úr grimmd.

Háðfuglinn veit að ekki er hægt að sanna pólitísk hugmyndafræðikerfi, hann veit að hann er hluti af tilteknum menningarheimi og samsamar sig honum. 

Dylan hefur verið efins um ágæti stjórnmála, í kvæðabálknum ‘Some Other Kinds of Songs’ segir hann “there are no politics”. 

Hann hefur yfirleitt forðast hátimbruð pólitísk hugmyndafræðikerfi og segir í öðrum kvæðabálki  11 Outlined Epitaphs:

  “There is no right wing or left wing … there is only upwing an’ downwing”.

Á nýjustu plötunni segir í Key West (Philosopher Pirate)

“I’ve never lived in the land of Oz or wasted my time with an unworthy cause”.

Oz er fantasíuland úr Hollywoodmynd, túlka má þessa setningu sem yfirlýsingu um að Dylan eða ljóðmælandi sé ekkert fyrir pólitíska draumóra og eyði ekki tíma sínum í að berjast fyrir fáránlegum málstað.

Um leið hefur hann löngum barist  gegn grimmd án þess að halda að hægt að ígrunda þá barátta, hann er frjálslyndur háðfugl.

Í  Masters of War syngur hann af mikilli innlifun um vonskuverk stríðsóðra leiðtoga og stríðsgróðamanna. Hann hefur líka andæft rasískri grimmd, t.d. í Blowin’ in the Wind. Og gegn pólitískri grimmd almennt í Murder Most Foul.

Ekki verður séð af textanum að hann hafi beinlínis fylgt stefnu Kennedys, hvað þá öðrum stefnum:

“Freedom oh freedom. Freedom cover me. I hate to tell you mister, but only dead men are free”.

Ögn eins og hann sé hæðast að frelsisjarmi frjálshyggjunnar.  

En í My Own Version of You er talað (sungið) um staðinn þar sem

“…the best-known enemies of mankind dwell Mr. Freud with his dreams, Mr. Marx with his ax”.

Ekki flatterandi lýsing á tveimur af helstu skurðgoðum sextíuogátta-vinstrimanna.

Lokaorð

Hvað um það, tónlist hans hefur verið hljóðspor míns lífs, textarnir orð-sporið.

Gott er að þekkja Dylan af orðspori hans.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu