BÓKIN „FRJÁLSHYGGJA OG ALRÆÐISHYGGJA“. RITDÓMUR 2.0. síðari hluti.
Í þessum hluta hyggst ég ræða skrif Ólafs um Friedrich von Hayek, spurninguna um velferð, lýðræði og markaðsfrelsi, einnig um hugtökin hlutleysi og hlutlægni, að ógleymdum hugtökunum um frjálshyggju og alræðishyggju.
Bókstafstrú á verk Hayeks.
Nú skal sjónum beint að skrifum Ólafs um Friedrich von Hayek. Ólafur virtist hafa trúað bókstaflega öllu sem Hayek sagði um áætlunarbúskap.
Hann væri leiðin ánauðar (alræðis), bæði nasista- og kommúnistakerfið hafi orðið alræðiskerfi vegna þess að þau hefðu stundað áætlunarbúskap.
Ég tel þessa kenningu ranga, byrjum á kenningunni um að áætlunarbúskapur og önnur róttæk ríkisstýring efnahagsins sé leiðin til alræðis.
Í einn stað getur hún ekki skýrt hvers vegna Bretar og Bandaríkjamenn komu á ríkistýrðu efnahagskerfi á stríðsárunum án þess að skerða lýðréttindi að ráði.
Í annan stað skýrir hún ekki hvernig Alexander Dubcek gat veitt Tékkum og Slóvökum tjáningar- og félagsfrelsi án þess að afnema áætlunarbúskap og einkavæða fyrirtæki.
Mikael Gorbasjov gerði slíkt hið sama, Pólverjar gátu haldið lýðræðislegar kosningar árið 1988 þótt ríkið stjórnaði enn 90% efnahagskerfisins.
Í þriðja lagi komu Suður-Kóreumenn á lýðræði án þess að afnema áætlunarkerfið kóreska. Einræðisherrann Park Chung-Hee kom á slíku kerfi og notaði vald sitt til að neyða smáfyrirtæki til að sameinast í risafyrirtæki (chabol), þekktust þeirra eru Samsung og Huyndai.
Og sjá! Miklar efnahagsframfarir urðu í Suður-Kóreu á árum áætlanakerfisins sem var takmarkað, ekki altækt eins og hjá kommúnistum. Hið sama var upp á teningnum í Tævan. Það er því rangt að áætlanakerfi hljóti að vera leiðin til fátæktar, takmarkað áætlanakerfi getur verið hagkvæmt undir vissum kringumstæðum.
Suður-Kórea iðnvæddist bak við háa tollmúra, það gerðu Bandaríkin, Bretland og Þýskaland líka. Þannig getur sú takmörkun markaðsfrelsis sem felst í tollmúrum verið efnahagslega hagkvæm við viss skilyrði.
Hvorki Hayek né Ólafur skildu það. Hayek hafði líka á röngu að standa er hann taldi að takmarkað áætlanakerfi myndi hafa tilhneigingu til að verða altækt, ella gæti það ekki virkað.
Hann hefði átt að segja Suður-Kóreumönnum og Tævanbúum það, þeirra áætlunarkerfi var ávallt takmarkað og afnumið í fyllingu tímans. Hið sama gildir um franskan og norskan áætlunarbúskap á fyrstu á árunum eftir stríð, þess utan var um að ræða áætlunarbúskap í lýðræðisríkjum en ekki sálgaði hann lýðræðinu þeirra.
Ólafur ræðir reyndar takmarkaðan áætlunarbúskap Breta skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari og telur hana hafa einkennst af ansi miklu stjórnlyndi. En hann styðst bara við eina heimild, bók eftir hinn harðsoðna frjálshyggjuhagfræðing John Jewkes (bls. 202-205).
Hefði ekki verið betra að líta líka á hvað fylgismenn breska áætlunarkerfisins höfðu til málanna að leggja? Hvað sem því líður þá bendir það, sem hér segir um áætlunarbúskap, til þess að markaðsfrelsi sé ekki nauðsynleg forsenda almenns frelsis.
Lítum á það sem Hayek skrifar um nasisma og kommúnisma og hvernig Ólafur bergmálar þau skrif. Næstum allt sem Hayek og Ólafur segja um það er vafasamt, jafnvel rangt:
Í fyrsta lagi voru kommúnistar og nasistar orðnir alráðir áður en áætlunarbúskapur komst á koppinn (flokksræði komma kom fyrst, svo þjóðnýting, hún var því ekki orsakavaldur alræðisins, gagnstætt því sem Ólafur heldur bls 199).
Í öðru lagi artaði áætlunarbúskapur sig öðru vísi í kerfum þeirra. Hjá kommúnistum var hann altækur og honum komið á vegna kreddutrúar. Hjá nasistum var hann ekki altækur og einungis tæki til hervæðingar.
Hann var rekinn með fulltingi risafyrirtækja í einkaeign en 2/3 af starfsmönnum áætlunarkerfisins voru að sögn Martin Kitchens jafnframt starfsmenn risafyrirtækisins I.G. Farben (Kitchen 1976: 55).
Fyrir utan Auschwitz getur að líta mikla verksmiðju sem var í eigu I.G. Farben, starfsmennirnir voru þrælar í Auschwitz.
Auk þess hóf Hitler ferill sinn með því að einkavæða fjölda ríkisfyrirtækja og fetaði með því í fótspor Mússólínís (Hayek nefnir ekki þessa einkavæðingu aukateknu orði) (Bel 2010: 34-55 og Bel 211: 937-956) .
Nasistar þjóðnýttu ekkert nema eigur verkalýðsfélaganna og Hitler lofsöng samkeppni og einkaframtak í ræðu sem hann hélt tveimur árum eftir valdatöku sína (Hitler 1936: 11).
Hvorki nasistar né fasistar mörkuðu skýra efnahagsstefnu, þeir voru tækifærissinnar á efnahagssviðinu, einnig í trúmálum. Gagnstætt kommúnistum.
Nasistar höfðu vissulega sínar kreddur en þær mynduðu ekki heildrænt hugmyndafræðikerfi, gagnstætt kreddum kommúnista. Þær voru helstar Gyðinga- og kynþáttahatur, hatur á kommúnistum og lýðræði, dýrkun á Hitler, þýsk þjóðremba og öldungis ódíalektísk stríðshyggja.
Af því sem hér hefur verið sagt er engan veginn gefið að frjótt sé að spyrða kommúnisma og nasisma saman.
Meðan ég man: Ýmsir fræðimenn halda því fram að þrælaverslun Vesturlandabúa hafi verið í öllum megindráttum markaðsfrjáls en hún kostaði milljónir manna lífið (t.d. Harari 2014: 169-170).
Sé þetta rétt þá er sú kenning röng að markaðsfrelsi sé ávallt burðarás frelsisins.
Velferð og lýðræði.
Það er heldur ekki sennilegt að velferðarríkið sé möguleg leið til alræðis eins og Hayek og Ólafur töldu ekki ósennilegt (bls. 69). Frjálshyggjumenn tala eins og borgarar velferðarríkisins séu froskar sem soðni hægt og sígandi í potti.
En nú hefur velferðarríkið verið við lýði um allmargra áratuga skeið án þess merki sjáist um alræðisvæðingu. Á vissum sviðum hefur frelsi manna aukist í velferðarríkinu, t.d. giftingarfrelsi (það þýðir ekki að velferðarríkið hljóti að hafa orsakað slíka frelsisaukningu, bara að hún er samþýðanleg því).
Hayek og félagar hafa verið efins um ágæti lýðræðisins, talið það mögulegan ógnvald hins ginnhelga markaðar. Einræði geti stundum tryggt frelsi betur en lýðræðið, Hayek lofsöng einræði Pinochets.
En það skýrir ekki hvers vegna Svisslendingar hafa búið við mun víðfeðmara lýðræði en aðrar þjóðir og tiltölulega frjálsan markað um langt skeið.
Auk þess hefur írski heimspekingurinn Philip Pettit leitt veigamikil rök að því að einræði sé ekki samþýðanlegt frelsi.
Frelsi er að hans hyggju frelsi undan forræði, í einræðisríki séu menn háðir duttlungum einræðisherrans og lúti því forræði hans þótt hann gefi þeim kannski talsvert sýndarfrelsi (Pettit 1997).
Hugtakabrengl?
Það sem hingað til hefur verið sagt þýðir að eitthvað hlýtur að vera bogið við greiningu Ólafs milli alræðis- og frjálshyggju.
Hann lýsir veraldarsögunni á tveim blaðsíðum (!!) sem eilífri baráttu þeirra, baráttu hins illa og hins góða (bls. 96-98). Spyrja má hvort Ólafur hafi ekki með þessu boðað e.k. söguhyggju, þvert gegn vilja sínum.
Spurt er: Þekkti Ólafur öll samfélög í fortíð og nútíð? Ef ekki, hvernig gat hann þá alhæft og sagt að nánast öll samfélög fortíðarinnar hafi verið af alræðistagi?
Hjá svokölluðum frumstæðum þjóðum er sjaldnast að finna stigveldi, hjá sumum þeirra má finna e.k. lýðræði en Ólafur heldur að þau hlytu að hafa lotið alræðisvaldi ættarhöfðingjans (bls. 194) (þessa kenningu hefur hann líklega frá Popper).
Reyndar getur verið erfitt að alhæfa um slíkar þjóðir, gagnstætt því sem þeir nafnarnir Karl Marx og Popper héldu (um gagnrýni á slíka alhæfingu, sjá Spinner 1978).
En gildi ekki slíkt hið sama um öll samfélög? Ólafur ásakar „alræðissinna“ fyrir að vera baráttuhyggjumenn, þeir sjái söguna sem baráttu tveggja afla, allt sé þeim ýmist hvítt eða svart (t.d. bls. 103-105).
Baráttuhyggjan sé ein leið til alræðis. Sé svo þá eru skoðanir Ólafs sjálfs leið til alræðis!
Þess utan segir meintur greinarmunur alræðis og frjálshyggju okkur afar lítið um ýmsar stjórnmálastefnur, álíka lítið og greining dólgamarxista milli þess sem borgaralegt er og þess sem er í anda öreiganna.
Hvar á að flokka hófsama jafnaðarmenn eða sósíallíberala Norðurlanda, hvað um vinstrianarkista? Á erlendum tungum er greint milli frjálslyndisstefnu (e.liberalism) og frjálshyggju (e. libertarianism, no. markedsliberalisme) en þann greinarmun gerir Ólafur ekki.
Karl Popper og John Stuart Mill voru frjálslyndir fylgismenn blandaðs hagkerfis. Mill daðraði við hugmynd um e.k. markaðssósíalisma og eins og Ólafur segir réttilega vildi hann að ríkið hlutaðist til um tekjuskiptingu (bls. 75).
Þeir höfnuðu sem sagt kenningunni um ágæti markaðsfrjálsra hagkerfa og geta því ekki talist frjálshyggjumenn, samkvæmt mínum kokkabókum.
Samkvæmt þeim er sá einstaklingur frjálshyggjumaður sem vill veg markaðar og einkaframtaks sem mestan, ríkisins sem minnstan.
Bertrand Russell var frjálslyndur sósíalisti, Noam Chomsky frjálslyndur anarkisti. Að flokka þá með frjálshyggjumönnum er vafasamt, þeir vildu kapítalismann feigan, gagnstætt frjálshyggjumönnum á borð við Hayek.
Um leið væri fáránlegt að kenna þá við alræði. Því er skynsamlegt að kalla Russell og Chomsky vinstrimenn, Hayek og Ólaf hægrimenn. Athugum vinstrianarkista sem vilja kála ríki, markaði og einkaframtaki, og hægrianarkista sem vilja bara ríkið feigt.
Báðir eru frjálslyndir en muninum á þeim er best lýst með því að segja þá fyrrnefndu vera til vinstri, þá síðarnefndu til hægri. Greinarmunur milli vinstri og hægri er því alls ekki ófrjór þó ekki sé hann heilagur fremur en annað.
Á okkur dögum er vanalegt að tala um tvo meginása stjórnmála, efnahags- og menningarásin. Menn geti verið til hægri á menningarásnum en til vinstri á efnahagsásnum, nokkuð frjó nálgun að minni hyggju.
Við má bæta þriðja ásinum, vistásnum, græna ásnum. Menn geti verið ákveðnir umhverfisverndarsinnar en til hægri í efnahagspólitík og til vinstri í menningarefnum.
Ólafur heldur því fram að greining í frjáls- og alræðishyggju byggi á betur skilgreindum hugtökum en greiningin í vinstri og hægri, hugtökum um eignarhald á framleiðslutækjum (t.d. bls. 251).
Eitt er fyrir sig að hvað þetta varðar er Ólafur á svipuðu róli og marxistar. Annað er að það getur verið vandasamt að beita slíkum hugtökum í mörgum tilviki, hvaða þýðingu hafði eignaréttur í nasismanum?
Hverjir stjórnuðu efnahagslífinu, flokksbroddar og/eða risafyrirtækin? Ólafur vitnar í Michael Polanyi sem sagði að reynd hefðu forstjórar í sovéskum fyrirtækjum farið sínu fram og jafnvel hunsað áætlunargerð sem alls ekki hafi virkað (bls. 149).
Hverjir stjórnuðu þá efnahagslífinu sovéska? Skipti eignarhaldið öllu máli? Annað er að greiningin milli frjáls- og alræðishyggju er hluti af frjálshyggjunni, meðan greining í vinstri og hægri er hluti af sósíalískum viðhorfum.
Að velja annan kostinn er að fella pólitískan gildisdóm, segja að önnur stefnan sé hvað þetta varðar betri en hinn. Því er þessi greinarmunur ekki si sona bara hlutlægur eins og Ólafur virðist hafa haldið.
Og meðan ég man: Er greinarmunur minn milli kerfishugsunar hugmyndafræðinnar og andkerfishugsunar andhugmyndafræði nokkuð verri en greinarmunur milli frjáls- og alræðishyggju og vinstri og hægri?
Fer ekki eftir efnum og aðstæðum hvers konar dilkadráttur stjórnmálastefna sé bestur?
Yfirleitt er hugtakanotkun Ólafs því markinu brennd að öllu er skipað í annan tveggja flokka (flokk hins góða og hins illa) og skipunin stundum byggð á hreinni fáfræði.
Það gildir ekki síst um það sem sagt er um einstaklings- og heildarhyggju. Ólafur heldur að heildarhyggja sé verk andskotans og leið til alræðis, heildarhyggjumenn trúi því einstaklingur sé bara hluti af stærri, lífrænni heild eins og höndin er hluti af líkamanum.
Hann virðist ekki hafa vitað að það er „víðar Guð en í görðum“, til eru ýmsar útgáfur af heildarhyggju, sumar alræðiskenndar, aðrar ekki.
Frá Hegel er að langfeðgatali ættuð sú hugmynd að hugtökin um einstakling og samfélag séu samofin. Menn geti ekki öðlast einstaklingseðli nema með því að innhverfa sýn annarra á sér og lært eitthvert tungumál en þau eru félagsleg í eðli sínu.
Félagsmótun sé einstaklingsmótun. Svonefnd úlfabörn, sem ekki hafa verið félagsmótuð, séu eins og dýr, án einstaklingseðlis.
Þessari kenningu hafa verkhyggjumenn (e. pragmatists) haldið mjög á lofti, ekki síst bandaríski fræðimaðurinn George Herbert Mead (var hann kannski vondur alræðissinni?) (Mead 1962).
Landi hans, heimspekingurinn Dan Dennett, heldur því fram að einstaklingssjálfið sé e.k. blekking, í besta falli laustengt bandalag heilastöðva (t.d. Dennett 1992: 275-288).
Aðrir segja að einstaklingurinn sé flest annað en konkret, hann breytist stöðugt og skipti jafnvel um sjálf í tímans rás. Er ég sá sami og ég var fjögurra ára gamall? Er kalkað gamalmenni um nírætt sama persónan og það var um fimmtugt þegar heilinn var í góðu lagi?
Það er því nákvæmlega ekkert handfast við einstakling, gagnstætt því sem Ólafur segir (bls. 22). Af þessum sökum og öðrum er líklegt að hvorki einstaklingur né samfélag séu grundvallareiningar mannlífsins.
Líkast til er ekki til nein slík eining. Ólafur staðhæfir að heildarhyggjumenn noti illa skilgreind hugtök, t.d. kenni tveir íslenskir stjórnmálaflokkar sig við alþýðu án þess að skilgreina hugtakið (bls. 82).
Hvað hefur þetta með fræðilega heildarhyggju að gera? Þetta nálgast rök gegn strámönnum, þess utan ofreynir Ólafur sig ekki á hugtakaskilgreiningum. Hann notar oft hugtakið um nauðsyn en það er aldrei skýrt hvort nauðsynin sé rakaleg eða orsakakyns.
Er markaðskerfi röklega nauðsynleg forsenda frelsisréttinda eða orsakar það sköpun og varðveislu þessara réttinda? Bókin gefur ekkert svar.
Ekki bætir úr skák að hann greinir ekki milli verufræðilegra og aðferðafræðilegra einstaklings- og heildarhyggju.
Fleiri dæmi er um vafasama notkun hugtaka í bók Ólafs, jafnvel hugtakabrengl. Frelsishugtakið er afgreitt með því að segja að frelsisskilningur frjálshyggjunnar sé sá eini rétt, alræðissinnar slái um sig með frelsisfrösum en þeirra frelsis-misskilningur sé leiðin til alræðis.
Hugtökin eru vægast sagt illa skilgreind, Ólafur virðist ekki hafa vitað að til er mýgrútur misgáfulegra kenninga um frelsið.
Hugmyndin um getufrelsi, þ.e. að frelsi sé máttur til framkvæmda, hefur verið gagnrýnd af frjálshyggjumönnum og frjálslyndissinnum og verið jafnvel afgreidd sem alræðiskenning.
En til eru ýmsar útgáfur af getufrelsi, t.d. útgáfa Charles Taylors. Hann segir að frelsi geti ekki bara verið spurning um fjarveru ytri tálmana eins og frjálshyggjumenn segja. Tala slíkra tálmana sé óendanleg, gildismat okkar hljóti að ráða miklu um hvaða tálmanir séu mikilvægar eða léttvægar. Þess utan verði menn að hafa innra frelsi, vera t.d. ekki þrúgaðir af þýlyndi (Taylor 1996: 211-229).
Hvað sem segja má um þessa hugmynd þá verður alræðisstimplinum ekki klínt á hana. Heldur ekki á áðurnefnda kenningu Petttits um frelsi sem forræðuleysi.
Niðurstaðan er sú að lítið gagn er í kenningunni um að meginás stjórnmálanna snúist um frjáls- og alræðishyggju.
Hlutleysi og hlutlægni.
Ólafur gerir kenningar Webers um hlutleysi vísinda að umtalsefni og gefur mjög villandi mynd af þeim. Hann heldur að Weber hafi trúað því að vísindi gætu verið öldungis hlutlaus (bls. 154-156).
Vissulega gefur Weber það stundum í skyn (t.d. Weber 2011: 69-115).
En í umfangsmestu skrifum hans um málið kemur fram að hann telur ekki að vísindi geti verið hlutlaus miðað við gildismat.
Vísindamenn verði að taka sannleika fram yfir ósannleika, góðar kenningar fram yfir slæmar kenningar, sanngirni fram yfir ósanngirni. Með því móti hlyti góður vísindamaður að fella gildisdóma, amstur hans geti ekki verið hlutlaust miðað við gildismat (reyndar var Popper var sömu skoðunar (t.d. Popper 1976: 87-104).
Auk þess marki menningarverðmæti með nauðsyn stefnu félagsvísinda, á hans dögum sé spurningin um sósíalisma snar liður í menningarverðmætum og því eðlilegt að félagsvísindamenn beini sjónum sínum að þeim ((Weber 1971: 161-219 og Weber án ártals).
Bæta má við að á okkar dögum er fremur spurt um kvenréttindi enda eru kvennarannsóknir mikilvægar innan félagsvísinda nútímans. Þannig geti félagsvísindin ekki verið öldungis hlutlaus um menningarverðmæti.
Weber taldi hins vegar að fræðimaðurinn ætti og gæti látið eiga sig að stunda beinan og milliliðalausan áróður í greinum og fyrirlestrum. Kenningar hans vógu því salt milli hlutleysis- og hlutdrægnishyggju.
Ólafi til varnar skal nefnt að hann ræðir stuttlega gagnrýni Gunnars Myrdals á hlutleysishugmyndir um félagsvísindi og tekur undir sumt af því sem Myrdal segir (bls. 107-108).
En yfirleitt talar hann eins og hlutdrægnishyggjumenn væru illmenni og heimskingjar sem vildu gera félagsvísindin að hreinum áróðri. Þessi „gagnrýni“ er á sama lága planinu og árásir hans á fylgismenn vinnugildiskenningarinnar.
Enn skiptir hann í tvennt, annars vegar hið góða og skynsama, í þessu tilviki hlutleysiskenningin, hins hið illa og heimskulega, hlutdrægniskenningin.
Ólafur hefði kannski átt að segja breska vísindaheimspekingnum Mary Hesse (prófessor í Cambridge) að hún væri illkvendi, heimskingi og alræðissinni.
Hún drýgði þá meginsynd að segja að ávallt væru vissar líkur á að pólitísk og siðferðileg hugmyndafræði „litaði“ vísindin. Ástæðan væri sú að vísindakenningar séu ávallt vansannaðar (e. underdetermined) af staðreyndum og því rúm fyrir hugmyndafræði (Hesse 1982: 98-115).
Nefna má að hinn þekkti greiningarspekingur Georg Henrik von Wright taldi að félagsvísindi gætu aldrei orðið alveg hlutlaus miðað við gildismat þar eð stór hluti þeirra hugtaka sem skapa samfélagið séu gildishlaðin (t.d. von Wright 1979: 32-47).
Skyldi von Wright, arftaki Wittgensteins í Cambridge, hafa verið fífl og alræðissinni?
Hvað um það, orðið „hlutlægni“ getur táknað tvö mismunandi hugtök, annars vegar hugtakið um fjarveru huglægni hjá rannsakanda, hins vegar það sem liggur í hlutarins eðli.
Orðið hlutleysi táknar önnur hugtök, í okkar tilviki hugtakið um „hlutleysi um gildismat“. Þessum þremur hugtökum sló Ólafur í einn bálk sem ekki er mjög skynsamlegt.
Hvað sem því líður er röklega mögulegt að fræðistarf sé hlutlægt þótt það sé ekki hlutlaust um gildismat. Ólafur nefnir kenningar Myrdals um að félagsvísindi séu háð gildismati en sér ekki rætur kenninga hjá Weber.
Ólafur segir að þótt efnisval vísinda og margt fleira sé háð gildismat þá megi samt vinna úr efninu með hlutlægum hætti. Því hafi Myrdal á röngu að standa (bls. 107-108).
Vandinn er sá að Ólafur sér ekki að um tvo mismunandi hugtök er að ræða. Ekki minni vandi er sá að ef fræðimenn á borð við Thomas Kuhn hafa á réttu að standa verður heldur lítið úr hlutlægni náttúruvísinda.
Kuhn sagði að burðarás þeirra vísinda væru viðtök og sérhvert viðtak hefði sína aðferðafræði, gildismat og mælikvarða á sannindi. Viðtökin væru að miklu leyti ósammælanleg og vísindalegur sannleikur því afstæður við viðtök.
Það þótt til væru til þumalfingursreglur um vísindalegar aðferðir sem ekki væru bundnar viðtökum en væri beitt með mismunandi hætti frá viðtaki til viðtaks (Kuhn 2015).
Enginn kannast við að Kuhn hafi verið alræðissinni eða fáviti þótt hann hafnaði að mestu leyti hugmyndinni um hlutlægni vísinda.
Niðurstaðan er sú að hlutleysi um gildismat sé hvorki mögulegt né æskilegt, vísindasamfélagið verður að jafnaði að meta sanngirni meir en ósanngirni, góðar kenningar meir en slæmar kenningar.
Hvort vísindaleg hlutlægni sé möguleg er engan veginn ljóst. Því er sennilega þrengri stakkur skorin í félags- en náttúruvísindum.
Lokaorð.
Ólafur mun hafa verið slyngur stærðfræðingur en stærðfræði leikur mikilvægt hlutverk í hagfræði. Hann hefur vafalaust unnið gott starf sem hagfræðingur.
En honum brást bogalistinn þegar hugmyndafræði og heimspeki voru annars vegar enda kannski vanur hinum gefnu frumforsendum (e. axioma) stærðfræði og hennar skýru niðurstöðum.
Gagnstætt því er fátt gefið og niðurstöður sjaldnast skýrar í heimspeki og pólitískri hugmyndafræði.
Það er ögn eins og tveir menn hafi skrifað bókina, hinn málefnalegi Ólafur frjálslyndissinni og hinn ofstækisfulli Ólafur frjálshyggjumaður.
Víkjum að öðru í lokin. Hvers vegna skrifa ritdóm um eldgamla bók eftir löngu látinn mann?
Ástæðan er m.a. sú að kenningarnar sem boðaðar eru í bókinni njóta enn hylli frjálshyggjumanna. Þótt Ólafur geti sjálfur ekki svarað gagnrýni minni þá efast ég ekki um að skoðanasystkin hans geti tekið upp hanskann fyrir hann.
Þau eru flest hver bókstafstrúar og dýrka kenningar fræðimanna á borð við Hayek, Mises, Friedmans, og Nozicks. Rétt eins og marxistar dýrkuðu kenningar Marx og fleiri nóta.
Ég hef sagt í rúm fjörutíu ár að frjálshyggja væri í ýmsum efnum skyld marxisma, nú fetar bandaríski íhaldsjálkurinn Robert Locke í fótspor mín og kallar hana „hægri-marxisma“ (Locke 2005).
Þess utan væru markaðsdýrkendur („frjáls“-hyggjumenn) vísir með að gefa bókina út á ný.
Á skal að ósi stemma.
Heimildir:
Bel, Germa (2010) „Against the mainstream: Nazi privatization in 1930′s Germany“, Economic History Review, 63 (1), bls. 34-55.
Bel, Germa (2011) “ The first privatization: Selling shoes and privatizing public monopolies in fascist Italy (1922-1925)“, Cambridge Journal of Economics, 35 (5), bls. 937-956.
Dennett, Dan C. 1992: “The Self as a Center for Narrative Gravity”, F. Kessel, and D. Johnson (eds.): Self and Consciousness: Multiple Perspectives, Hillsdale, NJ: Erlbaum, bls. 275-288.
Hararri, Yuval (2014): Sapiens. A Brief History of Humankind. London: Vintage.
Hesse, Mary (1982): “Science and Objectivity”, í Held, David og Thompson, John (ritstjórar): Habermas. Critical Debates. London og Basingstoke: MacMillan Press, bls. 98-115.
Hitler, Adolf (1935): Lighed giver fred (þýðandi Clara Hammerich): København: Hasselbalch.
Kitchen, Martin (1976): Fascism. London: MacMillan Press.
Kuhn, Thomas (2015): Vísindabyltingar (þýð. Kristján Guðmundur Arngrímsson). Reykjavík: HÍB.
Locke, Robert (2005): “Marxism of the Right”, The American Conservative, https://www.theamericanconservative.com/articles/marxism-of-the-right/ Sótt 20/11 2021.
Mead, George Herbert 1962: Mind, Self and Society. Chicago and London: University of Chicago Press.
Pettit, Philipp (1997): Republicanism. A Theory of Freedom and Government. Oxford: Oxford University Press.
Popper, Karl (1976): “The Logic of the Social Sciences”, í The Positivist Dispute in German Sociology (þýðendur Glyn Adey og David Frisby). London: Heineman, bls. 87-104.
Spinner, Helmuth (1978): Popper und die Politik. Berlin: Dietz Verlag.
Taylor, Charles (1996): "What is Wrong With Negative Liberty?", Philosophical Papers 2. Cambridge: Cambridge University Press, bls. 211-229.
Weber, Max (1971): „Samfunnsvitenskap og objektivitet,“ í Weber: Makt og byråkrati (þýðandi Dag Østerberg) Oslo: Gyldendal, bls. 161-219.
Weber, Max (2011): „Starf vísindamannsins“, í Mennt og máttur (þýðandi Helgi Skúli Kjartansson). Híb: Reykjavík, bls. 69-115 (upprunalega gefin út 1973).
Weber, Max (án ártals): „Der Sinn der Wertfreiheit der soziologischen und ökonomischen Wissen“ http://www.gleichsatz.de/b-u-t/begin/web52.html. Sótt 17/1 2012.
Von Wright, Georg Henrik (1979): „Humanism and the Humanities“. Annales Academicae Regiae Scientorum Uppsalienses 22, bls. 32-47.
Athugasemdir