BÓKIN „FRJÁLSHYGGJA OG ALRÆÐISHYGGJA“. RITDÓMUR 2.0. Fyrri hluti.
Hagfræðiprófessorinn og þingmaðurinn Ólafur Björnsson (1912-1994) var heiðursmaður.
Hann var snjall hagfræðingur og hugsjónamaður sem barðist gegn haftastefnu á þingi og ritvelli. Þá baráttu háði hann m.a. í bókinni Frjálshyggja og alræðishyggja frá árinu 1978.
Í þeirri bók boðaði Ólafur frjálshyggju og má telja hana fyrstu frjálshyggju-boðunarbókina á íslensku.
Víkur nú sögunni að undirrituðum. Ég ritdæmdi bókina í Dagblaðinu sáluga ungur angurgapi, bara 25 ára gamall. Er skemmst frá því að segja að ritdómurinn var bæði illa skrifaður og belgfullur af ungæðislegum kjánaskap.
Hyggst ég nú bæta fyrir brot mitt og skrifa alvöru ritdóm um bókina. Um leið vil ég nota tækifærið til að koma höggi á markaðsdýrkun („frjáls“-hyggju) og hugmyndafræðikerfi almennt, ekki síst marxíska hugmyndakerfið.
Þyki einhverjum lítilmannlegt af mér að gagnrýna skrif látins manns þá vil ég benda á að hann á sér eigi ófá skoðanasystkin sem geta skotið skildi fyrir hann.
Meginboðskapurinn.
Ólafur hélt því fram að hverfiás stjórnmála væri barátta frjálshyggju og alræðishyggju. Karl Popper hafi réttilega rakið alræðishyggju til Platons, frjálshyggju til Períklesar og Sókrates.
Heimspekingurinn Hegel hafi verið alræðissinni og ættfaðir kommúnisma og nasisma sem séu greinar á sama meiði.
Svo hafi Friedrich von Hayek eflt frjálshyggjuna hagfræðirökum. Hann hafi réttilega sagt að frjáls markaður sé flestra meina bót og að kommúnistar og nasistar hafi rekið áætlunarbúskap.
Sá búskapur geti af sér alræði en markaðskerfi sé forsenda frelsisréttinda og lýðræðis. Auk heldur sé áætlunarbúskapur efnahagslega óhagkvæmur.
Er skemmst frá að segja að bókin er „undarlegt sambland af frosti og funa“ svo vitnað sé í orð skáldsins.
Upp á sitt besta er Ólafur yfirvegaður, málefnalegur og sanngjarn, upp á sitt versta mjög yfirborðslegur, auk þess að vera bókstafs- og kreddutrúar, jafnvel ofstækisfullur.
Bókstafstrúin birtist helst í trú á skrif þeirra Karls Poppers og Friedrich von Hayek.
Málefnalega hliðin.
Lítum fyrst á málefnalegu hliðina: Ólafi tekst vel upp þegar hann lýsir efnahagseymdinni í kommúnistaríkjunum þáverandi (bls. 125, 170-178). Ekki síst þegar talið berst að hinum altæka áætlunarbúskap (bls. 125).
Einnig þegar hann vegur að haftastefnunni (bls. 210-216).
Líka þegar hann bendir á ýmsa annmarka öfgafrjálshyggju, markaðurinn geti ekki leyst öll hagræn vandamál (bls. 221).
Einnig segir hann að borgvæðing og mannfjölgun auki þörf fyrir samneyslu á vissum sviðum, t.d. hvað varðar vatnsöflun (bls. 184-185, 217).
Hann andæfir næturvarðarríkinu og þar með öfgafrjálshyggju, segist vera fylgjandi tryggingu lágmarkstekna (bls. 67). Vel mögulega sé rétt að auka samneyslu í Bandaríkjunum (bls. 220).
Velta má því fyrir sér hvort Ólafur hafi ekki sum part verður fremur frjálslyndissinni en frjálshyggjumaður. Nánar um mun frjálslyndisstefnu og frjálshyggju síðar í þessum ritdómi.
Hvað um það, Ólafur viðurkennir að ekki sé öruggt að Marx beri ábyrgð á yfirgangi kommúnista (bls. 101). Einnig að sumt sé vel athugað í gagnrýni hans á kapítalismann.
Enn fremur segir Ólafur réttilega að Marx hafi ekki gert sér grein fyrir boðmiðlunargetu markaðarins (bls. 120-121). Og að honum hafi ekki enst aldur til að vinna úr stéttarkenningu sinni enda sé hún meingölluð (bls, 163-164). Þess utan hafi hann verið frelsisunnandi (t.d. bls. 253).
Einnig viðurkennir hann að Marx hafi haft nokkuð til síns máls er hann spáði aukinni samþjöppun auðmagns (bls. 150-152). Hún væri sérstaklega hættuleg smáþjóðum (bls. 245). Þarf ég að nefna sægreifana?
Ég er líka sammála gagnrýni Ólafs á kenninguna um að neytendur séu manípúleraðir af auglýsingaskrumi, engar haldbærar sannanir eru fyrir henni, mér vitanlega (bls. 118-119).
Hann viðurkennir líka að (meint) frelsi hafi sínar skuggahliðar (bls. 242). Einnig segir hann eins og flestir hagfræðingar að strangt tekið geti alfrjáls markaður ekki verið til.
Hann bendir líka á vandkvæði þess að mæla jöfnuð og ójöfnuð. Dreifing tekna á gefnu augnabliki segi ekki mikið, helst verði að taka tillit til ævitekna manna (bls. 38-39).
En hann nefnir ekki þann möguleika að tekjuskipting geti orðið svo ójöfn að það bitni á jafnrétti. Gífurleg aukin misskipting tekna vestanhafs hefur haft í för með sér minnkandi félagslegan hreyfanleika og þar með minna jafnrétti.
Ekki er hægt að útiloka að „frjálsari“ markaðshættir eigi einhvern þátt í þessari vanþróun.
Alla vega bendir margt til þess að hinn sæli Ronald Reagan beri vissa ábyrgð á ósómanum með því að breyta skattakerfinu ríkisbubbum í hag og vængstýfa verkalýðsfélög.
Sú aðgerð var í samræmi við frjálshyggju en hún telur verkalýðsfélög einokunarfélög sem trufli hið ginnhelga gangvirki markaðarins.
En þau samfélög þar sem menn njóta mestrar lífsældar eru flest hver samfélög þar sem verkalýðshreyfingin er sterk en ábyrg.
Nefna má að jafnaðarmenn eru yfirleitt fremur á móti miklum ójöfnuði, ekki endilega fylgjendur allsherjar jöfnun tekna. Í því sambandi andæfa þeir mikilli auðsöfnun á fárra hendur, slík auðsöfnun hefur átt sér stað á Íslandi með þeim afleiðingum að hinir ofurríki sægreifar hafa öðlast mikil völd.
Ólafi til afbötunar skal sagt að hann gat ekki séð þessa vanþróun fyrir, hvorki þá íslensku né þá amerísku.
Við má bæta að því er nú haldið fram að ójöfnuður sé auki hættuna á ofurupphitun jarðar vegna þess að hinir ofurríku auki koltvísýring miklu meir en síður velstætt fólk. Ríkustu 10% auki koltvísýring jafn mikið og 50% hinna fátækustu (the Conversation 2021).
Alla vega segir Ólafur réttilega að einstaklings- og félagshyggja þurfi ekki að vera andstæður, sé félagshyggja skilin sem mannúðar- og samvinnustefna (bls. 40).
Ólafur gefur stutta en ágæta lýsingu á kenningum Condorcets og Kenneth Arrows um þversagnir kosninga (bls. 139-145). Einnig skrifar hann með öfgalausum hætti um markaðssósíalisma og gagnrýni Hayeks á hann (bls. 78-79).
Hann hefði mátt nefna að markaðssósíalistinn Oskar Lange taldi að tölvur gætu leyst boðmiðlunarvanda áætlunakerfisins, komið í stað markaðarins (Lange 1969).
Það kemur reyndar ekki skýrt fram hjá Ólafi að Lange taldi áætlunarbúskap vel framkvæmanlegan, ákvarðanir yrðu teknar á grundvelli sýndarsamkeppni (Lange 1936: 53-71 og 1937: 123-142).
Hvað um það, Ólafur gefur stutt en ágætt yfirlit yfir vísindaheimspeki Hayeks. Sá hélt því fram að náttúru- og mannvísindi væru æði ólík. Í náttúruvísindum væri rétt að skoða heildir, ekki í mannvísindum.
Skilningur fræðimannsins á hugsunarhætti manna léki mikilvægt hlutverk í mannvísindum.
Ólafur hefði að ósekju mátt nefna að þessar kenningar Hayeks eru gagnólíkar kenningum Poppers sem taldi að báðar gerðir vísinda ættu að beita sömu aðferðum.
Hann hefði líka mátt nefna að hugmyndir Hayeks ganga þvert á ríkjandi hugmyndir í hagfræði enda austurríski skóli hans ekki almennilega viðurkenndur af akademískum hagfræðingum.
Til dæmis hafna akademískir hagfræðingar flestir þeirri austurrísku hugmynd Hayeks og félaga að sjálfsskilningur efnahagsgerenda skipti hagfræðina máli.
Honum láist líka að nefna að Hayek var efins um ágæti mikillar stærðfræðivæðingar hagfræði en Ólafur virðist hafa talið hana allra meina bót (t.d. bls. bls. 161-162).
Enn fremur hefði mátt nefna að kenningar Hayeks um vísindin eiga sér djúpar rætur í miðevrópskri heimspekihefði, t.d. í túlkunarfræði og fyrirbærafræði.
Bókstafstrú á verk Poppers.
Einn af megingöllum bókarinnar er bókstafstrú höfundar á ritverk Poppers og Hayeks um leið og hann hunsar muninn á hugsun þeirra. Höfundur fordæmir bókstafstrú marxista, „sá yðar sem syndlaus er varpi fyrsta steininum“ (t.d. bls. 175-178).
Annar megingalli er hve hratt er farið yfir sögu, flókin hugmyndakerfi afgreidd á fáeinum síðum, t.d. eru kenningar Adams Smith raktar á rúmum þremur síðum (bls. 70-73).
Sá þriðji er skortur á tilvísunum í heimildir og fátækleg heimildaskrá.
Þetta er sérstaklega bagalegt þegar Ólafur ræðir Platon og Hegel, engin rita þeirra eru nefnd í heimildaskrá (bls. 256-257).
Ekkert bendir til að hann hafi lesið staf eftir þessa meginspekinga. Samt má finna meintar tilvitnanir í Hegel (t.d. bls. 47-48).
Þær virðast ættaðar úr bók Karl Poppers, The Open Society and its Enemies en Popper hefur verið sakaður um að skrumskæla texta Hegels (Popper 1962b). Það gerir m.a. heimspekingurinn Walter Kaufmann (Kaufmann 1959: 88-119).
Hegel er vissulega oft torskilinn en að kenna hann við alræðishyggju er ekki skynsamlegt, þótt hann hafi líklega verið í stjórnlyndari kantinum.
Þó ekki á sínum yngri árum, þá varði Hegel frjálslyndisstefnu, mælti t.d. með einkaskólum og fordæmdi stjórnlyndi Prússa í riti sínu um þýsku stjórnarskránna (Hegel 1966: 43).
Í ofan á lag var hann var ekki þjóðernissinni, gagnstætt því sem Popper og Ólafur héldu. Eða hvers vegna dáði hann Frakkann Napóleón og kallaði „þessa heimsál“ í frægu bréfi? (Hegel 1806)
Manninn sem hafði að mati Hegels kynnt Evrópubúum hugsjónir frönsku byltingarinnar, gert Frakkland að réttarríki, en um leið stjórnað af vissri hörku. Ekki þarf að lesa mikið í Réttarheimspeki Hegels til að sjá að hann leggur áherslu á að tillit verði að taka til einstaklingsfrelsis (Hegel 1986: 410 (§ 261-262).
Hann leggur vissulega mikla áherslu á mikilvægi ríkisins en ekki ríkisins eins og það kemur fyrir af skepnunni heldur réttarríkisins sem sé hin sanna birtingarmynd ríkisins.
Þetta réttaríki, sem í burðarliðnum væri, sameinaði bestu þættina í íhaldsmennsku og framfaramennsku, stjórnlyndis (Napóleon/Prússakóngur) og frjálslyndis (frelsi, jafnrétti, bræðralag). Lögbundin þróun sögunnar stefndi í átt að slíku réttarríki, segir Hegel.
Popper gerir glappaskot þegar hann gerir nasista að Hegelssinnum og fylgismönnum söguhyggju (bls. 46-52). Það er tóm þvæla, hugmyndafræðingur nasista, Alfred Rosenberg fordæmdi Hegel og sagði hugsun hans vera andstæð germönskum anda (Rosenberg 1934: 525).
Hann reyndi að móta nasíska söguskoðun eftir valdatökuna við litlar undirtektar annarra nasistabrodda. Þeir voru fálátir um sértækar kenningar. Þess eru fá merki að nasistar hafi trúað á sögulega nauðsyn og því útilokað að söguhyggja beri ábyrgð á myrkraverkum þeirra. Þeir höfðu vart samstæða hugmyndafræði, fremur safn af fordómum og vó þyngst sjúklegt hatur á Gyðingum.
Í bókinni talar Ólafur oft eins og hugmyndafræði meintra alræðissinna sé upphaf alls ills í sögu mannkynsins. En hvaða hugmyndafræði olli þrælasölu Vesturlandabúa sem kostað 2-3 milljónir manna lífið?
Var ekki græðgi aðalhreyfiafl þessara fjöldamorða?
Og hvað með yfirgang og fjöldamorð Mongóla á miðöldum? Var ekki valdagræðgi helsta hreyfiafl hans?
Í ofan á lag er furðulegt að Ólafur skuli kenna nasista við „þráttarhyggju“ (díalektík) en sú speki er ættuð frá Hegel. Ólafur segir: „Þráttarhyggjan telur þannig að stríð, ofbeldi og hatur séu a.m.k. eðlileg, ef ekki beinlínis æskileg fyrirbrigði…“ (bls. 45).
Þetta er rangt, díalektík er ekki endilega baráttuhyggja. Meginþáttur hennar er hugmyndin um víxlhrif tveggja andstæðna sem í reynd mynda heild en hún sé aftur í stöðugri þróun vegna víxlhrifanna.
Ekki verulega frjó speki en alltént saklaus af styrjaldarhyggju og morðæði nasista.
Ólafur kokgleypti líka skrifum Poppers um forngríska spekinga (bls. 19-30). Popper staðhæfir að Platon hafi verið alræðissinni sem trúði á lögbundna framvindu sögunnar (Popper 1962a). Vissulega má finna alræðisstef í sumum skrifa Platons, sérstaklega Ríkinu((Platon 1991a: 221-293 (þriðja bók), Platon 1991b: 325-355 (595A-608B).
En hann leggur Sókratesi alræðisorð í munn í samræðum og er engan veginn víst að um sé ræða hans eigin skoðanir. Sumir (t.d. Leo Strauss) telja að hann hafi verið gera tilraun með hugmyndir.
Alla vega er villandi að kalla lægstu stéttina í útópíu Platons „þræla“ eins og Ólafur gerir. Svo virðist sem Platon hafi ekki gert ráð fyrir þrælahaldi í Fögruborg (fyrirmyndarríkinu), hin valdalausa stétt framleiðanda mátti eiga eignir og stunda viðskipti, gagnstætt stéttum stjórnenda og varðmanna.
Útópían er því ekki beinlínis sósíalísk, gagnstætt staðhæfingu Ólafs (bls. 21).
Ólafur nefnir ekki að Platon gerði ráð fyrir almennri skólagöngu, bestu nemendurnir gátu orðið stjórnendur eða varðmenn, án tillits til uppruna og kynferðis (Platon 1991b: 26-40 (451 C-456 E).
Tilraunir Poppers til að gera Platon að söguhyggjumanni eru einkennilegar, Forngrikkir höfðu enga hugmynd um söguleg lögmál og sögulega framvindu.
Engu síður furðuleg er sú staðhæfimg Ólafs að Períkles og Sókrates hafi verið frjálshyggjumenn (Popper talar hvergi um frjáls- og alræðishyggju heldur um vini og óvini hins opna samfélags).
Því er fljótsvarað: Þeir andæfðu hvorki þrælahaldi né hinni viðbjóðslegu kúgun kvenna í Aþenu „lýðræðisins“ og geta því ekki talist frjálshyggjumenn.
Þess utan efast margir fræðimenn um að Forngrikkir hafi verið einstaklingshyggjumenn. Því til sannindamerkis er nefnt að orðið „idiot“ kemur frá forngríska orðinu „idios“ sem merkir hinn staka mann eða einstakling.
Sá sem hafi farið sínar leiðir hafi að áliti forngrikkja verið fífl. Enn fremur sýni nánari athugun að Sókrates hafi neitað að flýja heimaborg sína vegna þess að hann taldi sig hluta af hennar lífrænu heild.
En ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. Skrif Poppers um Marx eru skárri en hann segir m.a. ranglega um Marx að hann hafi ekki gefið neinar forskriftir fyrir sósíalisma og kommúnisma framtíðarinnar (Ólafur trúði þessari kenningu Poppers líka, bls. 53-54 og víðar).
Marx segir beinum orðum að stjórna beri efnahagslífi sósíalismans með áætlanargerð. Í því kerfi fái menn greitt (reyndar ekki með peningum) eftir efnahagsframlagi, því sé ekki rétt að stefna að algerum jöfnuði.
Samfélagið gefi verkamönnum kvittum fyrir vinnuframlagi þeirra en hún virkar eins og ávísun. Menn fá borgað í neysluvörum sem tekið hefur jafn langan tíma að framleiða og þeir hafi unnið. Hafi maður unnið 40 tíma tiltekna viku þá fær maður neysluvarning sem það tók 40 tíma að vinna (Marx 1968b: 314-331).
Spurt er: Þýðir þetta að sá sem vinnur með hangandi hendi í 40 tíma fái jafn mikið og sá harðduglegi? Líklega miðast vinnutími við það sem Marx kallaði „þjóðfélagslega nauðsynlegan vinnutíma“ en vandkvæði eru á að reikna þann tíma út.
Fyrir utan það að slíkt kerfi muni vart virka vel má spyrja hver eigi að útbúa kvittunina og sjá til þess að hver maður fái skammtinn sinn. Er ekki hætta á að til verði Kafkakennt kvittana-skrifræði?
Þetta og margt fleira í forskriftum Marx fyrir sósíalismanum gæti verið ávísun á stjórnlymdi eða alræði, t.d. sú forskrift að skipuleggja skuli iðnarheri í sósíalismanum (Marx og Engels 2008: 205-206).
Spurt er: Hverjir eiga að stjórna og skipuleggja þessa heri? Er her mögulegur án heraga? En Marx gerði sér ekki grein fyrir þessum hættum, hann og Engels segja að frjáls þróun einstaklingsins sé forsenda frjálsrar þróunar heildarinnar í sósíalismanum (Marx og Engels 2008: 206).
Marx gerir meira en að gefa í skyn að kerfið eigi að vera líkt Parísar-kommúnunni þar sem allir embættismenn voru kjörnir lýðræðislegum kosningum og setja mátti þá af ef meirihlutinn krafðist þess.
Kommúnisminn átti að verða ríkisvana samfélag samtaka framleiðenda þar sem menn fengu eftir þörfum og legðu fram eftir getu. Sjálfur hef ég litla trú á því að þetta sé framkvæmanlegt en það er önnur saga.
Í minni sögu skal sýnt fram á að kenning Poppers um söguhyggju sem upphaf alræðis standist ekki.
Í fyrsta lagi trúði frjálshyggjumaðurinn Herbert Spencer á sögulega nauðsyn, sama hvað tautaði og raulaði mundi frjáls markaður sigra fyrr eða síðar. Ekki verður séð að þessi kenning hafi alræðisblæ, þótt Spencer hafi haft ýmsar vafasamar skoðanir.
Í öðru lagi trúði marxistinn Karl Kautsky á sögulega nauðsyn en dró þá ályktun af henni að ekki væri þörf á blóðugum byltingum því sósíalisminn myndi sigra hvað sem tautaði og raulaði.
Þannig mátti nota kenninguna um sögulega nauðsyn til að andæfa byltingar- og stríðshyggju.
Sitthvað um marxismann.
Ólafur „gagnrýnir“ strámenn þegar hann talar eins og marxistar sem ræða um meinta heimsvaldastefnu styðjist ekki við reynslugögn og töluleg gögn (bls. 163-164).
Hann nefnir ekki hverjir þetta eru en talar eins og þeir séu fífl og illmenni enda eru þeir ósammála honum, sannleikshafanum mikla. Hann nefnir engar heimildir fyrir máli sínu.
Staðreyndin er sú að Lenín studdi staðhæfingar sínar um heimsvaldastefnu staðtölum um samþjöppun auðmagns, fjárfestingar o.s.frv.
Hans kenning var sú að aukin samþjöppun auðmagns samfara auknu arðráni gerði að verkum að flytja yrði auðmagn út til heil- og hálfnýlenda sem arðræna mætti.
Það yllir stríðum um nýlendur milli stórvelda sem væru á valdi auðmagnsins, uppskiptastríðum. Fyrri heimsstyrjöldin hafi verið slíkt stríð (Lenín 1961).
Ólafi hefði verið nær að nefna að þessi kenning skýrir ekki hvers vegna Bandaríkin héldu að sér höndum eftir stríðið. Þeim var í lófa lagið að taka yfir nýlendur Breta, Frakka og Þjóðverja en létu það eiga sig.
Þetta bendir til þess að eitthvað hafi verið bogið við kenningu Leníns.
Hvað um það, ekki vantaði heldur talnasúpuna í ritum þeirra marxistar sem töluðu um nýheimsvaldastefnu. Þeir hafa lagt fram meintar tölulegar upplýsingar um fjárstreymi frá þriðja heiminum til hins fyrsta.
Til dæmis hélt Eduardo Galeano því fram að á tímabilinu 1950-1967 hafi bandarískar fjárfestingar í Suður-Ameríku numið 3921 milljónum dollurum en gróði þeirra numið 12839 milljónum dollara.
Sé þetta rétt þá hafa Bandaríkjamenn beint og milliliðalaust arðrænt Suður-Ameríku. Galeano bætir því við að árið 1967 hafi Brasilíumenn þurft að borga 350 kaffisekki fyrir jeppa, árið 1950 aðeins sautján sekki fyrir farartækið (Galeano 1979: 117-192).
Hvort þessar tölulegu upplýsingar eru marktækar skal ósagt látið. Alla vega virðist Ólafur telja kenningar um nýheimsvaldastefnu þokukennt bull en beitir sjálfur rökum í anda hennar er hann segir (líklega réttilega) að stórfyrirtæki eigi auðveldar með að ná tangarhaldi á fátækum ríkjum með einfalt hagkerfi en ríkum ríkjum með flókið hagkerfið.
Það er nákvæmlega ekkert þokukennt við talnasúpu Leníns og Galeanos þótt súpan sú arna kunni að vera baneitruð.
Staðhæfingar Ólafs um marxíska kenningar um heimsvaldastefnu eru rangar enda vantar heimildir fyrir þeirri staðhæfingu hans að hinir illu marxistar vitni ekki heimildir (!!).
Ólafur gerir meira en að gefa í skyn að marxískir fylgjendur vinnugildiskenningarinnar viti innst inni að hún sé röng en héldu henni streitu í áróðurskyni (bls. 109).
En þetta eru hreinlega ad hominem rök, högg undir beltisstað. Slík „rök“ verða ekki tekin alvarlega, þau verða enn verri í ljósi þess að Ólafur nefnir engar heimildir fyrir máli sínu (hvaða einstaklingar hugsuðu svona, hvernig veit hann hvernig þeir hugsuðu?).
Ólafur virtist hafa verið 100% viss um að kenning þessi væri röng og því ekki getað ímyndað sér að nokkur skynsamur maður tryði á hana. En kenningar eru að jafnaði fallvaltar, þ.á.m. sú kenning að vinnugildiskenningin sé röng.
Þess utan er vísindasagan full af dæmum um kenningar, sem taldar voru afsannaðar, en komu aftur í nýjum útgáfum. Nægir að nefna kenninguna um að ljósið væri eindafyrirbæri. Vissulega er vinnugildiskenningin heldur vond kenning en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.
Til að bæta gráu ofan á svart hélt Ólafur því ranglega fram að Marx hafi talið að vinnan skapaði allan auð (bls 129).
En það er rangt Marx sagði beinum orðum: „Vinnan er ekki uppspretta allra auðæfa. Náttúran er ekki síður uppspretta notagildanna en vinnan.“ (Marx 1968b: 314)
Þetta er ekki eina atriðið í kenningum Marx sem Ólafur hefur misskilið. Hann segir ranglega að hin marxíska kenning um firringuna sé kenning um að störf í auðvaldssamfélagi séu einhæf og leiðgjörn (bls. 165).
En menn geta dansað stríðsdans af ánægju í vinnunni en samt verið firrtir samkvæmt kokkabókum marxismans.
Firring getur m.a. birst í meintu arðráni, verkamenn séu aðskildir frá afurð vinnu sinnar sem lendi í vösum auðkýfinga. Hún getur líka birst í hlutgervingu, því að líta á óefnisleg fyrirbæri sem hluti og líta á hvaðeina sem vöru (Ólafur virðist þekkja hugtakið um hlutgervingu, bls 120).
Einnig í því að líta á kapítalismann sem hið hlutlæga og eiginlega samfélagskerfi. Í ofan á lag á því að sjá ekki samhengi félagslegra fyrirbæra heldur skoða þau sem aðgreind.
Rætur firringar sé að leita í verkaskiptingunni sem aukist hafi mjög í tíð kapítalismans (Marx 1968a: 210-223, Marx 2011).
Marx hélt að í sósíalisma og kommúnisma myndi verkaskipting hverfa m.a. vegna aukinnar sjálfvirkni í framleiðslunni.
Nefna má að einn snjallasti gagnrýnandi marxismans, heimspekingurinn Leszek Kolakowski taldi að alræðisþáttur væri í firringarkenningunni en hún væri grundvöllur marxismans (Kolakowski 2005).
Ef aðskilnaður og firring eru meginmein sem lækna skal eru litlar líkur á því að stuðlað verði að valddreifingu í sæluríki marxismans.
Ég hyggst ekki dæma um ágæti þessarar gagnrýni en nefna að Kolakowski gjörþekkti marxismann, gagnstætt Karli Popper.
Hvað firruna um firringu varðar þá virðist hún vera „mím“ (e. meme) hjá frjálshyggjumönnum, t.d. hjá William Irwin (Irwin 2015).
Lokaorð fyrsta hluta.
Ég vil ljúka þessum fyrsta hluta með að lýsa undrun minni yfir því að íslenskir marxistar skyldu ekki bregða skildi fyrir Marx þegar bók Ólafs kom út.
Margir þeirra bjuggu yfir miklu meiri þekkingu á marxískum kenningum en Ólafur og skoðanasystkin hans. Kannski þótti þeim ekki taka því að rökræða við meintan stéttaróvin.
Það er sannleikskjarni í þeirri skoðun Poppers að marxisminn sé rökræðufjandsamlegur.
Þýski heimspekingurinn Jürgen Habermas reyndi að græða rökræðumeið á trjábol marxismans en endaði með því að gefast upp á marxismanum en viðhalda meiðinum og ganga í þýska krataflokkinn.
Í síðari hluta mun ég gaumgæfa skrif Ólafs um Hayek, auk þess sem hann segir um vísindalega aðferðafræði og fleira.
Heimildir:
The Conversation 2021: „Inequality and Climate change: The Rich must Step up“, https://theconversation.com/inequality-and-climate-change-the-rich-must-step-up-119074
Sótt 13/11 2021.
Galeano, Eduardo 1979: Latinamerikas åpne årer (þýðandi Arne Hem). Ósló: Pax.
Hegel, G. W. F. 1806: „Hegel to Niethammer“ (þýðendur Clark Butler og Christine Seiler), http://www.marxists.org/reference/archive/hegel/works/letters/1806-10-13.htm. Sótt 15/12 2011.
Hegel, G. W. F. 1966: "Die Verfassung Deutschlands", í Politische Schriften. Frankfurt a.M. : Suhrkamp.
Hegel, G. W. F. 1986: Grundlinien der Philosophie des Rechts. Frankfurt a.M.: Suhrkamp.
Irwin, William 2015. The Free Market Existentialist. Capitalism Without Consumerism. Chisester: Wiley/Blackwell.
Kaufmann, Walter 1959: „The Hegel Myth and its Method“, í From Shakespeare to Existentialism: Studies in Poetry, Religion and Philosophy. Boston: Beacon Press, bls. 88-119.
Kolakowski, Leszek 2005: Main Currents of Marxism (þýðandi P.S. Falla). New York og London: W.W. Norton & Co
Lange, Oskar 1936: “On the Economic Theory of Socialism. Part One”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (1), október, bls. 53-71 (finnanleg á Neti).
Lange, Oskar 1937: “On the Economic Theory of Socialism. Part Two”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (2), febrúar, s. 123-142( finnanleg á Neti).
Lange, Oskar 1969: “The Computer and the Market”, í C.H. Feinstein (ritstjóri): Socialism, Capitalism, and Economic Growth. Essays presented to Maurice Dobb. Cambridge: Cambridge U.P., bls. 158-161 (finnanleg á Neti).
Lenín, Vladimír Iljits 1961: Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins (þýðandi Eyjólfur R. Árnason). Reykjavík: Mál og menning/Heimskringla.
Marx, Karl 1968a: „Blætiseðli vörunnar og leyndardómur þess“ (þýð. Eyjólur R. Árnason), í Karl Marx og Friedrich Engels: Úrvalsrit. 1 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 210-223.
Marx, Karl 1968b: „Athugasemdir við stefnuskrá þýzka verkamannaflokksins“ (þýðandi Brynjólfur Bjarnason), í Karl Marx og Friedrich Engels: Úrvalsrit. 2 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 314-331.
Marx, Karl 2011: Æskuverk (þýðandi Ottó Másson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
Marx, Karl og Friedrich Engels, Friedrich 2008: Kommúnistaávarpið (þýðandi Sverrir Kristjánsson) Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag (upprunalega gefin út 1948).
Ólafur Björnsson 1978: Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Platon 1991a: Ríkið. Fyrra bindi (þýðandi Eyjólfur Kjalar Emilsson). Reykjavík: HÍB.
Platon 1991b: Ríkið. Síðara bindi (þýðandi Eyjólfur Kjalar Emilsson). Reykjavík: HÍB,
Popper, Karl 1962a: The Open Society and its Enemies. Volume I: Plato. London: Routledge.
Popper, Karl 1962b: The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.
Rosenberg, Alfred 1934: Der Mythus des 20. Jahrhunderts. Eine Wertung der seelisch-geistigen Gestaltenkämpfe unserer Zeit. München: Hoheneichen-Verlag, https://archive.org/details/Rosenberg-Alfred-Der-Mythus-Text Sótt 8/5 2019.
Athugasemdir