Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Viðskiptaráð. Hinn íslenski Donald Trump?

Viðskiptaráð. Hinn íslenski Donald Trump?

Viðskiptaráð Íslands er Donald Trump Reykjavíkur. Ég er ekki að grínast. Ef Viðskiptaráð Íslands væri manneskja, væri hún sjálfumglaðasta manneskja í veröldinni. Hún væri með skoðun á öllu (sérstaklega því sem hún hefur kynnt sér illa eða ekkert) og hefði alltaf rétt fyrir sér.

Ég sé þessa manneskju fyrir mér með litað þunnt ljóst hár sem hún greiðir yfir skallann, sólbrennda húð eftir fjórðu utanlandsferðina þetta árið, að slafra í sig steik á góðum veitingastað en á meðan kvarta yfir öllu:

Hönnunin er ljót. Ég gæti hannað þennan stað miklu betur.

Þjónarnir bera ekki diskana rétt fram.

Ég hefði ekki mælt með þessu víni.

Þetta er ekki léttsteikt. Þetta er millisteikt. Ég bað um léttsteikta steik. Þetta fólk kann ekki neitt.

 

Það kemur reglulega í fréttir þegar viðskiptaráð ályktar hitt og þetta. Þegar viðskiptaráð belgir sig út og telur sig vita:

Hvernig eigi að kenna krökkum. Viðskiptaráð vill að allir framhaldsskólar Reykjavíkur séu sameinaðir. (Það mun virkilega auka fjölbreytilegar hugmyndir á landinu og færa viðskiptalífinu fjölhæft starfslið).

Hvernig eigi að reka söfn á Íslandi. Viðskiptaráð vill sameina öll söfn á landinu. (Af því að þegar hlutir eru með safn í nafninu þá hljóta þeir að vera eins).

Hvernig landbúnaðarmálum eigi að vera háttað.

Ekkert er viðskiptaráði óviðkomandi. Aldrei ráðfærir það sig við neinn sérfræðing áður en það ályktar um hversu sniðugur einkarekstur væri í heilbrigðiskerfinu, hvernig styðja eigi við menningu á landinu, hvernig eigi að horfa til framtíðar í orkumálum. Það jafnast enginn á við viðskiptaráð í besserwisseraskap, ekki einu sinni sjálfumglöðustu kommentarar á netinu virðast hafa jafneinfalda heimsmynd.

Það er reyndar þess virði að rifja upp að viðskiptaráð lagði til sameiningu á stofnunum sem þegar var búið að sameina, heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar var runnin inn í heilbrigðisstofnun Vesturlands. (Stundum veit löggjafinn hvað viðskiptaráð vill áður en það segir það, og stundum hefur viðskiptaráð ekki fyrir því að kynna sér málin áður en það ályktar út í bláinn).

Þetta er ráð sem kvartar yfir lágri framleiðni á Íslandi en vill ekki skoða að stytta vinnuvikuna. Þetta er ráð sem fékk 90% af tillögum sínum samþykkt inn á alþingi árið 2006 og kann svo ekki að skammast sín.

Viðskiptaráð hefur nefnilega aldrei rangt fyrir sér. Viðskiptaráð skrifar skýrslu um sjálft sig þar sem það segir að gagnrýni á sig fyrir hrun hafi verið réttmæt (en kemur svo með nákvæmlega sömu tillögurnar aftur).

Kannski er ég of leiðinlegur við viðskiptaráð. Eftir allt saman þá eru þetta bara tillögur frá utanaðkomandi aðila, sem kannski sér glöggu gestsauga.

Og við hin ættum kannski að leika sama leik.

Félag fornleifafræðinga gæti ályktað að viðskiptasamráð banka gangi ekki lengur, ríkið ætti að skarast inn, setja lög gegn færslugjöldum og öðrum uppáfinningum bankastjóra.

Svo gæti Kennarasambandið ályktað að sektir á olíufélög fyrir verðsamráð séu alltof lág á Íslandi.

Skátarnir gætu komið með ályktun um að vöruverð á Íslandi sé alltof hátt og að refsa beri kaupmönnum sem vogi sér meira en 10% álagningu á vörur.

Auðvitað er ég ekki að segja að fornleifafræðingar, kennarar eða skátar hafi hundsvit á hvernig viðskiptalífið ætti að vera rekið.

En kannski að við getum öll sammælst um eina tillögu.

Að Viðskiptaráð Íslands biðjist opinberlega afsökunar á þætti sínum í að koma hruninu af stað, með þeim afleiðingum að þúsundir Íslendinga þurftu að missa heimili sín og flýja land.

Og síðan myndi það leggja sjálft sig niður.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni