Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tvö stórfengleg vídjóverk

Chiho Aoshima er stórfengleg japönsk listakona. Þemað í teikningum hennar eru auðrekjanleg til hefðbundinna japanskrar þjóðtrúar, það er ekki hægt að ásaka hana um neinn frumleika þegar hún gæðir hóla og hæðir, blokkum og blómum lífi, né heldur er hægt að segja að stíllinn sé sérlega ferskur. Krúttlegar teikningarnar minna á Yoshitomo Nara og fjölmarga aðra japanska listamenn sem lært hafa að teikna undir áhrifum japanskrar poppmenningar.

Engu að síður er kröftugur einlægleiki í teikningum hennar, og vídjóverkið „Endurfæðing heimsins“ nær ótrúlegum hæðum, með einfaldri dramatískri uppbyggingu. Dauðinn vofir alls staðar yfir, en myndbandið sýnir greinilega Tókýó-flóa fylltan andaverum og fljúgandi furðuhlutum, og síðan hrikalegt eldgos í Fújí-fjalli. Reyndar eru náttúruhörmungar alltaf yfirvofandi í Japan, að minnsta kosti í undirmeðvitund íbúa hennar. 

 

 

Númer 14, heima, eða Nummer Veertien, Home, eftir hollenska listamanninn Guido van der Werve er annað vídjóverk sem ég mæli eindregið með. Nú ertu, kæri lesandi, eflaust ekki staddur í Seattle eða á leiðinni þangað í bráð, en ef þú hefur möguleika á því að sjá þessa lofgjörð til Chopin og Alexanders mikla á einhverju listasafni, einhvern tímann, ekki hika.

Að baki þessu vídjóverki líkt og Endurfæðingu heimsins, liggur mikil vinna hjá listamanninum. Ekki bara andleg heldur líkamleg, því í henni syndir, hjólar og hleypur listamaðurinn, auk þess sem honum er lyft upp með krana. Á meðan spilar heil symfoníuhljómsveit undir ásamt kór, en tökustaðirnir eru bæði í Póllandi, Egyptalandi, Indlandi og París. Það út af fyrir sig er býsna imponerandi, en fyrst og fremst er það tónverkið undir sem samið er af van der Werve sem gefur verkinu dýpt. Fæðingastaður Chopins, kirkjan þar sem hjarta hans er grafið og sjálf gröf hans í Pére Lachaise koma fyrir í myndbandi sem hrífur og grípur. (Hef yfirleitt ekki þolinmæði til að sitja undir vídjóum inn á söfnum ef þau eru lengri en fimm mínútur, en í þetta sinn sat ég fast.)

Númer 14 er augljóslega ekki fyrsta né heldur eina vídjóverk listamannsins. Ég hendi á link hérna af stiklu, það eru fleiri stiklur á youtube fyrir áhugasama.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni