Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Þegar Covid19 bjargaði íslenskunni

Þegar þessi orð eru skrifuð er enn ekki ljóst hvers eðlis efnahagskrísan sem tekur við af Covid-krísunni verður. Verðbréfamarkaðurinn vestanhafs hefur tekið stærri dýfur en árið 1929 þegar heimskreppan mikla hófst, en það er sem betur fer ekki eini mælikvarðinn sem við höfum, blessuð landframleiðslan og hagvöxturinn eru ekki algildir mælikvarðar á hagsæld fólks, og kannski verður vöxturinn hraður þegar óvissu og einangrunartímabilum lýkur. Munum að heilsan skiptir mestu máli.

Þetta er óhefðbundin krísa og hún mun kannski krefjast óhefðbundinna lausna. Vestanhafs er verið að skoða að frysta húsnæðislán og námslán, og jafnvel kynna til leiks tímabundin borgaralaun. Þökk sé forsetaframboði Andrew Yang hefur hugtakið borgaralaun verið mikið í umræðunni í fyrsta sinn síðan 1972 þegar báðir forsetaframbjóðendurnir voru að skoða útfærslur af þeim.

Stundum er talað um pólitík sem list hins mögulega. En möguleikarnir velta oftar en ekki á ímyndunarafli okkar. Þegar Bjarni Benediktsson kynnti til leiks hugtakið pólitískur ómöguleiki þá meinti hann ekki að það væri fýsískur ómöguleiki að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni, hann meinti bara að hann og samstarfsaðilum hans langaði ekki til þess. Við þurfum því ekki að festa okkur í kreddum eða naumhyggju frekar en við viljum.

Stundum er viljinn allt sem þarf. Pólitíkin er list hins mögulega ef viljinn er fyrir hendi.

Þess vegna biðla ég til stjórnmálafólks og sérfræðingana sem ráðleggja því að hugsa út fyrir boxið. Er t.d. sjálfsagt mál að húsnæðislán þurfi að hækka ef það kemur verðbólga eða eru þetta tölur ákvarðaðar af mönnum og því breytanlegar af mönnum? Er sjálfsagt mál að námslán þurfi að greiðast? Er sjálfsagt mál að leigusalar muni geta hækkað leigur? Er sjálfsagt mál að efnahagsaðgerðir þurfi að miðast að þörfum stórfyrirtækja, eða geta efnahagsaðgerðir kannski falist í hækkun barnabóta, hækkun fæðingarorlofs, hækkuðum örorkubótum, fleiri listamannalaunum, einhvers konar borgaralaunakerfi, neikvæðum persónuafslætti eða öðrum aðgerðum sem auka neysluna sem fyrirtækin þurfa til að halda velli.

Hér skrifa ég án þess að vita hversu hátt atvinnuleysið verður, hvort það verði verðbólga eða verðhjöðnun, hversu lengi Covid19 mun hrjá heimsbyggðina og hvort það verði alþjóðleg fjármálakreppa, eða bara skammvinn efnahagslægð.

Ef það er lítið annað að gera getum við nýtt tækifærið og styrkt innviði, sett fókusinn á nýsköpun og reynt að enduruppfinna hagkerfi með nýjum og fleiri stoðum. Svo gætum við líka í leiðinni ráðið hóp hundrað háskólanema til að þýða færslur af wikipedia þannig að íslenska wikipedia myndi fara úr því að vera alfræði-vefrit við hæfi smáþjóðar, yfir í að vera raunverulegur gagnabanki. Á einu sumri gætum við kortlagt almennilega sögu okkar sem þjóðar, og þýtt meirihluta færsla sem til eru á enskri tungu þannig að námsfólk og grúskarar framtíðarinnar geti flett upplýsingum upp á eigin tungumáli. Það væri góð fjárfesting í framtíð íslenskunnar, og stór hópur fólks gæti unnið þessa vinnu að heiman án þess að nokkurn tímann þurfa að leita út. Kannski myndi fólk þá árið 2097 rifja upp tímanna þegar kórónan gekk yfir og varð til þess að íslenskunni var bjargað, af því fólk hafði ekkert betra að gera.

Þetta eru vangaveltur mínar, og ég þykist vita að efnahagskerfinu yrði ekki bjargað með þessu átaki, en það bæri þó vott um metnað og hugmyndaauðgi að leita lausna úr öllum áttum og sjá tækifæri í krísunni, önnur en að lauma vegatollum framhjá almenningi sem er ekki á leiðinni eftir neinum vegum eins og er.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni