Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Tekjutengjum sektir

Víða um heim, til dæmis í Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss og Frakklandi eru umferðarsektir og annað í þeim dúr tekjutengdar. Til eru alls kyns útfærslur á því. Tilgangur sektanna er að hafa fælingaráhrif, ekki að setja fólk í gjaldþrot en tryggja að fólk leggi ekki í stæði sem þau eiga ekki tilkall til, keyri bíl á hraða sem ógnar ekki lífi annarra, passi sig og aðra í umferðinni og keyri ekki drukkið.

Þetta er einn af örfáum hlutum sem eru algjörlega óumdeildir, að hraðasektir séu nauðsynlegar, og síðan eru alls kyns meiningar á hver hámarkshraðinn ætti að vera. Mér t.d. þætti eðlilegra að miða við 110 kílómetra hraða í stað 90 á þjóðveginum en það er mitt huglæga mat og byggir ekki á neinum rannsóknum.

Um daginn birti Stundin frétt um að bæjarstjóri Kópavogs hefði verið sektaður um 20 þúsund krónur fyrir að leggja í stæði fyrir fatlaða. Sjá hér. Ármann er einn hæstlaunaðasti bæjarstjóri í heimi. Hann axlar meiri laun og meiri ábyrgð (því laun miðast jú við ábyrgð ekki satt) heldur en bæjarstjórar New York, Tokyo, já og Reykjavíkurborgar.

Ármann er með u.þ.b. 2,5 milljón krónur í mánaðarlaun. Fyrir hann hefur 20 þúsund króna sekt engan fælingarmátt. Enda telur ríkt fólk sig almennt geta komist upp með allt. Ríkir eru margfalt líklegri til að brjóta lög og reglur samkvæmt rannsóknum framkvæmdum erlendis, peningar og völd hafa þau sálrænu áhrif á fólk að það upplifir sig ósnertanlegt.

Fyrir Ármann að fá 20 þúsund króna sekt er eins og fyrir mig að fá sirka 1500 króna sekt. Það hefur engin áhrif á mann í hans stöðu. Fyrir mig eru 20 þúsund krónur pínu blóðugt en ég myndi bölva því og svo halda áfram. (Ég hefði væntanlega lagt í fatlaða stæðið óvart eins og Ármann gerði eflaust líka).

Fyrir suma aðra eru 20 þúsund krónur nóg til að setja rautt strik í reikninginn þann mánuðinn. Þá er ég að hugsa um einstæðing á lægstu mögulegu launum eða bótum. Sá aðili þarf virkilega að passa sig í umferðinni ef hann á annað borð hefur aðgang að bíl. (Líkast til ekki). En í öllu falli getum við verið sammála um að 20 þúsund krónur eru ekki bara 20 þúsund krónur. Sumir geta verslað allt sitt lífrænt í Hagkaup, aðrir þurfa að kaupa Euroshopper í Bónus.

Nú er ég ekki endilega að leggja til að fyrir lægstlaunuðu séu núverandi sektir lækkaðar. Það mætti eflaust færa einhver rök fyrir því að tekjulausan einstakling ætti ekki að rukka fyrir smávægileg brot, en ég tel mjög mikilvægt að þessar sektir hafi einmitt fælingarmátt.

Það skiptir engu máli fyrir Björgólf Thor eða Robert Wessman að þeir hafi keyrt of hratt á sportbílnum sínum ef sektin er bara 100 þúsund krónur. Hver endanleg tala ætti að vera veit ég ekki. Ef við skoðum sektir og refsipunkta samgöngustofu þá sjáum við að sektin fyrir að aka á 41 km/klst. eða meira yfir leyfilegum hámarkshraða á 70 km hámarkshraða-svæði er 100 þúsund króna sekt.

Kannski er það hæfileg sekt fyrir einhvern með laun undir 800 þúsund krónum, sem svo mætti tvöfalda og svo tvöfalda aftur við 1,6 milljóna laun. Eða kannski ættum við ávallt að miða við prósentuna af mánaðartekjum. Ef það telst eðlilegt fyrir einhvern sem er í 300 þúsund króna lágmarkslaunum að greiða einn þriðja af tekjum sínum fyrir að ógna öryggi annarra í umferðinni, ætti þá ekki að vera eðlilegt fyrir einhvern í 2,5 milljónum að greiða líka einn þriðja af sínum tekjum? Ármann sem hefur eflaust aldrei gert það væri þá að greiða 833 þúsund krónur. Það væri smá fælingarmáttur í því.

Miðað við slíkt kerfi yrði sektin fyrir að leggja í fatlað stæði fyrir bæjarstjóra Kópavogs eflaust í kringum 166 þúsund krónur.

Hann eða hún myndi eflaust ekki gera það að vana.

Svo er auðvitað önnur umræða um hvort stjórnendur á Íslandi séu með óhóflega há laun. Það er umræða sem þarf líka að taka. En ég leyfi ykkur bara að melta þessar vangaveltur í bili, hvort ekki þurfi að tekjutengja umferðarlagabrotin svo þau séu sambærileg refsing fyrir alla tekjuhópa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni