Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Spurning til frambjóðenda VG

Nú styttist í kosningar og fylgi VG hefur hrapað. Í borginni hefur flokkurinn farið frá 20% niður í 6% og það liggur ljóst fyrir að þarna veldur núverandi ríkisstjórnarsamstarf. Ég á marga vini sem studdu VG og eru mjög reiðir flokkinum fyrir þetta samstarf og finnst þeir með atkvæði sínu hafa verið gabbaðir til að styðja Bjarna Ben inn í fjármálaráðuneytið og Sigríði Á Andersen í dómsmálaráðuneytið.

Þetta fólk á skilið svör. Þegar ég hef spurt hefur mér yfirleitt verið svarað þannig að þetta komi ekki sveitastjórnarmálum við. En það er ekki alveg rétt. Allir kjörnir fulltrúar VG á sveitastjórnarstigi sitja í flokksráði VG og það er flokksráð VG sem ákveður ríkisstjórnarsamstarf. Um þetta er kosið í flokksráði samkvæmt lögum VG.

Þess vegna er mjög viðeigandi að spyrja alla núverandi kjörna fulltrúa sem sækjast eftir endurkjöri:

Kaust þú með eða á móti setu VG í ríkisstjórn með sjálfstæðisflokkinum?

Styður þú ríkisstjórnina?

Styður þú að Sigríður Á Andersen í kjölfar hæstaréttardóms sitji áfram sem dómsmálaráðherra, eða myndir þú lýsa vantrausti á hana?

Og að lokum, ef þú ert kjörinn fulltrúi munt þú kjósa með áframhaldandi stjórnarsamstarfi með sjálfstæðisflokkinum komi slíkt til atkvæðagreiðslu?

Þessar spurningar beinast meðal annars á:

Sóley Björk bæjarfulltrúa VG á Akureyri.

Halldór Pétur Þorsteinsson frambjóðanda í Árborg.

Elvu Dögg Ásudóttur bæjarfulltrúa í Hafnarfirði.

Margrét Júlíu Rafnsdóttur bæjarfulltrúa í Kópavogi.

Líf Magneudóttur bæjarfulltrúa í Reykjavík.

Bjarka Bjarnasonar bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ.

Dagný Öldu Steinsdóttur frambjóðanda í Reykjanesbæ.

Og allra frambjóðenda VG á sveitastjórnarstigi. Ég hvet ykkur til að svara, þið tapið allavega ekki atkvæðum á því, svarið er skárri en vafinn sem kjósendur hafa um hvar þið standið og hvernig þið kusuð og munið kjósa í flokksráði.

 

Bónusspurning: Finnst þér #HöfumHátt málinu í fyrra vera lokið með fullnægjandi hætti og nægileg svör komin fram um uppreist æru Robert Downey og Hjalta Sigurjón Haukssonar?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni