Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ofleikur? Ofbjóðun? #hneykslunarhringurinn

Stundum held ég að Ágústa Eva sé minnst meðvirkasta manneskja á eyju sem tja, hvernig eigum við að orða þetta, hlutir eru ávallt sagðir undir rós.

Allavega skildi ég djókið með Sylvíu Nótt þannig að hún væri bara að sjá hversu langt væri hægt að ganga með Íslendinga, á hvaða tímapunkti þeir myndu fá nóg. Það var ekki fyrr en vegið var að því allraheilagasta (og sennilega glötuðustu söngvakeppni í heimi) sem fólki fannst hún fara yfir strikið.

Nú er ég ekki að segja að Reykjavíkurdætur séu eitthvað hneykslanlegar. Alls ekki. En ef manni ofbýður eitthvað þá er ágætt að rölta bara út. Hvað með það, þótt maður afþakki að hafa strapon flaxandi framan í andlitinu á sér? 

Komast karlkynsrapparar upp með meiri dólg?

Það má vel vera. En bara af því einhver var með ögrandi gjörning fyrir áratug þá þýðir það ekki að sami aðili þurfi alltaf að halda kjafti þegar henni er ögrað. Og það er eiginlega skondið að fylgjast með fólki móðgast svo fyrir hönd annarra út af orðalagi þess sem upprunalega er ofboðið. #Hneykslunarhringurinn

Smá þumalputtaregla: Ef þú upplifðir ekki eitthvað sjálfur, ekki reyna að segja öðrum hvernig þeir eigi að hafa upplifað það.

Að því sögðu er ég hlynntur því að við móðgum hvort annað meira, og að við séum bara dugleg við að taka við móðgunum og segja fólki að vera ekki með dólg. Ég hef rosa gaman af því að hneykslast sjálfur. Vona að einhver hneyksli mig verulega á eftir.

----

Þessi smá-uppákoma í vikulega snooze-festinu er þó ekki ástæða þess að ég fór að skrifa þessa færslu um minnst meðvirka einstakling landsins. Fyrr um daginn las ég viðtal við hana á Vísi og fannst verulega athyglisvert það sem hún segir um íslenskst leikhús:

Ég var búin að vera að leika í mörgum sýningum og hafði mikið að gera. Samkvæmt lögum eiga starfsmenn Þjóðleikhússins rétt á einum frídegi í viku, en leikhúsið má kaupa þann dag af þér.

Fjórðu vikuna í röð sem átti að kaupa minn frídag, þá neitaði ég. Þá hótaði framkvæmdastjórinn á þeim tíma, sem nú hefur tekið við starfi þjóðleikhússtjóra, að beita mig neyðarlögum. Það er eitthvert úrræði sem er til í lögum til þess að fá slökkviliðsmenn til að vinna ef það kviknar í Þjóðarbókhlöðunni eða eitthvað álíka. Þetta var rosalega skrýtin upplifun. Ég vil bara vinna við það sem gerir mig hamingjusama og ég var það ekki á þessum tíma. Ég var farin að slasa mig á æfingum, sýna nefbrotin og svona. Þetta var bara orðið algjört rugl.

Mér finnst þetta verulega athyglisvert kvót. Og ég veit að það hefur verið umtalað á óopinberum vettvöngum að sumir leikarar og sér í lagi ungir leikarar séu látnir vinna of mikið. „Ofleika“ mætti segja, en sumum er þrælað svo mikið út þegar þeir eru nýkomnir úr námi að þeir fá hálfgjört ógeð á draumastarfi sínu. Einn frídagur á fjögurra vikna fresti er ekki til of mikils mælst (og höfum í huga að oft er leiklist afar líkamlega og andlega krefjandi vinna).

Fólk kvartar þó lítið opinberlega, því oft eru ungir leikarar ekki í stöðu til að semja, það koma fjölmargir aðrir til greina (sem ekki komast að því ein manneskja er látin fylla í öll hlutverk) og það er auðvelt að skipta einum leikara út fyrir annan. Það er sparnaður fólgin í því fyrir fjárþyrst leikhús að fastráða einn einstakling í stað þess að dreifa vinnu á tvo til þrjá mismunandi aðila. Ef einn einstaklingur færi að vera með mótþróa er hætt við að sá hinn sami afskrifi sig algerlega úr íslensku stofnanaleikhúsi.

Eitt af því sem kom mér mest á óvart þegar ég fór að vinna í leikhúsi út í Frakklandi var hversu öðruvísi afstaða fólks til vinnunar var. Fólk var mjög meðvitað um réttindi sín, en það var meðal annars athyglisvert að fylgjast með því þegar sjálfstætt starfandi leikhúsfólk fór í verkfall til að krefjast aukinna lífeyrisréttinda. (Eitt af því sem ætti virkilega að vera tekið til endurskoðunar þegar stuðningur við menningu á Íslandi verður næst tekinn til umræðu, er hvernig tryggja megi starfsöryggi þeirra sjálfstætt starfandi betur ... og þá mæli ég sérstaklega með svipuðu fyrirkomulagi og ríkir meðal intermittent de spectacle í Frakklandi).

Að þessu sögðu vill ég bara hvetja fólk til að velta þessum tveimur atriðum fyrir sér. Berum virðingu fyrir vinnu okkar með því að krefjast þess að njóta eðlilegra réttinda, að skapa list er meira en bara þau forréttindi að vinna við eitthvað sem er skemmtilegt, það er vinna alveg eins og vinna í t.d. álveri.

Smá shoutout til starfsmanna álvera á Íslandi, sér í lagi Straumsvíkur. Álver komast upp með að fá hræódýra orku, svíkja undan skatti og alls kyns önnur fríðindi. Þau geta séð sóma sinn í að greiða almennileg laun fyrir allt það sem við lítum hjá í sambandi við þau.

Berum líka þá virðingu fyrir sjálfum okkur að labba út þegar okkur ofbýður. Mér finnst það eiginlega flottasti gjörningur sem nokkur manneskja getur gert.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni