Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Líftæknisögur: Ishiguro og Bacigalupi

Líftæknisögur: Ishiguro og Bacigalupi

Klónarnir undirgefnu

Slepptu mér aldrei (never let me go) eftir Kazuo Ishiguro er svo sannarlega ógnvænleg bók. Hún kom út árið 2005 og var tilnefnd til Booker-verðlaunana og stuttu síðar þýdd á íslensku (reyndar óvenju fljótlega og prýðilega vel). Líkt og í mörgum bóka Ishiguro svífur vonleysisleg angurværð yfir vötnum. Persónur hans virka á oft á tíðum eins og þær séu að drukkna en fái sig ekki einu sinni til að sprikla í vatninu heldur sætta sig við að hafa aldrei lært sundtökin og bíða þess sem verða vill.

Í Dreggjar dagsins og Í heimi hvikuls ljóss eru sögupersónurnar gamlir menn sem eiga erfitt með að fóta sig í nýjum heimi. Báðir eru afleiðingar stéttakerfis sem þeir voguðu sér aldrei að efast um. Breski einkaþjónninn í Dreggjar dagsins rifjar upp þjónustu sína og reynir að réttlæta fyrir sjálfum sér að hafa fórnað lífi sínu fyrir þægindi manns, sem hugsanlega verðskuldaði það ekki. (Lávarðurinn sem hann þjónaði á vafasamt orðspor eftir seinni heimsstyrjöld sem annað hvort nytsamur bjáni eða sannfærður fasisti). Svipað er á teningnum í „Í heimi hvikuls ljóss“ þar sem sögupersónan er málari sem naut mikilla vinsælda á stríðsárunum í Japan þar sem hann framleiddi list sem þóknaðist valdahöfum, japanska þjóðernisrómantík, en í gegnum bókina reynir hann að gera upp við sig hver hans ábyrgð hafði verið á stríðinu sjálfu. Báðir eru þjónar kerfis sem þeir neita að efast um, a.m.k. á meðan kerfið sjálft stendur sterkt.

Slepptu mér aldrei er einhvers konar afbrigði af hjásögu eða vísindasögu. Heimurinn er Bretland á milli sjötta og áttunda áratugarins, og sögusviði sjúkrastofnanir og heimavistarskólar. Það er ekkert beinlínis framtíðarlegt við veruleikann, flest afar kunnuglegt, a.m.k. get ég ímyndað mér að höfundur sem alinn er upp á Englandi á þessum tíma sé að lýsa einhverju sem honum þyki hversdagslegt.

Börnin Kathy, Ruth og Tommy alast upp á heimavistarskóla. Hann virðist ekki beinlínis slæmur, það er lögð mikil áhersla á listsköpun og sú félagskúgun, einelti, stríðni og baktal sem á sér stað innan veggja skólans er ekki ólík því sem gæti átt sér stað innan veggja hvaða skóla sem er. En eitthvað hrikalegt vofir yfir allan tímann, eitthvað sem eiginlega aldrei er nefnt. Börnin eru munaðarlaus, öll föt og munir annars flokks og bersýnilega fengnir notaðir, og þau eiga öll von á því að dag einn verða líffæragjafar, og velta því ekki sérstaklega fyrir sér. Þvert á móti forðast þau að tala um það alveg eins og myrka skóginn, þar sem sagan segir að gæslufólk hafi slitið hendur og fætur ungs drengs.

Smám saman rennur upp mynd af óréttlátu kerfi. Börnin eru klónar. Þeim er gert að lifa hollum lífstíl, reykingar eru hinn versti hugsanlegi glæpur, en eina markmið menntunarinnar virðist vera að heilaþvo krakkana svo þau sætti sig við ömurlegt hlutskipti sitt. Síðar meir fylgjumst við með Kathy sjá um hlynningu Ruth og Tommy á meðan líf þeirra fjarar út, eitt líffæri í einu er fjarlægt þar til þau eru svo langt komin að lifa ekki mikið lengur án hjálpar. Og loks er allur líkaminn bútaður niður.

Sagan er mun fjarstæðukenndari en Dreggjar dagsins augljóslega. Svona klónunarprógramm hefur aldrei átt sér stað. En grunn-hugmyndin þarna líkt og í öðrum verkum Ishiguro er að maðurinn efast sárasjaldan um þann kúltúr sem hann er umkringdur. Kathy spyr sárafárra spurninga. Undir lokin komumst við að því að vissulega fer einhver umræða fram um líffæragjafa-kerfið. Sumir berjast fyrir mennsku barnanna, sýna til sönnunar listaverk eftir þau. En hver vill fara aftur til þeirra myrku daga þegar alvöru manneskjur dóu úr hrikalegum sjúkdómum eins og krabbameini?

Hinir ófrjóu klónar eru dulin ógn við mannkynið og jafnvel þeir sem styðja mannréttindi þeirra óttast þau eins og köngulær. Þau eru sérhönnuð þannig að líkamar þeirra þola aukið álag, þau eru nærri aldrei veik, þau eru undirgefin en greind. Í raun eru þau betri manneskjur en alvöru manneskjur. Lækningin við lífstílssjúkdómum, erfðasjúkdómum og öllu því sem dregur manninn til dauða felst í raun ekki í þessu arðráni, þessari niðurbútun á klónunum, heldur í klónunum sjálfum og umbótum á mannkyninu. En enginn í skáldsögunni þorir að hugsa þá hugsun til enda. Ekki ennþá.

Og kerfið heldur áfram án viðnáms. Klónarnir svo undirgefnir og svo reiðubúnir að sætta sig við örlög sín að maður fær verk í hjartað að lesa sögu þeirra.

Hefnd klónanna

Það má rökræða hvort að Slepptu mér aldrei sé framtíðartryllir en The windup girl eftir Paolo Bacigalupi (sem ég þarf alltaf að athuga tvisvar hvort ég stafset rétt) er það án vafa.

Hér erum við komin á 23. öld í heim sem er votari og hlýrri en okkar. Gróðurhúsaáhrifin hafa breytt veröldinni en líka risafyrirtæki sem hafa tekið dna-kóða eignarnámi. Úti um allan heim eru lönd undir hæl fyrirtækjana sem selja þeim erfðabreytt fræ matarplantna ofurverði. Eitt ríki er þó enn sjálfstætt.

Á Tælandi er fræ-banki með ótal óbreyttum plöntum sem gerir ríkinu kleift að viðhalda efnahagslegu sjálfstæði sínu. 

Windup girl er gagnrýni á lífrænan eignarrétt og einkaeign fyrirtækja á erfðaefni. Plottið er í raun ekki sérlega fjarstæðukennt. Í dag er hægt að öðlast eignarrétt á ákveðnum lyfjum og plöntum sem til hafa verið frá örófi alda, stórfyrirtæki selja bændum erfðabreytt fræ en plönturnar sem vaxa eru ófrjóar og tryggja þar með að bændur neyðast til að kaupa árlega nýjan skammt. Það hefur jafnvel gerst að bændur þvert gegn vilja sínum neyðast til að greiða fyrirtækjunum gjöld þegar plantan útrýmir upprunalegu tegundinni.

Persónan Emiko sem skáldsagan fær nafn sitt eftir er erfðabreytt manneskja, notuð sem þjónn og kynlífsþræll. Þar sem hún hefur verið hönnuð en ekki fædd nýtur hún ekki réttinda á borð við aðra og líkt og klónarnir í sögu Ishiguro, er hún frekar undirgefin framan af. En ógn erfðabreytingana er skýrari í sögu Bacigalupi, rétt eins og erfðabreyttar plöntur hafa þol gegn ákveðnum vírusum og geta þannig smám saman ýtt til hliðar hinum upprunalega gróðri hafa erfðabreytt dýr líka tekið sinn stall í lífkerfinu. Það birtist skýrt í sögunni um Cheshire köttinn:

Forstjóri í líftækni-fyrirtæki ákveður að koma dóttur sinni á óvart með afmælisgjöf. Stúlkan heldur mikið upp á Lísu í Undralandi og faðirinn lætur vísindamenn fyrirtækisins skapa kött sem getur brosað og þegar hann brosir skipt litum þannig að hann falli inn í umhverfi sitt. En stuttu eftir afmælið sleppur kötturinn út og fjölgar sér. Hundrað árum síðar hafa Cheshire kettir útrýmt Felis Catus sem í raun átti lítinn sjéns á móti þessu nýja rándýri. Ekki bara getur hann allt sem venjulegur köttur getur, en hann getur líka orðið ósýnilegur.

Emiko sem er ónæm fyrir öllum þeim lífræna hernaði sem manneskjur hafa beitt hver aðra er dulinn uppreisnarseggur. Lyfjafyrirtækin hafa í von um að geta fjárkúgað mannkynið skapað alls kyns vírusa og síðan selt lyf sín ofurverði, en erfðabreyttar mannverur á borð við Emiko eru skrefi á undan þeim. Í lok bókarinnar eftir dramatískt uppgjör milli stórfyrirtækjana og umhverfissinnana sem vilja viðhalda gamla vistkerfinu, er Emiko orðin frjáls og ekki nóg með það heldur er hún frjó.

Það leikur ekki vafi á því í lok bókarinnar að brátt muni fara fyrir mönnunum líkt og fór fyrir köttunum. Þeir hafa skapað heim og keppinaut sem þeir ráða ekkert við.

Ógrynnin öll af möguleikum

Það sem skrifað er í vísindaskáldskap dagsins í dag varpar að sjálfsögðu mestu ljósi á það sem samfélag sem skapar hann, ekki það samfélag sem framundan er. Sumir myndu þræta fyrir flokkun Ishiguro sem vísinda-höfund, en í sjálfu sér skiptir sú flokkun engu máli. Fyrir stuttu síðan var smávægilegur ágreiningur innan bókmenntaheimsins um hvað okkur ætti að finnast um að nýjasta skáldsaga Ishiguro „The sleeping giant“ væri flokkuð til fagurbókmennta en ekki furðusagna eða fantasíu. Líkt og flestar bækur Ishiguro var meiri fókus á endurminningar heldur en eiginlega atburði, og hún þannig ekki ólík Dreggjum dagsins eða „An artist of the floating world“ þrátt fyrir yfirnáttúruleg öfl eins og dreka á blöðum hennar. Slíkt er óvenjulegt fyrir fantasíu, sem flestar eru með sögupersónur reiðubúnar til að berjast fyrir einhverju og fyrir vikið afar skýra baráttu. Ishiguro og Bacigalupi bjóða okkur báðir upp á leið til að velta fyrir okkur klónunartækni, og í grunninn snúast bækurnar báðar um sömu siðferðislegu vangavelturnar: Megum við það?

Í báðum tilvikunum er lesandanum boðið upp á að dæma um það. Ég veit ekki hvað mér finnst um að Emiko gæti orðið formóðir nýs mannkyns, ég deili sennilega skoðun Dr. Frankenstein og Mary Shelley á því, en hvað finnst mér um Monsanto eða erfðabreytingar á fóstrum til að koma í veg fyrir arfgenga sjúkdóma?

Í öllu falli get ég lofað því að lestur á The Wind up girl og Slepptu mér aldrei er vís til að halda manni andvaka, á bæði góðan og slæman máta.

E.S.
Hér eru önnur blogg sem tengjast efninu beint og óbeint.

Eru fagurbókmenntir til.
Eru furðusögur til.
Seinustu manneskjurnar.
Vélveran.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni